Fara í efni

VAÐLAHEIÐARGÖNG OG VINNUBRÖGÐIN

BOOM - Vaðlaheiðargöng
BOOM - Vaðlaheiðargöng

Byrjað var að sprengja fyrir Vaðlaheiðargöngum í gær. Forsætisráðherrann, sem þrýsti á hnappinn, sagði í fréttum Sjónvarpsins að „þetta hefði verið mjög skemmtilegt" enda „stór dagur í samgöngusögu Þjóðarinnar".
Það sem hefði verið „sérstakt við þetta verkefni var þetta mikla frumkvæði heimamanna og að þeir væru  tilbúnir til þess að leggja í þetta áhættufé og borga jafnvel fyrir í framhaldinu..." . Þess vegna hefði það verið „vel forsvaranlegt fyrir ríkið að liðka fyrir því að af þessu gæti orðið."

Ekki er þetta rétt nema  varla er ég þess umkominn að véfengja að Sigmundi Davíð hafi þótt gaman að fá að sprengja. Hitt er rangt hjá honum að heimamenn hafi verið að leggja í einhverja áhættu. Öll er framkvæmdin tryggð í bak og fyrir með ríkisfé. Hver einasta króna þessara milljarða framkvæmda kemur úr opinberum sjóðum og ekki farið að borga eitt né neitt fyrr en göngin eru að fullu tilbúin og við - eða þau okkar sem koma til með að aka göngin - farin að borga veggjöld. Það sem upp á mun vanta verður tekið af heilbrigðiskerfinu eða öðrum samgöngubótum sem verða að bíða fyrir vikið.

Vaðlaheiðarframkvæmdin var tekin út úr samgönguáætlun með þrýstingi þingmanna Norð-austurkjördæmis og síðan stuðningi allra þeirra sem vildu sigla lygnan sjó. Frá minni hálfu var það alla tíð skýrt að ég féllist ekki á framkvæmdina - hvorki sem samgönguráðherra né sem þingmaður - nema skýrt væri að hún yrði fjárhagslega sjálfbær og án aðkomu ríkissjóðs- ekkert annað réttlætti að taka hana fram fyrir aðrar framkvæmdir í samgönguætlun sem metnar voru miklu brýnni. Samkvæmt mati óvilhallra sérfræðinga fer því fjarri að þessum skilyrðum væri fullnægt.

Þetta eru vonandi vinnubrögð sem einhvern tímann á nýrri öld munu heyra sögunni til. Vonandi fyrr en síðar.

Sjá m.a.: https://www.ogmundur.is/is/greinar/forsendur-vadlaheidarganga