ARFLEIFÐ AGS LÍMIST EKKI INN Í STJÓRNMÁLASÁLINA!
Ef ég ætti að reyna að finna ljósan blett á
Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hér hefur verið í heimsókn um skeið,
þá myndi ég nefna að samkvæmt mínum dómi var hann stundum raunsærri
á sitthvað sem varðar gjaldeyrisflutninga en margur landinn sem
vildi opna allt upp á gátt og leyfa þar með "spekúlöntum" að valsa
inn og út úr hagkerfinu að vild.
Virðing fyrir fjármagninu í öndvegi
Þetta breytir ekki þeirri staðreynd að erindagjörð
Alþjóðagjldeyrissjóðsins og fulltrúa hans til Íslands var öðru
fremur að passa upp á hagsmuni alþjóðafjármálakerfisins og
innræta tilhlýðilega virðingu fyrir því í gjörðum íslenskra
stjórnvalda. Þetta voru þröskuldarnir sem Íslendingar yrðu að stíga
yfir til að fá aðgang að erlendu lánsfjármagni sem
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var reyndar áfjáður í að við tækjum
til að standa skil á okkar skuld við kapítalið - og þá
skuld uppáskrifaða af ríkinu fyrir hönd skattborgara
framtíðarinnar.
Á vegum AGS var aldrei spurt um það svo ég heyrði til, hvaða áhrif
hagfræðimódel sjóðsins hefði á líf fólks í landinu; hvernig
ástandið væri á spítölum eða hvort öryrkjar næðu endum saman eftir
skerðingu á lögbundnum kjörum þeirra. Það stóð hins vegar
ekki á AGS þegar rætt var um hugmyndir um almenna niðurfærslu lána,
fyrningu vegna gjaldþrota, hallann á ríkissjóði og
fjármálaskuldbindingar út í lönd. Þá var sjóðurinn mættur með allar
sínar ráðleggingar og dómsdagsspár.
Tilskipanir í stað samstarfs og samvinnu
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi líka láta innræta okkur
vinnubrögð við fjárlagagerð sem byggðu á tilskipunum að ofan og
minnist ég sérstakrar kennslustundar, sem efnt var til með
ríkisstjórninni til að kenna tilskipunarfræðin.
Af þessum sökum fagna ég brotthvarfi AGS og vona að okkur takist að
losa okkur sem fyrst undan innrætingu sjóðsins svo arfleifð þessa
varðmanns alþjóðafjármagnis festist ekki í sálarlífi
stjórnmálaþjóðarinnar til frambúðar.
Ég er ekki í hópi þakklátra útskriftarnema úr skóla
Alþjóðagjaldeyrisssjóðsins.