UM VÖLD OG ÁBYRGÐ Í FJÁRMÁLAKERFIMörkin á milli "stjórnmála" og "fagmennsku"  eru ekki alltaf skýr. Á undanförnum árum hefur tilhneigingin verið sú að freista þess að minnka áhrifasvæði stjórnmálamanna. Í staðinn eigi einmitt að koma til sögunnar ákvarðanir byggðar á fagmennsku.

Þetta er að mörgu leyti vel  skiljanlegt í  ljósi þess hvernig stjórnmálamenn hafa iðulega farið með vald sitt. Hitt má þó ekki gleymast að stjórnmálamenn eru lýðræðislega kjörnir og að því gefnu að við viljum veg lýðræðisins sem mestan þá er það beinlínis hlutverk stjórnmálamanna að hafa áhrif.

Bankastjóri Landsbanakans sagði á aðalfundi LÍÚ að sér fyndist óeðlilegt að ríkið ætti banka. Svo var að skilja að hann teldi að áhrifa stjórnmálanna ætti ekki að gæta í bönkum. Þetta er sjónarmið sem ég er þó ekki sammála þegar kemur að ýmsum grundvallaratriðum hvað varðar skipulag og almennar áherslur.  En standi vilji manna í þessa átt þá skulum við líka - og í ljósi reynslunnar -  endurskoða allt sem snýr að ábyrgð ríkisins í fjármálakerfinu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að á endanum geti ríkið aldrei komist undan því að hlaupa undir bagga með einhverjum hætti þegar fjármálakerfi hrynur.  Þess vegna höfum við skattgreiðendur rétt til áhrifa í kerfinu.

 Umræðan er þörf og mikilvægt að spyrja grundvallarspurninga. Sjálfur hef ég annað veifið tekið þessa umræðu upp opinberlega og þá gjarnan teflt fram sem gagnstæðum pólum eignarréttindum og almannaréttindum: Hvoru á að forgangsraða; að verja eignarréttindi innistæðueigenda eða lögvarinn rétt öryrkja?

Allt þetta þarf fjármálakerfið og þeir sem þar halda um stjórnartauma að ígrunda. Iðulega fær maður það á tilfinninguna að þeir telji sig nánast geta staðið utan samfélagsins og skilji ekki í umsjónarhlutverki þeirra yfir fjármunum og ráðstöfun þeirra er fólgin samfélagsleg ábyrgð. Umræðu um þá ábyrgð þarf fjármálakerfið að taka.

En aftur að stjórnmálum og fagmennsku. Í mínum huga er verkefnið ekki að ýta stjórrnmálunum út úr ákvarðanatöku og minnka lendur lýðræðisins. Verkefnið er að gera stjórnmálin gsagnsærri, opnari og fagmannlegri.  Við fengum að kynnast "fagmönnunum" í fjármálageiranum í rúman áratug. Ungt fólk, margt sprenglært á sínu sviði, fór sínu fram óáreitt. Reyndar skal enginn segja mér að aldrei hafi fjármálafurstar fengið bréfkorn eða símtal  frá velgjörðarmönnum sínum á vettvangi stjórnmálannna einsog bankastjóri Landsbankans vék  að á fyrrnefndum aðalfundi útgerðarmanna.

En tilefni þessara skrifa minna nú eru reyndar ekki ummæli Steinþórs Pálssonar bankastjóra Landsbankans, heldur ágætar vangaveltur Kristins, í lesendabréfi hér á síðunni þar sem hann leggur út af orðum bankastjórans. Kristinn segir m.a.: "Sú skoðun að ekki sé farsælt að ríkið eigi banka á fullan rétt á sér en óneitanlega eru rökin fyrir henni til muna veikari en var fyrir nokkrum árum. Sé litið til sögunnar þá hefur einkaeignarhald á bönkum á Íslandi ekki verið farsælt, hvort sem aðeins er litið til síðustu 10 ára eða horft aftar til sögu gamla Íslandsbanka, Útvegsbankans og fleiri einkabanka á 20. öldinni. Það er rétt hjá bankastjóra Landsbankans að víst getur til þess komið að einstakir stjórnmálamenn komi fram með "furðuleg bréf" eða óheppileg afskipti af bankastarfsemi í eigu ríkisins. En það fer ekki milli mála að enn furðulegri tilskipanir fengu bankastjórar einkabankanna frá eigendum sínum á árunum fyrir hrun. Munurinn á þessum afskiptum eru þau að afskipti stjórnmálamanna eru oftast og eiga enda alltaf að vera uppi á borðinu og sýnileg almenningi. Afskipti einkaaðila af bönkum sem þeir höfðu komið höndum yfir urðu okkur ekki ljós fyrr en um seinan."
Bréfið er hér: http://ogmundur.is/fra-lesendum/nr/5970/ 

Fréttabréf