Fara í efni

GRUNDVALLARBREYTING: TIL VARNAR MANNRÉTTINDUM GEGN GLÆPUM

SMUGU sitelogo
SMUGU sitelogo

Birtist á vefritinu Smugunni 20.05.11
Við fyrstu sýn kann ný reglugerð um sérstakar aðferðir lögreglu við rannsókn sakamála, sem birt var á vef innanríkisráðuneytisins í dag, að virðast íþyngjandi og jafnvel vafasöm. Þannig blasti málið við mér þegar ég skoðaði frumdrogin ad reglugerdinni í fyrsta sinni en síðan þá hafa tekið umtalsverðum breytingum. Þær rannsóknaraðferðir sem kveðið er á um í reglugerðinni eru t.a.m. beiting tálbeita og flugumanna, samband lögreglu við uppljóstrara innan glæpahóps, notkun dulargerva og svokölluð skygging, sem felur í sér eftirlit með grunuðum einstaklingi í almannarýminu.

Með reglugerðinni eru settar þrengri og skýrari skilyrði fyrir beitingu þessara rannsóknaraðferða en áður hefur verið gert. Áður voru í gildi leiðbeininingar sem ríkissaksóknari setti árið 1999 en þær voru hvergi birtar opinberlega og mismunandi skilyrði voru fyrir beitingu ólíkra aðferða.

Afmarkað við alvarleg brot
Þau skilyrði eru sett fyrir rannsóknarheimildum sem þarf dómsúrskurð fyrir samkvæmt lögum, s.s. símhlerun og notkun eftirfararbúnaðar, að mögulegt brot sé alvarlegt og varði í það minnsta átta ára fangelsi að lögum eða að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Hvergi er að finna í lögum eða reglum skilgreiningu á því hvað felst í almanna- eða einkahagsmunum. Þvert á móti er um mjög teygjanleg hugtök að ræða.

Þegar ekki er notast við þann öryggisventil sem dómstólum er ætlað að vera í ofangreindum tilfellum er skynsamlegra að stíga varlega til jarðar og þrengja heldur skilyrðin fyrir þeim heimildum sem lögreglan hefur án aðkomu dómstóla. Þess vega er kveðið sérstaklega á um þau brot sem reglugerðin nær til og varða fangelsi skemur en átta ár. Þar á meðal eru kynferðisbrot á borð við vændi og nettælingu sem beinist að börnum, auðgunarbrot og smærri fíkniefnabrot. Þá er sérstaklega kveðið á um að rannsóknarúrræðunum megi beita gegn skipulagðri glæpastarfsemi en við henni sem slíkri liggur fjögurra ára fangelsi.

Breyttar pólitískar áherslur

Skilaboðin með þessari reglugerð eru skýr: Við beitum öllum tiltækum ráðum til að sporna við glæpum með því að heimila sérstakar rannsóknaraðferðir í baráttu gegn glæpasamtökum og einstaklingum sem stunda grófa glæpi og brjóta niður mannréttindi annarra. Hins vegar er ekki heimilt að beita slíkum rannsóknaraðferðum gegn grasrótarsamtökum eða hópum sem stunda pólitískt andóf. Sem dæmi má nefna að nú þegar reglugerðin tekur  gildi er skýrt að ekki eru heimildir fyrir starfsemi flugumanna á borð við breska lögreglumanninn Mark Kennedy sem tók þátt í mótmælum á Kárahnjúkum árið 2005.
Þarna er því um grundvallarbreytingu að ræða.