Í BOÐI SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS: VANDLÆTING HINNA VAMMLAUSU

Birtist á Smugunni 09.06.12.
SMUGAN - - LÍTILSjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafa fullan rétt til að gagnrýna allt það sem úrskeiðis fer hjá núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihluta. Líka það sem gert hefur verið í heimi fjármála- og bankastarfsemi og kann að orka tvímælis. Það er ekki nóg með að talsmenn þessara flokka  hafi  rétt til þess að gagnrýna, heldur má með sanni segja að öllum þeim sem þátt taka í stjórnmálum beri skylda til að halda uppi gagnrýni og veita aðhald gagnvart þeim sem með völdin fara, hvort sem um er að ræða bankamál eða annað sem snertir þjóðarhag. En ég leyfi mér að gera greinarmun á gagnrýni og vandlætingu.

Einfaldara að braska - í boði Sjálfstæðisflokksins!

Og það er einmitt vandlætingartónninn  sem mér finnst vera falskur. Falskari hjá Sjálfstæðisflokki en Framsókn, einfaldlega vegna þess að innan Framsóknarflokksins hefur farið fram uppgjör við liðinn tíma. Það á ekki við um Sjálfstæðisflokkinn. Þar hefur lítið farið fyrir því að menn iðrist eins eða neins. Það er nokkuð sérstakt þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði um tveggja áratuga skeið með hendi hlutverk leiðsögumanns Íslendinga á leið okkar út í fenið; það vandræðafen sem við fyrirfinnum okkur nú í. Sjálfstæðisflokkurinn hreinlega ýtti Íslendingum fram af hengibrúninni með því sem flokkurinn kallaði "einfaldara Ísland"  en það þýddi að einfalt ætti að vera fyrir hvers kyns braskara að athafna sig án regluverks og eftirlits.

Siðferðisgrunnur sparisjóða eyðilgaður - í boði Sjálfstæðisflokksins!

Sjálfstæðisflokkurinn hafði þannig forgöngu um einkavæðingu fjármálakerfisins, niðurbrot á hefðum sparisjóðanna sem  síðan gróf undan siðferðisgrunni þeirra. Stofnbréf sem  lögum og hefðum samkvæmt máttu því aðeins fara  í sölu ef  greitt væri upphaflegt andvirði bréfanna uppfært samkvæmt vísitölu - gengu nú kaupum og sölum á uppsprengdu markaðsverði. Gráðugt veikgeðja fólk nýtti sér þessa nýlundu óspart. Það var líka Sjálfstæðisflokkurinn - með hjálparkokkum- sem  treysti eignarhald einkaaðila á auðlindum með löggjöf og hóf síðan einkavæðingu á auðlindunum.

Allir máttu kaupa nema samfélagið - í boði Sjálfstæðisflokksins!

Eitt síðasta verk flokksins fólst einmitt í því að hefja útboð á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðrnesja þar sem það var gert að sérstöku skilyrði að allir mættu bjóða  í hlutina nema opinberir aðilar! En allt hið vafasamasta gerðist í þoku og undir leyndarhjúp. Menn sáu í gegnum þokuna endrum og eins en það var undantekning fremur en regla. Þannig fengum við innsýn í einkavæðingu bankanna þegar einn nefndarmanna í einkavæðingarefndinni, Steingrímur Ari Arason, fékk upp í háls og gaf okkur opinberlega vísbendingar um að maðkur væri í mysunni.

Vandlæting - í boði Sjálfstæðisflokksins!

Nú koma talsmenn Sjálfstæðisflokksins fram á sjónarsviðið  og kvarta einmitt um þoku og leynd. Það gerir formaður flokksins á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Það er mikilvægt að þingmenn fái allar þær upplýsingar sem óskað er eftir. En mikið gerðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins þjóðinni og sjálfum sér mikinn greiða ef dregið væri úr vandlætingunni  og meira færi fyrir hinum málefnalega þætti. Sjálfstæðismenn eru nefnilega ekki hinir vammlausu eins og þeir vilja vera láta þegar kemur að samskiptum hins opinbera og fjármálaheimsins þótt af þeirra hálfu sé nú  mikið framboð  af vandlætingu.
http://smugan.is/2012/06/i-bodi-sjalfstaedisflokksins-vandlaeting-hinna-vammlausu/   

Fréttabréf