ÞEY ÞEY ÞEY ÞEY...

Birtist á Smugunni 07.11.12.
SMUGAN - - LÍTIL...þaut í holti tófa. Mér sýnist komið óþol í Sjálfstæðisflokkinn; hann langar til að komast að kjötkötlunum að væta þurran góminn eftir fjarveru frá veisluborðinu, sem hann útbjó sér og sínum á tuttugu árum sitt hvorum megin aldamótanna. Nú þegar kosningar fara að nálgast er öllum hollt að hugsa skýrt og láta ekki gleymskuna glepja sig.
Rifjum upp pólitísk átakamál undangenginna áratuga: Grunnvatnið var einkavætt, komið var á kvótakerfi með ómældum braskmöguleikum, ríkisbankarnir voru gerðir að hlutafélögum og þeir síðan seldir, nánast gefnir.  Skattakerfinu var breytt þannig að hinir ríku höfðu gott af en þeir sem minna höfðu handa á milli borguðu meira. Verktökum var opnuð leið inn í Íbúðalánasjóð þaðan sem slóðinn liggur nú eftir þá.
http://smugan.is/2012/11/they-they-they-they/

En í hverjum kosningunum á fætur öðrum fylktu kjósendur sér um hinn mjúkmála flokk sem lofaði og prísaði frelsið, sagði að rangt væri að skattpína fólk og ríkisútgjöld væru af hinu illa. Allt hljómaði þetta fallega í eyrum kjósenda. Og aftur og aftur kusu þeir "sinn flokk".  Og áfram var haldið. Nú hét það "einfaldara" Ísland. Ekkert eftirlitsstand hér! Það er skiljanlegt að menn vilji hafa frið um "sín stærri mál", sagði bankastjóri þegar hann lofaði bankaleynd í skattaskjóli á Ermasundi þar sem íslenski bankinn hans hafði nýlega keypt hlut.
Íslenskur banki er hann ekki, sagði annar bankastjóri um sinn banka, hann er bara banki. Það væri gamaldags að kenna banka við þjóðerni!

Síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið. Við erum búin að uppgötva að bankarnir voru þrátt fyrir allt íslenskir, alla vega þegar kom að skuldadögum. Og við uppgötvuðum líka að minni útgjöld til heilbrigðismála leiddu til hærri sjúklingagjalda. Við uppgötvuðum að stefna í skatta- og útgjaldamálum skiptir máli; fyrir efnamanninn sem hagnast á veru Sjálfstæðisflokksins við stjórnvölinn og hún skiptir máli fyrir lágtekju- og meðaltekjumanninn sem borgar brúsann.
Við höfum uppgötvað að það skiptir máli hverra erinda stjórnmálaflokkar ganga; almennings eða hinna sem þurran vilja blóði væta góm.

Við vitum líka að þegar á reynir munu óþægilega margir stjórnmálaflokkar keppast um að fá að þjóna Sjálfstæðismönnum og minnisleysið verður algjört. Við þurfum að skerpa á minninu og skilningnum. Við höfum gert ýmsar ráðstafanir til að stöðva ránið, nú þarf að snúa sér að endurheimt réttinda og uppbyggingu réttlátara þjóðfélags

Fréttabréf