Fara í efni

HIS MASTERS VOICE


Styrmir Gunnarsson virðist óðum að jafna sig á samviskubiti sínu yfir þátttöku í hinu "ógeðslega þjóðfélagi", sem hann nefndi svo í rannsóknarskýrslu Alþingis, og skrifar grein á Evrópuvaktina sem minnir á gamla takta. Þar er látið að því liggja að ég hafi "flúið" af vettvangi þar sem mér hafi þótt óþægilegt að vera nálægt þegar skærist í odda milli lögreglu og ríkisvalds, enda byggi ég feril minn á starfi í launþegahreyfingunni. Ég er stoltur af starfi mínu í verkalýðshreyfingunni og afstaða mín til lögreglunnar hefur ekkert breyst.  
Það er auðvitað erfitt fyrir mann einsog Styrmi, sem byggir feril sinn á dyggri þjónustu við helstu valdaklíkur landsins að trúa öðru en því að allar gerðir manna hljóti að hafa dulda meiningu: Eiginhagsmunir hljóti alltaf að ráða.
Það er sorglegt að sjá menn missa sig oní þessi gömlu hjólför og sannast sagna hafði ég búist við öðru af Styrmi Gunnarssyni. Hann hefur skrifað ágætar greinar og sumar framúrskarandi, reyndar heila bók um frelsi einstaklingsins á nýrri öld - uppgjör við liðinn tíma og prýðlilegt framlag til að vekja stjórnmálaumræðu samtímans.
En þegar á hólminn kemur sýnist mér fara lítið fyrir hinum frjálsa manni í pólitískum skrifum Styrmis þessa dagana. Þeim mun fyrirferðarmeiri er gamla gerðin af manni sem valdakerfin hafa alla tíð gert út á; hinum undirgefna þjóni, his masters voice. Þetta er hlutskiptið sem gamli Morgunblaðsritstjórinn virðist ætla okkur öllum á nýrri öld þrátt fyrir gefin fyrirheit um að vilja taka þátt í að frelsa okkur frá hinu „ógeðslega þjóðfélagi". 
Þannig kemur ítrekað fram að einstaklingurinn virðist í  huga Styrmis Gunnarssonar aldrei geta verið hann sjálfur, heldur sé hann talsmaður eða handbendi annarra - tiltekinna hópa eða tiltekinna afla. Þannig geti ég sem stjórnmálamaður - svo ég haldi mig við skrif hans um sjálfan mig - varla verið annað en þeir sem ég hef starfað fyrir; ekkert á eigin forsendum eða af eigin verðleikum: „En auðvitað er það heppilegt fyrir fyrrum verkalýðsleiðtoga opinberra starfsmanna, sem byggir pólitískan feril sinn á starfi sínu á þeim vettvangi, að vera víðs fjarri, þegar skerst í odda á milli rikisvalds og lögreglu út af kjaramálum."
Svona skrifar Styrmir.  Heldur dapurlegt þykir mér. Hans vegna.

Sjá nánar skrif SG:  http://evropuvaktin.is/i_pottinum/20358/
Eldra af sama meiði: https://www.ogmundur.is/is/greinar/upp-tekur-sig-gamalt-mein