FRAMTÍÐ REYKJAVÍKURFLUGVALLAR

MBL -- HAUSINN

Birtist í Mogunblaðinu 22.07.11.
Málefni Reykjavíkurflugvallar hafa verið nokkuð til umfjöllunar að undanförnu í tengslum við fyrirhugað samkomulag ríkis og Reykjavíkurborgar um að bæta aðstöðu fyrir innanlandsflugið. Hvað sem langtímaáformum líður þá verður ekki undan því vikist lengur að bæta aðstöðu fyrir farþega og starfsfólk. Um þetta er sem betur fer að skapast samstaða. Í framhaldinu hefur síðan kviknað að nýju umræðan um framtíð flugvallarins til langs tíma. Í því sambandi hef ég talað fyrir því að málið verði útkljáð í almennri atkvæðagreiðslu sem taki til landsins alls.

Í grein í Morgunblaðinu 21. júlí segir Einar Eríksson að atkvæðagreiðsla um málið hafi þegar farið fram. Það er vissulega rétt að 17. mars 2001 var efnt til almennrar atkvæðagreiðslu um flugvallarmálið en sú atkvæðagreiðsla tók til Reykvíkinga einna. Ekki landsmanna allra, sem eðlilegt hefði verið, enda eiga þeir bæði höfuðborgina, landið undir flugvöllinn og eiga auk þess mikið undir því að flugsamgöngur séu eins greiðar og kostur er.

Fyrir þessa atkvæðagreiðslu í Reykjavík samþykkti borgarráð á fundi 13. febrúar 2001 að atkvæðagreiðslan yrði bindandi ef 75% atkvæðisbærra manna tækju þátt eða að 50% atkvæðisbærra manna greiddu öðrum valkostinum atkvæði sitt. Þátttakan var hins vegar mjög lítil, einungis 37,2%. Lýstu 18% kosningabærra manna stuðningi við flugvöllinn en 19% vildu völlinn burt. Þarna skildu einungis að rúm 300 atkvæði.

Frá því að atkvæðagreiðslan fór fram hefur mikið vatn runnið til sjávar og leyfi ég mér að fullyrða að viðhorf til Reykjavíkurflugvallar hafa breyst mikið. Ef menn á annað borð vilja byggja á almennum lýðræðislegum vilja, sem ég tel einboðið hvað þetta þverpólitíska ágreiningsefni varðar, þá leyfi ég mér að spyrja hvort nokkuð mæli gegn því að efna að nýju til atkvæðagreiðslu og láta hana ná til landsmanna allra?

Fréttabréf