FJÖLMIÐLARNIR HAFA STAÐIÐ SIG VEL - FLESTIR


Í aðdraganda Icesave kosninganna hafa fjölmiðlar kappkostað að draga fram rök með og móti Icesavesamningnum. Að mínu mati hafa þeir staðið sig aðdáunarlega vel. Ríkísútvarpið hefur efnt til vandaðrar sjónvarpsþáttaraðar um málefnið og þannig risið undir skyldu sinni sem fjölmiðill í almannaeign.

Treysti á fjölmiðla

Margir höfðu af því áhyggjur þegar ég lýsti því yfir fyrir hönd Innanríkisráðuneytisins að ráðuneytið sem framkvæmdaaðili kosninganna, myndi ekki standa fyrir kynningu annarri en þeirri sem lagabókstafurinn kvæði á um. Töldu margir að þar með yrði kynningu áfátt. Af því hafði ég aldrei áhyggjur því ég treysti á fjölmiðlana og umræðu, skipulagða og óskipulagða. Lögfræðingar færðu síðan fyrir því rök að ráðuneytið hefði ekki heimild til að gera meira en skilgreint var í lögunum.
Eftir að Lagastofnun Háskóla Íslands fékk viðfangsefnið í sínar hendur samkvæmt ákvörðun Alþingis átti ég viðræður við fulltrúa stofnunarinnar um áherslur ráðuneytisins á að hlutleysis yrði gætt og hugað að gagnkvæmum sjónarmiðum við kynningu fyrir kosninguna. Lagði ég áherslu á að Innanríkisráðuneytið léti sig einvörðungu formið varða hvað þetta snertir en ekki innihald kynningarefnis. Innihaldið yrði algerlega á forræði og ábyrgð Lagastofnunar.

Að varðveita hlutleysi og óhlutdrægni

Sem innanríkisráðherra átti ég einnig viðræður við Ríkisútvarpið í þessum anda. Sjálfur tók ég þá ákvörðun að best færi á því að ég héldi mig fyrir utan þessa umræðu á opinberum vettvangi í ljósi þess að ég hef það hlutverk að veita forstöðu því ráðuneyti sem hefur með höndum það verkefni að sjá um að hlutleysis sé gætt í opinberri kynningu og framkvæmd kosninganna.
Svo alvarlega tók ég þetta hlutverk mitt að ég hætti við að birta hér á heimasíðu minni hugleiðingar um kosti og galla við Icesave sem kjósendur stæðu nú frammi fyrir, jafnvel þótt þar kæmi ekki fram áskorun til lesenda um að kjósa á tiltekinn hátt. Vel má vera að ég birti þennan hulgeiðingapistil síðar enda þar stiklað á ýmsum sögubrotum úr Isave ferlinu sem ég þekki nokkuð vel - og þá af bæði súru og sætu.

Að láta menn neita eða játa

Vefmiðillinn Eyjan beindi í morgun til mín spurningu um afstöðu mína í málinu og átti ég henni ósvarað þegar á Eyjunni birtist fullyrðing "samkvæmt traustum heimildum" um afstöðu mína í kosningunni á morgun.  Þetta virðist mér í anda vel þekktrar tegundar fréttamennsku - að fullyrða og láta menn síðan neita eða játa. Slík fréttamennska hefur aldrei þótt sérlega virðingarverð og ekki ætla ég að taka þátt í slíkum leik, enda fyrirsögn þessa pistils: Fjölmiðlar hafa staðið sig vel - flestir.

Fréttabréf