Fara í efni

JÓN BJARNASON ER EKKI EINN!


Vorið 2009 greiddi Jón Bjarnason, landbúnaðar -og sjávarútvegsráðherra,  atkvæði gegn því  að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu. Þetta var í fullu samræmi við það sem áður hafði verið sagt við myndun núverandi ríkisstjórnar að fyrirsjáanlegt væri að þingmenn VG myndu ekki greiða atkvæði á einn veg.
Jón Bjarnason hefur hins vegar sem ráðherra framfylgt þeirri stefnu sem Alþingi samþykkti varðandi aðildarumsóknina en hún gengur út á það, sem kunnugt er, að fá fram niðurstöðu í viðræðum sem síðan yrði kosið um í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þegar það síðan gerist að viðræðuferlið verður að aðlögunarferli - að því er séð verður - og boðið er upp á fjárveitingar til að smyrja ferlið sem best, þá spyrnir Jón Bjarnason við fótum enda er það í hans ráðuneytum sem mestu kröfurnar eru reistar. Þetta er fullkomlega málefnalegt og eðlilegt og nokkuð sem ríkisstjórnin mun án efa taka til skoðunar af fullri alvöru.
Þá er hitt ljóst að á nákvæmlega sama hátt og stuðningsmenn stjórnarinnar eru frjálsir að því að tjá Evrópusambandinu ást sína, þá eru aðrir frjálsir að hafa uppi efasemdir um slíkt ástarsamband. Rétt er að hafa í huga að síðarnefndi hópurinn á hljómgrunn með stórum hluta þjóðarinnar - að öllum líkindum meirihlutanum eins og staðan er nú! Læt ég þá liggja á milli hluta að VG er andvígt aðild sem stjórnmálaflokkur í ályktunum sínum og stefnu.
Þetta skyldu þeir hafa í huga sem nú fara hamförum gegn Jóni Bjarnasyni á netinu  og víðar á þann hátt að líkja má við pólitískt einelti. En Jón er ekki einn. Hvorki í sínum flokki né með þjóðinni.