Fara í efni

ÞRÖNGT Í FRÉTTUM

GEIR HAARDE
GEIR HAARDE
Ýmsir hafa tjáð sig um Landsdóm, þeirra á meðal ég.
Það gerði ég í dag á mbl.is og í viðtali við RÚV. Í viðtalinu við RÚV sagði ég eitthvað á þá leið að ég deildi ekki við Landsdóm en væri ósáttur við ákærandann, Alþingi. Nú hefði sannast bæði við réttarhaldið og dómsniðurstöðuna hvílíkt óráð þessi vegferð hefði verið. Einn maður lögsóttur og að hluta til sakfelldur fyrir meint afglöp á lokametrunum í aðdraganda hrunsins, þegar staðreyndin væri sú að fjöldinn allur af fólki hefði komið við sögu og heilir stjórnmálaflokkar í langan tíma. Sumir einblíndu á hlutverk Geirs sem forsætisráðherra og þar með verkstjóra. Á okkar tímum væru margir uppteknir af foringjum og forstjórum og að niðurstaðan um sakfellingu eins manns væri ef til vill rökrétt í samhengi tíðarandans að þessu leyti en hvorki væri hún rétt né réttlát.
Þessari hugsun vildi ég gjarnan koma á framfæri en aðeins brot af viðtalinu rataði í fréttir sem skiljanlegt er vegna plássleysis og þeirrar staðreyndar að margir höfðu sömu þörf og ég til að tjá sig.
En þá er ég svo heppinn að hafa þennan litla miðil minn til að lýsa skoðunum mínum.
Eflaust á ég eftir að segja minn hug nánar innan tíðar um þetta mál sem er stærra og þýðingarmeira en margir gera sér grein fyrir í augnablikinu - hygg ég.
sjá mbl.is: http://mbl.is/frettir/sjonvarp/70987/