Fara í efni

HVERS VEGNA SAGÐI ENGINN NEITT?


Hinir mætu útvarpsmenn Ævar Kjartansson og Jón Ormur Halldórsson ræddu við Jón Baldvin Hannibalsson um helgina. Sjálfur er ég ekki enn búinn að hlusta á þáttinn en hef lesið umfjöllun um hann (sjá slóðir að neðan), m.a. á Eyjunni.
Í þættinum var spurt hvers vegna hafi verið lítið viðnám hér á landi við einkavæðingarfárinu  og nýfrjálshyggjunni sem reið röftum  á árunum undir hrun. Svo er að skilja að Jón Baldvin hafi meðal annars svarað því til að Samfylkinguna hafi skort sýn jafnaðarmanna á stjórnmálin eins og gömlu kratarnir hefðu búið yfir. Annars hefði Samfylkingin aldrei lagt fylgilag við hugmyndir af þessu tagi.

Hluti af alþjóðegri bylgju

Þetta held ég að sé rétt svo langt sem það nær. En því miður held ég að þessi skýring nái ekki mjög langt.
Tvennt finnst mér að þurfi að hafa í huga í þessari umræðu.
 Í fyrsta lagi var það ekkert séríslenskt fyrirbrigði að gefast upp fyrir nýfrjálshyggjunni undir lok tuttugustu aldarinnar og á fyrstu árum hinnar tuttugustu og fyrstu aldar. Þessi hugmyndafræði  fór sem eldur í sinu um heimsbyggðina gervalla. Nánst ekkert land var ósnortið og víðast hvar urðu straumhvörf í stjórnmálum og viðhorfum til efnahagsmála. Mörg lönd urðu illa úti. Ég nefni  Nýja Sjáland og Bretland sérstaklega þar sem „ný-jafnaðarmenn" stýrðu för. Margrét Thatcher, íhaldsjárnfrúin breska, var sögð hafa haft mikið dálæti á „verkamannaleiðtoganum" Tony Blair, fyrir framgöngu hans í New Labour! Ég horfi líka til Evrópu almennt þar sem „jafnaðarmenn" ,evrópskir sósíaldemokratar, áttu drjúgan þátt í að skapa Evrópusambandinu hugmyndagrunn sem ofar öllu öðru byggði á stífri markaðshyggju. Og Alþýðuflokkur Jóns Baldvins var nú ekki beinlínis ósnortinn af þessari hugsun í samkrullinu við Sjálfstæðisflokkinn á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar þegar reynt var að þrengja markaðshugsun inn á heilbrigðisstofnanir svo dæmi sé tekið.
Í örðu lagi þarf að hafa í huga að hægri-hyggja undangenginna ára, sem tók að rísa í byrjun níunda áratugar síðustu aldar, náði til allra stjórnmálaflokka og nánast allra stofnana samfélagsins,sósíalískra flokka ekkert síður en miðju- og hægri flokka, að ekki sé minnst á verkalýðshreyfinguna. Einnig hún fór í vaxandi mæli að hugsa á frjálshyggjunótum. Undantekningin sannar vissulega regluna í þessu efni sem öðrum. Hér á landi hélt BSRB allan tímann uppi hörðu andófi gegn einkavæðingu og markaðshyggju og samtök á borð við  Public Services International, Alþjóðasamband starfsfólks í almannaþjónustu, og að sjálfsögðu mörg önnur, gerðu slíkt hið sama erlendis. En stramurinn var í átt til undanlátssemi og samsömunar við markaðshyggjuna.

Tíðarandinn var til hægri

Þetta held ég að sé skýringin á viðnámsleysinu: Tíðarandinn var til hægri. Hann var kominn langt til hægri við það sem áður var. Stjórnmál sjöunda og áttunda áratugarins hefðu aldrei þolað einkavæðingu og fjármálaglæfra undangenginna tveggja áratuga! Þar er ég ekki bara að tala um Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið. Ég er líka - og ekkert síður - að tala um Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Stjórnmálaviðhorfin á þessum tíma voru einfaldlega allt önnur en síðar varð. Tíðarandinn upp úr miðri tuttugustu öldinni hefði ekki leyft þaðsem hann gerði í lok aldrainnar og byrjun nýrrar aldar.
En hvers vegna sagði enginn neitt? Þetta er einfaldlega rangt þótt stöðugt sé á því klifað að hér á landi hafi allir þagað þunnu hljóði. Svo var ekki þótt viðkomandi einstaklingar og samtök mættu sín lítils gegn öllum besserwisserunum í samtímanum. Þeir sem syntu gegn straumnum voru iðulega sakaðir um öfgar  -  kallaðir gapuxar sem ætti að senda úr landi  - á meðan handhafar tíðarandans skilgreindu sig sem hófsama menn - þess vegna jafnaðarmenn.

http://eyjan.is/2011/07/31/jon-ormur-kafar-djupt-hvad-var-serstakt-vid-island-hvad-i-okkar-sidum-og-menningu-sem-olli-hruninu/

http://eyjan.is/2011/07/31/jon-baldvin-efast-um-ad-ingibjorg-solrun-se-jafnadarmadur-af-hverju-er-framsokn-til-sogufolsunarfelagid-kaefir-viti-borna-umraedu/