Fara í efni

STÓLASKIPTI OG ÁTÖK

Oddny - Jón og Árni
Oddny - Jón og Árni


Umrædd eru þessa dagana ráðherraskiptin í ríkisstjórn. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að niðurstaðan sé mér ekki að skapi. Eðlilega horfi ég þar fyrst til samherja míns Jóns Bjarnasonar. Sjónarmið hans hafa verið mikilvæg við ríkisstjórnarborðið eins og ég hef margoft sagt og skrifað, auk þess sem hann hefur reynst góður félagi og samverkamaður. Hann er hins vegar hvergi nærri horfinn af vettvangi og fráleitt að tímabært sé að skrifa um hann pólitísk eftirmæli!

Margefldur Jón

Mér segir nefnilega svo hugur að Jón Bjarnason eigi eftir að færast heldur í aukana en hitt í sölum Alþingis í baráttu fyrir þau stefnumarkmið sem hann er þekktur fyrir!!
Brotthvarf Árna Páls Árnasonar þykir mér einnig vera slæmt. Þótt við höfum verið ósammála um sitt hvað - hann jafnaðarmaður á hægri kanti, ég á hinum vinstri - þá lít ég svo á að í Stjórnarráðinu hafi hann staðið fyrir ýmis virðingarverð og mikilvæg gildi.
En ekki er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Inn í ríkisstjórnina er komin Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar og fyrrum formaður fjárlaganefndar. Hún hefur mikla reynslu af stjórnunarstörfum, m.a. sem sveitarstjórnarmaður og bæjarstjóri og sem stjórnandi á sviði menntamála, bæði innan veggja skóla og annars staðar í stjórnsýslunni.
Mikill fengur er að Oddnýju að ríkisstjórnarborðinu með þá víðtæku reynslu sem hún hefur aflað sér. Minna geri ég þó ekki úr góðum hæfileikum hennar til samstarfs en þeim hef ég kynnst af mjög góðu.

Sitthvað eru bölbænir og gagnrýni

Nokkuð fer fyrir bölbænum í garð ríkisstjórnarinnar á opinberum vettvangi. Geri ég mikinn mun á þeim annars vegar og heilbrigðri málefnalegri gagnrýni hins vegar. Mér segir svo hugur að í stjórnmálum framtíðarinnar muni málefnalegur ágreiningur innan stjórnarmeirihluta ekki valda þeim skjálfta sem hann gerði fyrr á tíð og gerir enn. Ég var einhverju sinni spurður að því í fjölmiðli hvort hver höndin væri upp á móti annarri á stjórnarheimilinu. Ég sagði að oft væru margar hendur á lofti og væri það framför frá því sem áður var þegar ein hönd var í lofti með vísifingurinn vel sýnilegan og allir samsinntu múlbundnir í undirgefni og þöggun. Að þessu leyti eru stjórnmálin að breytast. Að vísu hægt en bítandi. Verst hve mörg fórnarlömbin hafa orðið í þeim umbrotum sem þessum breytingum fylgja. Þegar upp er staðið munu hins vegar allir njóta góðs af. Það skelfilegasta sem hægt er að hugsa sér eru stjórnmál án skoðana, stjórnmál án frjálsrar hugsunar, stjórnmál án hispurslausra skoðanaskipta.

Skoltur og skott

Ég held að margir séu að átta sig á því að gagnrýni á núverandi ríkisstjórn - vinnubrögð og ákvarðanir í einstökum málum -  jafngildir ekki löngun til að fá Sjálfstæðisflokkinn til valda með öllu því sem honum fylgir. Gagnrýnin er sett fram vegna þess að fólk vill róttækari breytingar en orðið hafa; komast með öðrum orðum lengra frá vinnulagi og þeirri stefnu sem fylgt var á árunum og áratugunum í aðdraganda Hrunsins!
Ég ráðlegg fólki að leggja raunverulega við hlustir eftir því sem Sjálfstæðisflokkurinn segir: Í tíma og ótíma talar hann um erlendar fjárfestingar og á þá fyrst og fremst við stóriðju; hann er reiðubúinn að fórna náttúruperlunum; hann er handgenginn fjölþjóðlegum stóriðjurisum og hefur viljað einkavæða auðlindirnar. Hann vill breytta skattastefnu og færa hana til fyrra horfs þar sem stóreignafólki er ívilnað á kostnað lágtekjufólks; hann grætur auðlegðarskatta, hann vill meiri einkavæðingu í velferðarþjónustunni; hlustið á talið um Sjúkratryggingastofnun! Allt gamalt er á sínum stað. Það er ekki einu sinni svo að reynt sé að hylja úlfsskottið með sauðagæru. Fæstir taka hins vegar eftir skolti og skotti, enda uppteknir við að horfa á það sem úrskeiðis fer í augnablikum samtímans.