Fara í efni

SKRIFAÐ Á RANGRI ÖLD

Mgginn - sunnudags
Mgginn - sunnudags

Birtist í Sunnudagsmogganum 23/24.06.12
Í okkar heimshluta  var tuttugusta öldin mesta framfaraskeið sögunnar. Þetta var öldin þegar læknavísindin tóku stórstígum framförum. Nú varð unnt að lækna fólk af illvígum sjúkdómum og lina þjáningar þeirra sem ekki urðu læknaðir. Það tókst að draga úr barnadauða, hinir gigtveiku og hoknu réttu úr sér og urðu vinnufærir, sjóndaprir fengu sjón og geðrænir sjúkdómar urðu viðurkenndir og læknanlegir. Menntun varð almannaeign. Húsakostur tekjulægstu hópa samfélagsins tók stakkaskiptum. Fólk varð heilsubetra og langlífara. Allt gerðist þetta með sameiginlegu félagslegu átaki. Saman rákum við heilbrigðiskerfið, menntakerfið og saman fundum við úrræði fyrir hina tekjulægstu í húsnæðismálum. Þetta var líka öld almannatrygginga, öldin sem menn settu sér það takmark að allir ættu rétt á því að búa við öryggi frá vöggu til grafar, svo vitnað sé í fleyg ummæli breska stjórnmálamannsins Beveridge í þann mund sem Bretar tóku fyrir alvöru að smíða sér velferðarkerfi upp úr Heimsstyrjöldinni síðari.
Á tuttugustu öldinni tóku atvinnuhættir stórstígum breytingum. Hér á landi voru útgerðarfélög sett á laggirnar. Þar sem ekki voru forsendur fyrir verslunarrekstri sem byggði á einstaklingsframtaki, bundust menn samtökum og komu á fót kaupfélögum. Og samfélagið kom upp póstþjónustu, símakerfi, löggæslu. Hin mikla framleiðsluvél malaði gull á meðan vísindamenn í háskólunum  fengu skjól samfélagsins til að sinna grunnrannsóknum sem síðan urðu undirstaða enn meiri framfara.
Um þetta samfélagslega átak skapaðist þverpólitísk sátt upp úr miðri tuttugustu öldinni og fram á níunda áratuginn. Ekki var deilt um samfélagslega þjónustu heldur hitt hversu hratt ætti að fara í sakirnar í uppbyggingunni, hve mikið ætti að skattleggja, hver réttindi og kjör launafólksins ættu að vera, en um sjálfan grunninn deildu menn ekki. Hægri menn tóku að sönnu snemma að gagnrýna félagslegt framtak í avinnulífinu. Þar sem bæjarútgerðir höfðu verið vildu þeir færa þær í hendur einstaklingsframtaki, margir úr þessum pólitíska ranni höfðu horn í síðu kaupfélaga og margir hefðu eflaust getað skrifað pistil eins og Hanna Birna Kristjánsdóttir skrifaði hér á þessum stað í síðustu viku. Hún talaði um stjórnlyndi vinstri manna. Þeir vildu segja fólki fyrir verkum í uppbyggingu atvinnulífs, í stað þess að skapa atvinnulífinu hagstæð skilyrði og láta einstaklinginn um afganginn.
En er þetta rétt? Er þetta munurinn á hægri mönnum og vinstri mönnum nú um stundir? Ég hef grun um að Hanna Birna sé á villigötum; að skrifa á skakkri öld.
Frá mínum bæjardyrum horft gerðist þetta: Smám saman komust vinstri menn að þeirri niðurstöðu að atvinnurekstri sem samfélagið hefði komið á laggirnar með félagslegu átaki mætti gjarnan fela einstaklingsframtaki til rekstrar. Þegar atvinnufyrirtæki voru einkavædd undir aldarlokin, SR-mjöl, Áburðarverksmiðjan og fleiri, þá var þessu ekki andmælt af hálfu vinstri manna. Menn fundu að því fyrst og fremst þegar þessi fyrirtæki voru gefin en ekki seld. Jafnvel gagnrýni á einkavæðingu bankanna byggðist á þessu, auk þess sem mörgum okkar þótti mikilvægt að halda einum öflugum banka í eigu ríkisins sem kjölfestu í smáu hagkerfi.
Sáttin var hins vegar rofin þegar hægri menn vildu greiða einkaframtakinu farveg inn eftir spítalaganginum og inn í skólastofuna. Um þetta hófust mikil átök, sem fóru harðnandi eftir því sem nær dró aldamótum. Með þessari baráttu rofnaði sáttin.
En meira gerðist. Vinstri menn sem vörðu félagslega rekið velferðarkerfi hættu að vilja hafa afskipti af atvinnulífinu. Ef til vill á það eftir að breytast aftur. En nú voru það hægri mennirnir og langt inn eftir kratavængnum, sem tóku að hafa svo mikil afskipti af atvinnulífi að sjálfur Stalin hefði þótt fullsæmdur af. Þessi atvinnustefna, sem reyndar var ekki ný af nálinni, var að sjálfsögðu stóriðjan. Þegar hægri menn hamast á þingi og í fjölmiðlum um meint getuleysi  ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum þá þýðir það þetta: Stjórnin vill ekki virkja í þágu stóriðju. Og í þessum stjórnlyndisanda hafa hægri menn stjórnað þegar þeir hafa haldið um stjórnvölinn síðustu árin.
Þannig að ég er hræddur um að pistill Hönnu Birnu um stjórnlynda vinstri menn í atvinnumálum og hægri mennina sem ekki vilja nema lágmarksafskipti af atvinnulífinu fái ekki staðist skoðun.