EFLUM LÝÐRÆÐIÐ: KJÓSUM !


Í dag er kosið til Stjórnlagaþings. Mikill fjöldi kröftugra einstaklinga býður sig fram í kjörinu, konur og karlar, ungir og gamlir, þéttbýlisbúar og dreifbýlisbúar. Mikilvægt er að við tryggjum góða blöndu kvenna og karla, landsbyggðar og þéttbýlis, eins góðan kokteil og verða má.
Mestu máli skipta að sjálfsögðu áherslur frambjóðenda. Vilja þeir lýðræði eða forræði, almannavald eða auðvald, sjálfstætt þing eða ósjálfstætt, auðlindir í almannaeign eða einkaeignarhald á orkulindum og sjávarfangi?
Ekki velkist ég í vafa um hvað ræður mínu vali.
Að mínu mati hefur vel verið staðið að kynningunni, myndarlegt blað með stuttu ágripi af áherslum hvers og eins hefur verið sent á hvert einasta heimili í landinu. Það var alla vega ætlunin.
Margir höfðu efasemdir þegar haldið var í þessa vegferð. Mín tilfinning er sú að þær efasemdir fari dvínandi. Fólk vill að vel takist til. Okkar allra vegna. Best styrkjum við þetta mikilvæga lýðræðislega framtak með því að fara á kjörstað og hvetja sem flesta til að taka þátt. Þannig styrkjum við og eflum lýðræðið!

Fréttabréf