Fara í efni

ÞAU TALA SKÝRT

Katrín og Bjarni
Katrín og Bjarni

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins töluðu bæði skýrt í umræðu kvöldsins í Sjónvarpi RÚV.
Katrín talaði fyrir skýrri sýn VG á skattkerfið en flokkurinn hefur sýnt í verki að þar fara saman orð og efndir. Á liðnu kjörtímabili hefur skattkerfinu verið breytt á þá lund að lágtekju- og millitekjufólk býr við BETRI KOST en áður en hátekjufólk hefur verið látið axla byrðarnar, sem reyndar eru engar byrðar þegar horft er til þess að þeir einstaklingar sem eru vel aflögufærir eru látnir greiða til þess samfélags sem hefur gert þeim kleift að efnast. Meiri er þeirra kvöl nú ekki.

Gamalkunn fortíð í fylgd Framsóknar

Sjálfstæðisflokkurinn vill hins vegar halda aftur til gamalkunnrar fortíðar og lækka skatta sem hann kallar svo en stefna Sjálfstæðisflokksins allar götur frá 1991 og til 2009 gekk út á að ívilna efnafólki en skattpína almenning. Það er skattlækkun að hætti Sjálfstæðisflokksins.
Þetta kann að hljóma áróðurskennd fullyrðing en hún er sönn! Og þessari stefnu fylgdi Sjálfstæðisflokkurinn eftir í samstarfi við aðra flokka, fyrst Alþýðuflokkinn og  síðan og lengst af Framsóknarflokkinnn og að lokum Samfylkingu. Framsóknarflokkurinn reyndist Sjálfstæðisflokknum auðsveipastur í þessari skattastefnu!

Brauðmolakenningin aftur í framkvæmd...

Ég virði Sjálfstæðisflokkinnn fyrir að koma hreint til dyranna og flokksformanninn þar á bæ, Bjarna Benediktsson, fyrir að tala skýrt um grundvallarstefnu flokks síns. Bjarni er ófeiminn að ræða misskiptingarstefnuna sem margt hægri sinnað fólk telur hið mesta þjóðráð í efnahagslegu tilliti. Í tíð Reagans Bandaríkjaforseta var þetta kallað trickle-down economics, brauðmolakenningin, en hún gekk út að leyfa hinu ríku að baka sín stóru brauð, lausa við skattaálögur, þá muni án efa einhverjir molar hrjóta af borði þeirra til hinna þurfandi!

....eða jöfnun að hætti félagshyggjufólks?

Að sama skapi var Katrín Jakobsdóttir hreinskiptin og skýr í sínum málflutningi um skattastefnu sem gengur út á að JAFNA KJÖRIN.
Þegar efnahagsstjórnin er annars vegar tala Sjálfstæðisflokkurinn og VG skýrt. Engin plat ummæli um að nú þurfi að setjast niður og spá og spekúlera og kannski þetta og kannski hitt og alls ekkert vesen, eins og ein fylkingin býður upp á!
Kjósenda er að ákveða hvor stefnan þeir vilji að verði ofan á brauðmolakenning hægri manna eða jafnaðarstefna félagshyggjufólks.Valkostirnir eru skýrir.