Fara í efni

TILLAGA VG SAMÞYKKT


Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt tillögu Þorleifs Gunnlaugssonar, borgarfulltrúa VG, um að fram fari samsvarandi rannsókn hjá borginni og nú hefur farið fram hjá ríkinu um samspil stjórnmála og viðskiptalífs. Furðu lítið hefur farið fyrir þessari samþykkt í fjölmiðlum - alla vega minni en efni standa til. Það merkilega við þessa tillögu er að hún skuli nær umræðulaust fást samþykkt. Ef til vill vilja allir kjörnir fulltrúar hjá borginni gera hreint fyrir sínum dyrum og forvera sinna. Önnur skýring blasir þó einnig við: Framundan eru  kosningar og kjörnir fulltrúar vita sem er að andstaða við rannsókn af þessu tagi myndi nánast þurrka þá út af landakortinu. Á Íslandi á enginn stjórnmálamaður sér von um velgengni í pólitík nema hann veiti samþykki fyrir því að allt sé uppi á borðum og að enginn vafi sé á því að fjárhagslegir hagsmunir stjórnmálamanna ráði ekki gjörðum þeirra. Að þessu leyti er afstaðan í Borgarráði spegill á almannaviljann. Þjóðfélagið er nefnilega að vakna.  Enn er þó værukærð á sumum fjölmiðlum. Ekki minnist ég þess að sjá um þetta frétt í Sjónvarpinu svo dæmi sé tekið. En hafi Þorleifur Gunnlaugsson þakkir fyrir frumkvæðið, borgarráð fyrir samþykkið.  

 

Tillaga Þorleifs Gunnlaugssonar Tillaga

Lagt er til að skipuð verði nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggja fram tillögur að þeim breytingum sem hún telur þörf á.

Nefndin fái aðgang að skjalasafni Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar og sé jafnframt heimilt að kalla fyrir sig aðila í stjórnkerfi borgarinnar. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum.

Nefndin skal leggja fram starfsáætlun fyrir 1. júní 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar. Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 31. desember 2010. Kjaranefnd skal ákvarða laun og önnur starfskjör nefndarmanna.

Greinargerð:

Aðalverkefni nefndarinnar verði:
-Að kanna stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum með tilliti til þess hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.
-Að kanna hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar.
-Að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.
-Að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.
-Að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu borgarinnar eða eftir atvikum að koma fram með ábendingar um breytingar á þeim lagaramma sem sveitarfélögin starfa eftir.

Um leið og borgarráð samþykkir ofangreinda tillögu samþykkir ráðið að miða við að nefndin verði skipuð þannig að fullt samkomulag verði um skipan hennar