MILTON OG ÓLAFUR

milton og oli

Milton Friedman kom upp í hugann þegar ég las leiðara Ólafs Stephensen  í Fréttablaðinu sl. föstudag. Öldungurinn Milton mun nefnilega hafa risið upp við dogg á fleti sínu í Chicago þegar hvirfilbylurinn Katrina lagði Lousiana í Bandaríkjunum nánast í rúst árið 2005, og þá komist svo að orði: "Drífið í að einkavæða skólakerfið á meðan fólk er í losti." 

Hann var vel að sér í sjokk-aðferðafræðinni eftir ráðgjafastörf sín hjá Pinochet í Chile á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þá var póltískur áfallatími í Chile sem nýttur var til hins ítrasta til óvinsælla og vanhugsaðra aðgerða. Fasistastjórn var við völd í Chile sem þrengdi að allri gagnrýnni og lýðræðislegri umræðu.

Ekki er Ólafur Stephensen að biðja um fasisma í sínum leiðara. Því fer fjarri. Hann leyfir sér hins vegar að nota hin hræðilegu voðaverk í Noregi fyrir ári til að ráðast á þá sem  hann segir hafa farið "hamförum í þingsölum þegar greiningardeild lögreglunnar var stofnuð og æptu um "njósnir" og "leyniþjónustu ...". Hann bætir við til skýringar að " í þeim hópi" hafi verið "bæði núverandi innanríkisráðherra og utanríkisráðherra."

Ritstjórinn útlistar mikilvægi forvirkra lögreglurannsókna og að þeir sem " enn eru tregir til að veita lögreglunni sömu heimildir og lögreglulið á Norðurlöndum hafa  til að fylgjast með grunsamlegum einstaklingum ... ættu... að leggjast rækilega yfir skýrsluna."  

Þessi umræða er margslungnari en svo að hún verði afgreidd með þessum hætti. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að gagnrýna harðelga þessi skrif og þá ekki síður samhengið.  

Í  norskum stjórnmálum eru þeir til sem hafa viljað nota hryðjuverk Anders Breiviks í eigin pólitíska þágu, til dæmis til að koma höggi á Jens Stoltenberg og félaga hans í norsku ríkisstjórninni. Það er líka svo að þeir sem vilja efla eftirlitsþjóðfélagið nota tækifærið til að tala fyrir slíku af miklum krafti. Ég fæ ekki betur séð en einmitt það geri ritstjórinn í leiðara sínum á föstudag.

Ólafur Stephensen las vonandi stórgott viðtal við heimspekinginn Joakim Hammerlin í blaði sínu sama dag og leiðarinn birtist. Þar sagði:  "Í opnum lýðræðisþjóðfélögum er minni hætta á hryðjuverkum en ella. Til langs tíma litið er því hreint ekki vænlegt til árangurs í hryðjuverkavörnum að skerða lýðfrelsi almennings." 

Joakim Hammerlin varar við aðferðafræði George W. Bush fyrrrum Bandaríkjaforseta, sem vildi efla eftirlitsþjóðfélagið í baráttu við hryðjuverkamenn. Ég hvet ritstjóra Fréttablaðsins að "leggjast rækilega" yfir þetta viðtal.

Fréttabréf