AFDRÁTTARLAUS NIÐURSTAÐA

Nubo var neitað

Haft er eftir kínverska auðmanninum Huang Núbo að  hann sé ekki af baki dottinn að komast yfir land á Grímsstöðum á Fjöllum. Þá sé hann reiður íslenskum stjórnvöldum, sem hafi beðið sig um að fjárfesta á Íslandi.
Hér er það ég sem kem af fjöllum.
Sem innanríkisráðherra fékk ég á sínum tíma umsókn frá fjárfestingarsamsteypu Huangs Núbó um landakaup á Grímsstöðum á Fjöllum. Vel kann að vera að eitthvert íslenskt stjórnvald hafi verið áhugasamt um þessa fjárfestingu en niðurstaðan varð engu að síður sú að umsókn Núbós var hafnað. Þetta var haustið 2011.
Núbó reyndi þá fyrir sér með nýrri aðkomu að málinu - nokkuð umdeildri - og var nú skipuð nefnd  ráðherra og embættismanna til að fara yfir málið. Í síðustu viku komst sú nefnd að þeirri niðurstöðu að umsókn kínversku fjárfestingasamsteypunnar skyldi hafnað. Sú niðurstaða var afdráttarlaus og hefur verið kynnt í ríkisstjórn. Það var gert í vikunni sem leið.
Það þarf greinilega að tala skýrt í þessu máli enda full efni til. En svo enginn þurfi að velkjast í vafa um niðurstöðu ráðherranefndarinnar,  þá var því ekki slegið á frest að taka afstöðu til beiðni fyrirtækjasamsteypu Húangs Núbós. Beiðninni var hafnað.

Fréttabréf