VEGTOLLAR OG KÚLULÁN Í BOÐI SAMTAKA IÐNAÐARINS

Birtist í Morgunblaðinu 05.07.11
MBL -- HAUSINNHelgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, segir í grein í Morgunblaðinu 4. júlí, að hann vilji vera stórhuga maður, líkt og Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi. Þorvarður hvatti nýlega til þess á fundi með Samtökum atvinnulífsins að stofnaður yrði Framkvæmdasjóður upp á 120 milljarða til að bora í gegnum fjöll og bæta vegi á næstu tólf árum. Helgi segist vilja gera enn betur, afla 120 milljarða og verja þeim til framkvæmda á næstu fimm árum.

En hvernig á að borga? Samkvæmt mínum útreikningum myndu vextir af þessari upphæð nema að lágmarki um fimm milljörðum króna á ári. Báðir hafa þessir menn, Helgi og Þorvarður, talað fyrir vegtollum, Þorvarður vill dreifa þeim á landið allt en Helga hef ég ekki heyrt úttala sig um það nákvæmlega. Hann er einfaldlega fylgjandi vegatollum.

Helgi segist vera "einlægt" á móti skattahækkunum og þá vill hann einnig að lesendur viti að ef settir verði á vegtollar þá vilji hann að skattheimta á umferðina verði lækkuð að sama skapi. Með öðrum orðum, svo er að skilja að ekki sé verið að tala um viðbótarfjármagn!

Vandast nú málið að skilja hvað snýr upp og hvað niður hjá formanni Samtaka iðnaðarins sem er álíka rökvís í málflutningi sínum og Vilmundur Jósepsson var í grein í þessu blaði nýlega þar sem hann sagði undirritaðan vera á móti atvinnusköpun án þess að færa fyrir því önnur rök en að ég væri andvígur vegtollastefnu Samtaka atvinnulífsins sem ég hef lýst sem ómarkvissri og kostnaðarsamri leið til atvinnusköpunar eins og hún hefur verið kynnt.

Það er hins vegar rétt sem almenn staðhæfing að fjárfestingar í atvinnurekstri geta dregið úr kostnaði við atvinnuleysisbætur. Þær framkvæmdir sem Helgi og Vilmundur hafa nefnt eru hins vegar ekki markviss leið til mannfrekrar atvinnusköpunar. Ég hef aftur á móti óskað sérstaklega eftir því við Vegagerðina að hafa það sem eitt af meginleiðarljósum við ráðstöfun fjármuna að framkvæmdir sem ráðist er í geri það í senn að auka öryggi í umferðinni og skapa eins mörg störf og kostur er. Það er rétt að rifja það upp að þau samtök sem þessir tveir menn, Helgi Magnússon og Vilmundur Jósepsson, eru í forsvari fyrir, vildu ganga enn lengra í niðurskurði hjá hinu opinbera en jafnvel Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til vorið 2009 - og aldrei hef ég orðið var við varnaðarorð af þeirra hálfu þegar starfsfólk í heilbrigðisþjónustu, skólakerfi eða þjónustu við fatlaða hefur misst vinnu sína vegna niðurskurðar.

Ég auglýsi eftir því að þessi umræða verði dýpkuð og hún látin taka til allra framkvæmda og starfsemi á vegum hins opinberra, jafnt þjónustu við fatlaða, löggæslu og vegagerð.

Í Morgunblaðsgrein sinn grætur Helgi Magnússon þá ógæfu ("en Íslands ógæfu verður allt að vopni", ekki vantar dramatíkina!) að missa Kristján L. Möller úr embætti samgönguráðherra og fá undirritaðan í hans stað. Kristján hafi nefnilega verið svo gott sem búinn að semja við lífeyrissjóðina um fjármagn til stórframkvæmda í samgöngumálum á suðvesturhorninu þegar hann hvarf úr embætti. Þetta er rangt. Þessir samningar voru ekki frágengnir, langt í frá, en Kristján fékk hins vegar það verkefni að reyna að ná þar niðurstöðu eftir að hann hætti sem ráðherra. Niðurstöðu náði hann hins vegar ekki og slitnaði upp úr viðræðum við lífeyrissjóðina undir handarjaðri Kristjáns L. Möllers. Af þessu margítrekaða tilefni sé ég ástæðu til að leiðrétta þetta.

Helga Magnússyni þykir það vera útúrsnúningar af minni hálfu þegar ég hef líkt aðferðafræði á borð við þá sem hann og Þorvarður Hjaltason boða, kúlulánahugsun. Þetta eru ekki útúrsnúningar. Kúlulánahugtakið var notað um lán sem tekið var afborgunarlaust og skyldi skuldbindingin færð inn í framtíðina, oftar en ekki á óljósum forsendum. Ef Helga Magnússyni þykir hann hafa fært fyrir því skýr rök hvernig eigi að greiða 120 milljarða fjárfestingu sem ráðist yrði í á næstu fimm árum utan fjárlaga, með vegtollum en samfara skattalækkun, þá þykir mér vægast sagt mikið upp á vanta til að hægt sé að taka hann alvarlega.

Grein sína í Morgunblaðinu nefndi Helgi Magnússon Hugsum stórt - ekki eins og Ögmundur. Það er nefnilega það. Ætli þetta hafi ekki verið hluti af okkar vanda, menn sem sögðust vilja hugsa stórt, en þegar á hólminn kom reyndist stórhugurinn á sandi reistur og það sem verra er, alltaf á kostnað annarra!

Fréttabréf