Fara í efni

ÞORLEIFUR FJALLR UM BEINT LÝÐRÆÐI

Þorleifur G 2
Þorleifur G 2
Þorleifur Gunnlaugsson fjallar um beint lýðræði í grein sem hann birtir á Smugunni nú um helgina. Hann er formaður stýrihóps sem ég skipaði á sínum tíma um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði. Hann hefur verið óþreytandi hvatamaður að því að við létum verkin tala hvað varðar  rafræna þjónustu og beint lýðræði. Hann hefur einnig verið gerandi í að koma á tengingu á milli ríkisins og sveitarfélaganna í þessum málum. Þetta tel ég vera grundvallaratriði enda sveitarfélögin orðinn drjúgur hluti opinbrerrar þjónnstu með yfir þriðjunginn af umfanginu.  
Í síðustu viku kynnti ég í ríkisstjórn áætlun um upplýsingasamfélagið. Þar hafa starfsmenn ráðuneytisins - og reyndar allra ráðuneyta - svo og Þjóðskrár Íslands og frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, komið að málum undir verkstjórn Guðbjargar Sigurðardóttur sem leitt hefur svokallaðan kjarnahóp innan stjórnsýslunnar.
Áætlunin er nefnd: Vöxtur í krafti netsins - byggjum, tengjum og tökum þátt og kemur hún í beinu framhaldi af stefnunni Netríkið Ísland 2008 til 2012.
Fjallað er um rafræna stjórnsýslu, framboð og notkun á opinberri þjónustu á netinu, samstarf ríkis og sveitarfélaga og síðan eru sett fram mælanleg markmið og fjögurra ára framkvæmdaáætlun. Gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög starfi áfram saman og hrindi stefnunni í framkvæmd. Þessi nýja stefna er framtíðarsýn í upplýsingatækni fyrir íslenskt samfélag, fyrir ríki og sveitarfélög. Hér er lögð til metnaðarfull  uppbygging á innviðum og vandaðri þjónustu. Unnið hefur verið mikið og gott starf og samráð verið mikið og gott við sveitarfélög enda lagður hér grundvöllur fyrir ný skref í rafrænu lýðræði og rafrænni auðkenningu

http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28517

Hér að neðan er fyrrnefnd grein Þorleifs Gunnlaugssonar sem ber heitið Píratar og beina lýðræðið en þar vekur Þorleifur athygli á því að því fari fjarri að pírataflokkurinn sé einn flokka um að að setja þessi mál á dagskrá. Það er fagnaðarefni að stjórnmálin almennt séu að kveikja á mikilvægi rafrænnar miðlunar fyrir markvissa og gagnsæja þjónustu og fyrir lýðræðið.

-------------- 

Píratar og beina lýðræðið

Nokkur hluti kjósenda er upptekinn af Pírötum og stefnumálum þeirra en fyrsta mál á stefnuskrá þess ágæta flokks er beint lýðræði. Píratar nota kosningakerfi á netinu til þess að greiða úr ágreiningsmálum og komast að niðurstöðu og hafa stoltir boðist til að ljá það öðrum. Það er þó ekki svo að þeir séu að finna upp hjólið.

Nýafstaðnar rafrænar íbúakosningar í Reykjavík um verkefni í hverfum borgarinnar eru gott dæmi um þróun í þessa átt en þar voru verkefnin valin úr hugmyndum sem borgarbúar sendu inn á vefsvæðið Betri hverfi á samráðsvefnum Betri Reykjavík. Notast var við rafrænt kosningakerfi sem Sjálfseignarstofnunin Íbúar hefur þróað. Þetta var í þriðja sinn sem rafrænar íbúakosningar eru haldnar í Reykjavík en í fyrra var notast við rafræn auðkenni í slíkum kosningum í fyrsta sinn á Íslandi en Þjóðskrá Íslands hefur styrkt verkefnið með ráðum og dáð.

Skömmu fyrir þinglok samþykkti Alþingi frumvarp sem ekki fékk mikla athygli en áhugafólk um beint lýðræði ætti að láta sig varða. Um er að ræða breytingar á sveitarstjórnarlögum sem veita heimild til rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár og miðar heimildin að því að styðja við þróun og framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögum.

Starfshópur innanríkisráðherra

Forsaga þessa máls er sú að 26. júní á síðasta ári skipaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra stýrihóp um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hópurinn skilaði tveim megin tillögum í október s.l., annarsvegar um rafrænar auðkenningar á vegum hins opinbera sem innanríkisráðherra fól Þjóðskrá að framkvæma og hinsvegar um ofangreint frumvarp.

Lögin heimila innanríkisráðherra, að beiðni viðkomandi sveitarstjórnar, að víkja frá ákvæðum X. kafla sveitarstjórnarlaga þannig að íbúakosning fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Meginmarkmið laganna er að auðvelda sveitarfélögum að kanna vilja íbúa þeirra til ýmissa mála og um leið að auðvelda íbúum að hafa áhrif á stjórnun og stefnumótun viðkomandi sveitarfélaga.

Í sveitarstjórnarlögum sem Ögmundur Jónasson fékk samþykkt haustið 2011 og tóku gildi 1. janúar 2012 eru ákvæði um rétt íbúa til áhrifa á stjórn sveitarfélags. Þar er meðal annars fjallað um frumkvæði íbúa og rétt þeirra til að óska eftir almennri atkvæðagreiðslu um ýmis álitamál. Búast má við að þetta ákvæði verði til þess að íbúakosningum/skoðanakönnunum meðal íbúa í sveitarfélögum fjölgi umtalsvert á næstu árum.

Mjög ákveðin skref

Í innanríkisráðuneytinu fer nú fram vinna við reglugerð með lögunum en þar er mælt nánar fyrir um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænna kjörskráa en auðkenning kjósenda og umsjón kosningakerfanna mun verða hjá Þjóðskrá Íslands. Innanríkisráðherra hefur skipað þriggja manna ráðgjafarnefnd sem verður honum til ráðgjafar og fylgist með framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænna kjörskráa sem og að sinna öðrum verkefnum sem ráðherra felur henni á þessu sviði.

Verkefnið mun ekki aðeins auðvelda íbúakosningar í sveitarfélögum heldur hafa í för með sér hagræði og hagkvæmni við hvers kyns atkvæðagreiðslur og ryðja braut fyrir innleiðingu rafrænna lausna við allar lögbundnar kosningar á Íslandi.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra hefur því stigið mjög ákveðin skerf í átt til beins lýðræðis en jafnframt því sem ofan er talið hefur hann staðið fyrir alþjóðlegum ráðstefnum og málstofum um hina ýmsu þætti lýðræðisins. Hann hefur fengið til liðs við sig innlenda og erlenda sérfræðinga til að fjalla um beint lýðræði, fjárhagsáætlun með þátttöku íbúana, barna og ungmennalýðræði, hverfalýðræði og svo mætti lengi telja en afraksturinn má sjá á irr.is og netsamfélag.is.

Þorleifur Gunnlaugsson