Fara í efni

ÞINGFLOKKSFORMENNSKAN OG PRINSIPPIN


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mætti í gær úr fæðingarorlofi og stóð ég og fleiri í þeirri trú að hún tæki að nýju við sem þingflokksformaður einsog hún var þegar hún fór í fæðingarorlofið. En á þennan veg fór það ekki. Efnt var til atkvæðagreiðslu sem fór á þá lund að Árni Þór Sigurðsson var kjörinn gegn fjórum atkvæðum til Guðfríðar Lilju. Þar með hafði hún verið svipt stöðu sinni.
Hvers vegna tek ég þessi innanflokksmál upp hér á opnum vettvangi? Ég geri það vegna þess að ég tel þetta ekki vera neitt einkamál - eða þess vegna innanflokksmál.
Í verkalýðshreyfingunni þar sem ég var starfandi um langa hríð var litið á það sem grundvallarmál, að virða rétt foreldra í fæðingarorlofi. Það á ekki að geta gerst að einstaklingur í fæðingarorlofi sé sviptur starfi sínu eða embætti og þegar sá hinn sami kemur til baka á hann að ganga inn í sitt fyrra starf. Engu breytir þótt slik ákvörðunin sé tekin í atkvæðagreiðslu. Það  er ákvörðun engu að síður og að baki henni hvílir ábyrgð.