Fara í efni

NETIÐ OG LÝÐRÆÐIÐ

Fp - Kop p - Mosfellingur
Fp - Kop p - Mosfellingur

Birtist í Fjarðarpóstinum, Kópavogspóstinum og Mosfellingi, apríl 2013.
Á síðari hluta kjörtímabilsins voru málefni upplýsingasamfélagsins og þar með netsins færð undir innanríkisráðuneytið. Þar á bæ höfum við stýrt stefnumótun á þessu sviði. Að þeirri vinnu hafa komið öll ráðuneyti og síðast en ekki síst Samband íslenskra sveitarfélaga sem sýnt hafa málaflokknum mikinn og lifandi áhuga.

Nú er þessi vinna farin að skila merkjanlegum árangri. Á meðal verkefna sem ráðist hefur verið í er þróun rafrænnar auðkenningar, svokallaðs Íslykils - nafnskírteinis á netinu -  sem þróaður var af Þjóðskrá Íslands og tekinn formlega í notkun 12. apríl síðastliðinn. Einnig hefur verið unnið að eflingu rafræns lýðræðis í sveitarfélögum og hafa þegar verið samþykktar breytingar á sveitarstjórnarlögum sem undirbúa jarðveginn fyrir rafrænar íbúakosningar og undirskriftasafnanir á Ísland.is. Með þessum verkefnum er lagður grunnur að margvíslegri rafrænni þjónustu sem getur stuðst við og nýtt auðkenningarþjónustuna   Íslykill á Ísland.is.

Staða Íslands í málaflokknum er sú að almenningur er tilbúinn til að nýta sér þá opinberu þjónustu sem í boði er á netinu, góðir fjarskiptainnviðir eru fyrir hendi, almenningur á nauðsynleg tæki og er tengdur við netið. Það sem á vantar er að opinberir aðilar nýti betur  þau tækifæri sem felast í þessari stöðu. Þau tækifæri felast í því að koma á aukinni sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu á netinu og auka þannig skilvirkni opinberrar þjónustu. Þau felast einnig í vannýttum möguleikum sem þessi staða felur í sér til að styrkja lýðræðið, kalla eftir og taka tillit til skoðana og ábendinga almennings.

Að öllu þessu hefur verið ötullega unnið. Fjöldi funda og ráðstefna sem innanríkisráðuneytið hefur staðið að um opna gagnsæja stjórnsýslu á netinu, íbúakosningar og önnur form á beinu lýðræði, sýnir að netið og lýðræðið hefur verið sett á dagskrá með afgerandi hætti og að árangurinn er þegar farinn að koma í ljós.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.