VEIKLEIKI HRUNÁRANNA

Eitt má Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra, eiga. Hann er alltaf líkur sjálfum sér og sennilega sá maður sem hann helst langar til að vera; óhagganlegur í gömlum tíma. Sem slíkur er Björn okkur alla daga lifandi áminning um hvað það var sem fór úrskeiðis þann tíma sem honum var treyst til að halda um stjórnvölinn í íslenskum stjórnmálum;  þann tíma sem í Íslandssögunni verður eflaust skilgreindur sem Aðdragandi hrunsins.  Fyrir þetta getum við verið Birni Bjarnasyni þakklát.

En hvað var það sem fór úrskeiðis? Sennilega vegur þyngst ósjálfstæði í hugsun og póltískur réttrúnaður; fylgispekt við pólitíska forskrift.

Á þetta minnir Björn okkur svo ágætlega í síðustu viku þegar hann skrifar mikinn dómsdagspistil um meint óhæfuverk núverandi ríkisstjórnar.  Inn í skrif sín tekst honum á sinn hátt að hræra saman í eina blöndu ýmsu sem hann telur að gæti verið til þess fallið að skapa úlfúð og ala á tortryggni í garð núverandi ríkisstjórnar.  Í þessum skrifum fæ ég minn skerf:  Þannig væri ég andvígur lögreglunni, stæði meira að segja fyrir "aðför" að henni og reyndi að grafa " undan styrk" hennar " til að takast á við óeirðaseggi." Og nú þegar þetta ætlunarverk hefði tekist og við stæðum "á örlagastundu" í málefnum  lögreglunnar þá væri ég floginn úr landi, kominn á alþjóðlega ráðstefnu, og til hvers? Jú, viti menn, "að deila við menn um einkaframkvæmdir í vegagerð"!

Þetta þykir Birni hneykslanlegt. Og tækifærið notar hann til að hnýta því við að ég standi í vegi fyrir að einkaframkvæmd verði nýtt til að "efla þyrlukost landhelgisgæslunnar til frambúðar."  Ekki "þýddi að ræða þessa leið við Ögmund Jónasson, hann væri á móti henni af hugmyndafræðilegri ástæðu." Þessi andstaða við " öll nútímaleg viðhorf til opinberra stjórnarhátta veldur vandræðum á sífellt fleiri sviðum."

Hér ægir mörgu saman en við hljótum að fyrirgefa það.  Birni Bjarnasyni fær sennilega enginn mannlegur máttur breytt!  En mig langar  hins vegar til að beina því til pólitískra samverkamanna Björns að við notum skrif hans til að læra af: Rýnum gagnrýnið í pólitískar tískusveiflur hrunáranna.

Ein þeirra var einkaframkvæmdin. Í stað þess að staðhæfa að einkaframkvæmd hafi verið góð -  eða slæm, eftir atvikum, látum staðreyndir tala, reynsluna. Losum okkur með öðrum orðum úr viðjum þröngrar hugmyndafræði og mætumst í umræðu með rökum og staðreyndum: Var gott að selja húsnæðið ofan af opinberum stofnunum og gera þær að leiguliðum, iðulega á erfiðum kjörum? Hefur einkaframkvæmd í spítalabyggingum og rekstri sjúkrahúsa gefið góða raun þar sem sú leið hefur verið farin? Eða í samgöngumálum? Hefur tilkostnaðurinn orðið minni, byrðar skattborgarans léttari - eða kannski þyngri?  Skoðum nýjar skýrslur bresku ríkisendurskoðunarinnar og fjármálaráðuneytisins breska um reynsluna af einkaframkvæmd og ráðleggingar í þeim efnum.  Og hvað Landhelgisgæsluna varðar þá skulum við líka ræða hana málefnalega en ekki með sleggjudómum. Ég hef sagt að eins og sakir standa verðum við að leigja þyrlu og að helst vildi ég borga leiguna til íslenskra lífeyrissjóða - en að því gefnu að kjörin væru aðgengileg! Um það snýst það mál og ekkert annað! Með öðrum orðum, kredduhugsun er úthýst en  tekið  á málinu með hagsmuni Landhelgisgæslunnar og hagsmuni skattgreiðenda að leiðarljósi.

Að lokum þetta: Í skrifum sínum gerir Björn Bjarnason því skóna að nánast allt sem úrskeiðis hefur farið sé núverandi stjórnvöldum að kenna! Ekki kemur mér til hugar að kenna Birni og félögum hans í stýriklefa íslensku þjóðarskútunnar, í tvo áratugi í aðdraganda hrunsins, um allt sem hér hefur farið úrskeiðis og þar með þær þrengingar sem Íslendingar eiga nú við að stríða vegna rangrar stefnu þeirra í efnahags- og peningamálum. Þeir bera þar þó sína ótvíræðu sök - framhjá því geta þeir ekki horft -  og ættu fyrir vikið að hafa einhvern snefil af sanngirni og heiðarleika í skrifum sínum! Á því örlar ekki hjá Birni Bjarnasyni. En aftur þarna er kannski til að læra af  - en eflaust ekki með þeim formerkjum sem Björn Bjarnason sjálfur helst vildi.

Pistill Björns Bjarnasonar: http://www.bjorn.is/pistlar/nr/6030
Einnig byggt á dagbókarfærlsu á heimasíðu Bj. Bj. 28. 09.

Fréttabréf