Fara í efni

HVAÐA EIGNARRÉTTUR?

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogganum 26. 05. 2012
Í stjórnarskrá Íslands er eignarrétturinn talinn til grunnréttinda: Mannréttinda. Ef eignarrétturinn er á einhvern hátt skertur skal tjónið bætt að fullu. Nú bregður svo við að í nýjum stjórnarskrárdrögum stjórnlagaráðs eru menn enn við sama heygarðshornið í þessu efni þótt heldur sé verið að færa sig til nútímans hvað varðar auðlindir í almannaeign. Í hinum nýju drögum er líka skírskotað til þess að eignarrétti fylgi skyldur. En grunnhugsunin gamla og úr sér gengna er enn til staðar.

Svo heilagur gerðist eignarrétturinn undir nýliðin aldamót og fram á þennan dag, að iðulega heyrist því fleygt að ef sameign hefði verið einkavædd væri hún nánast óafturkræf nema þá á ofurkjörum markaðsprísa. Það er einmitt þetta sem menn vilja læsa aftur inn í nýja stjórnarskrá. Því miður. Ég minnist þess þegar deilt var sem mest um sölu stofnbréfa sparisjóðanna að hámenntaður prófessor staðhæfði við þingnefnd, að enda þótt stofnbréf í SPRON hefðu þá ekki verið seld - og þótt ólöglegt væri að selja þau á því verði sem bauðst á markaði - hefði engu að síður myndast verð við það að falbjóða þau og fá í þau tilboð. Þar með hefði myndast stjórnarskrárvarin eign og yrði ekki aftur snúið, ella væri eignarrétturinn skertur. Og þar með framið stjórnarskrárbrot! Þá var spurt í nefndinni um stofnbréf í öðrum sjóðum. „Nei, annað gilti um þau," því ekki hefði myndast markaðsverð á útboðsmarkaði. Eignin væri því ekki verðmeiri en kveðið væri á um í lögum um sparisjóði en samkvæmt þeim mætti aðeins selja stofnbréf á upphaflegu kaupverði þeirra, uppfærðu samkvæmt vísitölu. Menn máttu því braska í Reykjavík, varðir af stjórnarskrá, að áliti fyrrnefnds prófessors, á meðan stofnfjáreigendur á landsbyggðinni urðu að fara að landslögum. Markaðslögmálin væru landslögum ofar samkvæmt stjórnarskrá!

Það er eins gott að Abraham Lincoln hafði ekki þessa sýn á eignarrétt á þrælum á sínum tíma. Bandaríkjamenn byggju þá sennilega enn við þrælahald. Álíka fráleit dæmi er að finna í samtímanum. Fjölþjóðarisinn Bechtel er eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heims. Í borginni Cochabamba í Bólivíu, var vatnsveitan einkavædd 1999 og færð í hendur fyrirtækinu Aguas del Tunari, sem var í eigu Bectels og International Water Ltd. Vatnsgjöld hækkuðu samstundis, í sumum tilfellum um 100-200 prósent. Lágmarkslaun eru þarna innan við 100 dali á mánuði en margar fjölskyldur fengu vatnsreikninga upp á 20 dali eða meira. Fyrirtækið reyndi að meina fólki að safna vatni af húsþökum sínum með þeim rökum að vatnið væri eign fyrirtækisins! Borgarbúar risu gegn okrinu og fóru í allsherjarverkfall í janúar 2000. Ríkisstjórnin sendi herinn á vettvang og í mótmælaöldunni slösuðust 175 og einn lést. En mótmælum linnti ekki og á endanum rifti ríkisstjórnin samningnum við undirfyrirtæki Bechtels. En fjölþjóðarisinn var ekki af baki dottinn og lagði fram kröfur um milljarða króna í skaðabætur vegna þess gróða sem fyrirtækið taldi sig hlunnfarið um. Með öðrum orðum, gengið hefði verið á eignarrétt Bechtels og þess vegna bæri að greiða skaðabætur.

Sýn manna á einkaeignaréttinn hefur tekið breytingum í tímans rás og að sjálfsögðu er sjónarhornið mismunandi eftir því hvar menn finna sig í tilverunni.

Ekki vil ég láta taka af mér íbúðina mína, bílinn minn, bækurnar. Bóndinn vill ekki láta svipta sig bújörð sinni, sjómaðurinn bátnum og svo framvegis.

En hvað um milljarðamæringana? Ekki vilja þeir láta svipta sig milljörðunum sem þeir öfluðu í Cochabamba í Bólivíu. Og hvað um þá sem segjast eiga fossa og heitt vatn í jörðu og vilja taka gjald fyrir frá samfélaginu sem nýtur góðs af „eign þeirra"? Hvað um eigendur Kersins í Grímsnesi? Er í lagi að þeir meini erlendum gestum, eða þess vegna innlendum ferðalöngum, að kíkja ofan í djásnið? Er þeirra eignarréttur heilagur? Á að verja hann í stjórnarskrá?

Eða er kannski fráleitt að alhæfa um eignarrétt? Er kannski varasamt að setja hann í stjórnarskrá sem grundvallarmannréttindi? Þarf ekki allavega að spyrja hvaða eignarréttur þar eigi heima?Á 21. öldinni er það almannaréttur sem gildir. Rétturinn til vatnsins, orkunnar, öræfanna, sjávarfangsins, loftsins. Þetta á að vera í stjórnarskrá þjóða. Að öðru leyti skilgreinum við eignir í lögum.