Fara í efni

ÞORSTEINN VILL HJÁLPA FRAMSÓKN AÐ SVÍKJA

Þorsteinn Pálsson 2
Þorsteinn Pálsson 2
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og  núverandi formaður stjórnar MP banka,  skrifar sinn reglulega helgarpistil í Fréttablaðið í dag.  Í pistlinum segir hann skýringuna á niðurstöðum síðustu kosninga hafa verið þá að fyrirverandi stjórnarflokkum hafi kjósendur hafnað með „rækilegum hætti".  Auðvitað má þetta til sanns vegar færa þótt heldur hallist ég að hinu, að núverandi meirihluti hafi verið kosinn vegna kosningaloforða sinna. Það á ekki síst við um Framsóknarflokkinn sem lofaði lækkun á höfðustóli lána. Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði síðan að lækka skatta en jafnframt bæta stöðuna í ýmsum þáttum almannaþjónustunnar.

Þorsteinn Pálsson segir að vissulega verði að horfa til loforða  Framsóknarflokksins „um fulla og almenna endurgreiðslu á húsnæðislánaverðbólgu síðustu ára".

En loforðið hafi verið tvíþætt, ekki mætti velta kostnaðinum á ríkissjóð né yfir á almennig.

Þorsteinn  hvetur síðan til þess að staðið verði við þessi skilyrði en niðurfærslan verði svikin:
„Eigi að komast hjá alvarlegum áhrifum á fjármálastöðguleika og hag heimilanna þarf að hjálpa Framsóknarflokknum að efna kostnaðarleysisloforðið en komast út úr endurgreiðsluloforðinu."

Þorsteinn hefur síðan yfir gamlkunnar kennisetningar ættaðar frá Aljþóðagjaldeyrissjóðnum og hagsmuna-talsmönnum  fjármálakerfisins, að enginn mannlegur máttur geti komið í veg fyrir að niðurfærsla lána setji allt í bál og brand og þess vegna verði Framsókn að svíkja sitt stærsta kosningaloforð : „Þá spyrja menn eðlilega hvort ekki sé siðferðilega rangt að svíkja kosningaloforð. Alla jafnan er það svo. En þegar virt er að ekki er í mannlegu valdi að efna kostnaðarhlið endurgreiðsluloforðsins ætti að vera auðvelt er að útskýra að almannahag sé betur borgið með því að láta hlutina ógerða. Betur er sefað illt en upp vakið."

Nú er það svo að fjármálakerfið er búið að færa niður lán um tugi milljarða, m.a. samkvæmt svokallaðri 110% leið án þess að dómsdagsspár af því tagi sem við nú heyrum frá Þorsteini Pálssyni hafi ræst. Illu heilli náðist ekki samkomulag um að færa niður lán þeirra sem voru undir 110"% markinu - fólksins sem gat borgað en varla svo og sér fram á þrengingar um ár og jafnvel áratugi. Bankarnir fóru 110% leiðina vegna þess að þeir töldu sig tilneydda að afskrifa þessa milljarðatugi, það þjónaði einfaldlega þeirra hagsmunum.

Hagsmunasamtök heimilanna bentu hins vegar  jafnan á að það þjónaði einnig  hagsmunum þeirra að deila verðbólguskoti eftirhrunsaáranna á milli lánveitanda og lántakenda, auk þess sem það væri réttlátt. Framsóknarflokkurinn var kosinn til áhrifa til að framkvæma nákvæmlega þetta.

Það er ósvífni af versta tagi af hálfu stjórnarformanns MP banka og fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins að hvetja til þess að það kosningaloforð sem tryggt hefur núverandi ríkisstjórn meiri hluta - nauman að vísu, 51% -  verði nú svikið. Svo er að skilja að honum finnist það vera réttlætanlegt  enda í samræmi við lögmálin.

Því miður hefur nákvæmlega þetta gerst allt of oft á Íslandi, að flokkar ljúgi sig til valda og síðan mæta menn á borð við Þorstein Pálsson og mæla svikunum bót. Þetta fengum við að sjá á síðum Fráttablaðsins í dag.

Um þessi efni hef ég fjallað nokkuð að undanförnu. Sjá m.a.: https://www.ogmundur.is/is/greinar/lydskrum
og https://www.ogmundur.is/is/greinar/omarkvissar-adgerdir-i-lanamalum