Fara í efni

SAGA AF TVEIMUR KAFFIBOLLUM

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 23.04.2013
Einhvern tímann las ég frásögn af tveimur kaffibollum. Ég held það hafi verið í Morgunblaðinu. Úr öðrum bollanum var drukkið á Ítalíu, hinum í Norður-Finnlandi. Báðir voru greiddir með sama gjaldmiðli, hinni margrómuðu evru. Ef ég man rétt kostaði kaffið helmingi fleiri evrur í Norður-Finnlandi en það kostaði á Ítalíu.

Við þennan samanburð má mörgu við bæta. Í Þýskalandi notast menn við evru. Það gera menn líka í Grikklandi og á Spáni. Ekki hefur evran tryggt sambærilegan stöðugleika í efnahagsmálum þessara ríkja eins og við þekkjum öll af fréttum.

Ástæða þessara skrifa er sú að í kosningabaráttunni er svo að skilja á ýmsum frambjóðendum að allt væri gott - við hefðum jafnvel sloppið við hrun - ef við hefðum haft evru.

Kaffið í Norður-Finnlandi var dýrt vegna þess að veitingastaðurinn sem seldi kaffið hafði fáa viðskiptavini, flutningskostnaður var mikill fyrir alla aðdrætti, launakostnaður hár og þannig mætti áfram telja. Ætli hið gagnstæða hafi ekki verið uppi á teningnum á Ítalíu.

Einstök lönd og svæði innan þeirra geta orðið fyrir sveiflum og lent í þrengingum, óháð gjaldmiðlinum. Þar með er ekki sagt að gjaldmiðillinn skipti engu máli, að smáum gjaldmiðli sé ekki hættara við að verða leiksoppur spekúlanta en stórum gjaldmiðli. Að sama skapi aðlagar stór gjaldmiðill sig ekki eins auðveldlega að svæðisbundnum aðstæðum og jafnar því ekki félagslegar sveiflur, svo sem atvinnuleysi, þegar gjaldmiðillinn hættir að vera spegill á veruleikann, eins og smár gjaldmiðill getur gert.

Þetta kemur upp í hugann þegar hlustað er á málflutning aðdáenda Evrópusambandsins, sem telja það vera allra meina bót að ganga í ESB og taka upp evru. Sumir ganga svo langt að segja að Íslendingar hefðu sloppið við hrun ef þeir hefðu haft evru sem áður segir. Ekki sluppu Írar, Kýpverjar, Portúgalar, Grikkir, Spánverjar... Þeir hafa þó evru.

Þeir sem halda slíkum málflutningi til streitu eru auðvitað að berja höfðinu við steininn. Og allir vita hvernig það fer með höfuðið.