Fara í efni

RADDIR FORTÍÐAR - FARISEAR NÚTÍÐAR


Ekki man ég í augnablikinu hvaða hugtak Danir nota um forræðishyggju. En skilgreininguna á forræðishyggju fengu danskir sjónvarpsáhorfenfur í skrafi tveggja fyrrum danskra stjórnmálamanna sem dóseruðu um íslensk stjórnmál í dönsku sjónvarpi og íslenskir sjónvarpsáhorfendur fengu síðan að sjá í kvöld.
Þeir Uffe Elleman Jensen og Mogens Lykketoft töluðu niðrandi til íslenskra kjósenda og lýðræðisins almennt. Hlutur forsta Íslands var talaður niður í svaðið en hans meinta sök var að hafa vísað Icesave-deilunni til þeirra sem á endanum eiga að borga brúsann. Þessir tveir gömlu stjórnmálamenn urðu ekki aðeins sjálfum sér til skammar heldur þeirri tegund stjórnmála sem ekki skilur að valdið er hjá þjóðinni, ekki fulltrúum hennar, hvað þá stjórnmálaflokkum. Ef þjóðin vill taka ákvörðunarvaldið til sín þá hefur hún þann rétt og það er grundvallarréttur. Við slíkri kröfu varð forseti Íslands.
Tuttugasta og fyrsta öldin á eftir að verða öld hins beina lýðræðis. Þá munu kjósendur taka beint í sínar hendur ákvarðanir sem til þessa hafa verið á hendi kjörinna fulltrúa eða stjórnmálaflokka.
Synd að þessir tveir gamalreyndu dönsku stjórnmálamenn skuli ekki skilja sinn vitjunartíma. Með framgöngu sinni urðu þeir fulltrúalýðræðinu til skammar, þótt þess þurfi ekki til, nú þegar vindar alvöru lýðræðis blása um heim allan. Hrikalegt var að heyra tal þeirra um Grikki, Portúgali, Spánverja, Íra og Ítali sem þjóðir sem aldrei sé hægt að treysta. Þessar þjóðir voru þó margar sterkefnaðar árið 1813 þegar Danir urðu gjaldþrota vegna hafnbanns Breta. Engin vitund um eigin sögu, engin hugmynd um virðingu fyrir öðrum þjóðum. Hvað sögðu ekki farísearnir: Góði Guð, þakka þér fyrir að ég skuli ekki vera einsog hinir, sem stela og eru óheiðarlegir. Mogens og Uffe, móderne farísear.
sjónvarpsþáttur
http://sputnik.tv2.dk/play/ellemann-og-lykketoft-30130/   Hér er allur þátturinn, einnig með lokaorðum um þau ríki sem ekki standast próf þeirra Mogens og Uffe.