Í FRÉTTUM VAR ÞETTA HELST...


Þrír þingmenn VG sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga í síðustu viku. Það hefur orðið stjórnmálamönnum  og fjölmiðlafólki umræðuefni og sumum hneykslunarefni. Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, talaði um óstjórntækt fólk, haldið öfgaskoðunum. Þorsteinn Pálsson, fréttaskýrandi í laugardagsútgáfu sama blaðs, sá hinn sami og telur að stjórnmálamenn gangi kaupum og sölum, talar í sömu veru. Hvorugur treystir sér til að skilgreina þessar meintu öfgar - báðir láta sér nægja  að fordæma.
Flokksfélagi minn - starfandi þingflokksformaður í fjarveru Guðfríðar Lilju  Grétarsdóttur, sem er í fæðingarorlofi - segist vart trúa Morgunblaðsfrétt um að hjásetumenn hafi átt spjallfund með tveimur ráðherrum, Jóni Bjarnasyni og Ögmundi Jónassyni ásamt þingflokksformanni í fæðingarorlofi.  Honum er alveg óhætt að trúa fréttinni - enda var ég búinn að staðfesta spjallið  í viðtali við fréttamiðil: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/12/20/hjaseta_kom_ekki_til_greina/ 
Eitt er þarna ofsagt, að ég hafi fyrst frétt af hjásetunni við atkvæðagreiðsluna, það var ég búinn að gera áður. Ekki útiloka ég að ég kunni að þessu leyti að hafa verið óljós eða misvísandi við fréttamann. En rétt er haft eftir mér í beinni tilvitnun að á þessum fundi hafði engin ákvörðun verið tekin af hálfu viðkomandi einstaklinga. Þá vil ég nefna  að ráðgerðir um að fella ríkisstjórnina voru engar uppi nema síður væri þótt eftirá langi marga til að gera því skóna.
Hitt má Árni Þór Sigurðsson vita að á forsíðu Morgunblaðsins birtist "fréttin"  undir stríðsfyrirsögn, ekki vegna þess að hún væri merkileg heldur til þess eins að gera þessar samræður tortryggilegar og skapa illindi. Nú vill svo til að ég talaði við marga fleiri í aðdraganda afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og þar á meðal formann flokksins,  Steingrím J. Sigfússon - og fleiri.  Og það hafa aðrir án efa  gert líka.

Enginn að fela eitt né neitt

Það er ekkert felumál að í VG hefur verið djúpstæður ágreiningur um ýmsa hluti. Er undarlegt að flokkur sem ekki vill ganga í ESB deili þegar sótt er um aðild að ESB? Menn skýra málstað sinn og takast á um hann. Slæmt? Varla. Við tókum upp stefnu og áherlsur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sumum fannst þetta rétt og eru sammála þessum áherslum og telja þær skynsamlegar, óháð AGS.  Það á við um þorra alþingismanna. Það átti við um aðila vinnumarkaðar sem undirrituðu Stöðugleikasáttmálann og vildu jafnvel ganga harðar fram í niðurskurði! Aðrir voru og eru á öndverðum meiði, þar á meðal ég. Á að þagga þessa umræðu niður? Ekki vil ég það. Sumir töldu þegar um haustið 2008 og svo aftur um vorið 2009 að lífsnauðsynlegt væri að ganga frá Icesave sem allra fyrst. Ekki var þessi skoðun einvörðungu uppi innan þings, heldur einnig utan þings. Sjálfur fékk ég ófáa fyrirlestra frá ýmsum félögum mínum í pólitík, verkalýðshreyfingu og akademíu, sem voru andheitir í formælingum gegn okkur sem vildum hinkra við með að semja. Auðvitað var um þetta deilt. Slæmt? Varla.

Leyfi mér að gjalda varhug við...

Í fyrsta lagi leyfi ég mér að gjalda varhug við meintum "miðjumönnum", sjálfskipuðu "hófsemdarmönnunum",  sem skilgreina alla þá út á kantinn sem ekki fljóta með straumnum.  Ég minnist þess þegar Framsókn var áköfust að skilgreina sig sem miðjuflokk. Það var þegar hún gaf  bankana og rafmagsnseftirlitið. Þá átti hún í höggi við nokkra - ekkert mjög marga - "óstjórntæka öfgamenn".  Ætli það hafi ekki líka verið óstjórntækir öfgamenn sem mótmæltu Þorsteini Pálssyni þegar hann  hóf einkavæðinguna með því að gefa Síldarverksmiðjur ríkisins á tíunda áratugnum? Kannski ekki að undra að þeim manni sé tamt að tengja stjórnmál sölumennsku.
Í öðru lagi finnst mér rétt að hugleiða að nú er í alvöru farið að tala um það sem sjálfsagðan hlut að reka fólk úr stjórnmálaflokki!
Ég hélt að þessu tímabili hefði lokið með falli sovéska kommúnistaflokksins. Staðreyndin er náttúrlega sú að alþingsmenn eru kjörnir  á þing undir merkjum stjórnmálaflokka. Það hefur enginn rétt til að skipa einum eða neinum fyrir verkum eða reka á dyr. Hver og einn verður að eiga það við sjálfan sig hvort hann eða hún er  trúr þeim fyrirheitum sem gefin voru kjósendum. En fjölmiðlafólk heldur áfram að spyrja  engu líkara en Pravda sé enn við lýði: "Er þeim sætt í þingflokknum...?"
Ég spyr á móti , hver skyldi vera þess umkominn að svara annar en viðkomandi sjálfur?

Þá mun slakna á öllu...

Ef til vill rennur sá dagur upp að deiluefnin - en ekki deilendur  - verða krufin til mergjar. Hvort sem er efnahagsstefna AGS,  skattar, niðurskurður, vegatollar, Icesave,  staðgöngumæðrun, ESB , NATO, brunavarnir á flugvöllum, Þjórsárver eða Kárahnjúkar. Þegar það gerist,  þá mun slakna á öllu.

Fréttabréf