Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIN Á MANNAMÁLI

DV -
DV -

Birtist í DV 23.09.13.
Fyrir helgina voru fjórar stórfréttir út Stjórnarráðinu sem vekja óhug. Í fyrsta lagi boðar formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson,  fjármálaráðherra, einkavæðingu á fjórðungi eignarhalds Landsbankans. Í öðru lagi kynnti Pétur H. Blöndal, formaður nefndar um fjármögnun heilbrigðiskerfisins, hugmyndir sínar um að selja aðgang að legudeildum Landspítalans og annarra sjúkrahúsa í landinu. Í þriðja lagi kynnti varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, að hún áformaði einkavæðingu á „innviðum" samgöngukerfisins. Og í fjórða lagi gefur forsætisráðherrann og formaður Framsóknarflokksins, þessu öllu inntak með því að fara á fund fjárfestingarspekúlanta í London og biðja þá lengstra orða að koma til Íslands með peningana sína. Þannig gaf hann orðum þeirra Bjarna, Péturs og Hönnu Birnu inntak.

Fjórðungur Landsbankans einkavæddur

Eitthvað var föndrað við hugmyndir um að selja hlut í Landsbankanum á einhverju stigi á liðnu kjörtímabili en VG var löngu áður en yfir lauk búið að ná niður í sína gömlu rót og vildi halda einum banka, Landsbankanum, algerlega í ríkisegn.
Reynslan af einkavæðingu banka er ekki góð þótt vissulega sé engar athugasemdir hægt að gera við það að einkabankar hasli sér völl og séu reknir við hlið þjóðarbankans, sem jafnan þarf að vera fyrir hendi sem kjölfestan í fjármála- og efnahagslífinu. Sérstaklega þarf fámenn þjóð á slíkri kjölfestu að halda. Ámátlegt er að verða að nýju áheyrandi að samtóna kór fjármálalífsins hvetja ríkisstjórnina til dáða í þessu efni. Einhver úr þessum kór hafði orð á því að vinda þyrfti ofan af ríkisvæðingunni! Eftir hrun hefði maður búist við meiri hógværð og kannski líka ögn meiri sögulegri vitund um hvernig málum var háttað í aðdraganda hrunsins, og síðan hvað henti þjóðina þegar eignarhald fjármálstofnana var m.a. notað til persónulegs ávinnings.
En nú á sem sagt að hefja leikinn að nýju fyrir alvöru innan fjármálakerfisinis. Það verður að segjast eins og er, að fyrri stjórn má áfellast fyrir að hafa ekki sem skyldi undið ofan af öfugþróun undangenginna ára í fjármálakerfinu - einkavæðingunni og öllu því sem henni fylgdi en nú vilja menn sémsé vinda sig afturábak inn í gömlu ófæruna.
Auðvitað er ekki sama hver kaupir banka, en eitthvað hvíslar að mér að einhverjir í hópi fundarmanna forsætisráðherrans í London kunni nokkuð fyrir sér þegar kemur að því að soga eignir út úr bönkum sem þeir öðlast eignarhald á, eins og til dæmis auðlindir sem eins og við vitum eru ríkulega veðsettar í Landsbanka Íslands.

Pétur við kassann

Og aftur vill Pétur H. Blöndal koma upp rukkunarkössum á legudeildum Landspítalans. Við það heygarðshorn var hann þegar síðasta stjórn Sjálfstæðisflokksins fór frá.
Þetta er hryllileg tilhugsun og má aldrei að veruleika verða. Pétur skákar í því skjólinu að víða sé gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu - hún þurfi bara að vera réttlátari - dreifa henni jafnar á alla sjúklinga. Staðreyndin er hins vegar sú að fimmtungur heilbrigðisútgjalda kemur nú þegar úr vösum sjúklinga beint, eins og fram kom í skýrslu Ingimars Einarssonar, sérfræðings á sviði heilbrigðismála, sem hann vann fyrir Krabbameinsfélagið og var birt nú nýlega.
Ingimar segir réttilega að gjaldtakan sé orðin stórvarasöm því hún leiði til alvarlegrar mismununar í kerfinu. Hafi Ingimar Einarsson og Krabbameinsfélag Íslands þökk fyrir þetta framtak sitt!
Nær væri fyrir nefnd Péturs að hyggja að þessu  - ekki horfa á sjúkt fólk sem mengi - einn hóp sem þurfi að dreifa byrðunum jafnt innan,  heldur horfa til samfélagsins alls. Við eigum öll að borga til heilbrigðisþjónustunnar á meðan við erum heil heilsu í gegnum skatta, ekki láta rukka fólk þegar það er orðið veikt. Ég hvet fólk til að mótmæla Pétri og félögum því á þessu stigi má ætla að hann sé að kanna viðbrögðin - sjá hvernig landið liggur.

Hanna Birna vill einkavæða vegi og hafnir!

 Innanríkisráðherrann, Hanna Birna Kristjánsdóttir, ávarpaði í vikunni fund Hafnasambands Íslands. Þar opnaði hún líkt og Pétur H. Blöndal á hugmyndir einsog það er kallað. Ráðherrann reifaði„hugmyndir að aðkomu annarra en ríkissjóðs að uppbyggingu innviða í landinu, til dæmis vega, flugsamgangna eða hafnarmannvirkja,"eins og fram kemur í frásögn ráðuneytisins af fundinum. Innanríkisráðherrann og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði ennfremur, samkvæmt sömu heimild, að fólk yrði að gera sér grein fyrir því „að út um allt land leynast mikil fjárfestingartækifæri."
Hanna Birna nefndi sem dæmi „fyrirhugaðar rannsóknir í samstarfi við einkaaðila á mögulegri stórskipahöfn í Finnafirði. Þar væri ekki gert ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi ríkisins...." Fróðlegt er að heyra þessar „hugmyndir" reifaðar.
Minnumst þess að einkaaðilar framkvæma nú þegar flest það sem Vegagerðin og aðrir opinberir aðilar standa fyrir. Hér er verið að tala um eignarhald á mannvirkjum í samræmi við kröfu Samtaka atvinnulífsins og ýmissa fjárfesta sem við fengum að kynnast á síðasta kjörtímabili.   


En hvað þýðir þetta?

Þetta þýðir að aftur er farið að tala um að einkaaðilar eignist vegi og nú einnig hafnir á Íslandi - hvort sem það er til eilífðarnóns eða til einhverra áratuga. Er það þetta sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra var að ýja að í Londan þegar hann vildi fá peningaspekúlantana til Íslands.
„Umfram allt þá höfum við  viljann til að laða hingað til lands erlendar fjárfestingar", sagði innanríkisráðherra á fyrrnefndu Hafnaþingi.
„Við", segir ráðherrann, en hver erum við? Ökumenn á vegum landsins? Höfum við viljann til að láta ríkið draga sig út úr framkvæmdum fyrir okkar hönd á meðan við verðum ofurseld gróðamaskínum, sem koma til með að rukka okkur fyrir afnot af vegunum  þeirra? Og á vilji þeirra sem sækjast eftir því að ráðast í auðlindabrask á Grænlandi og stórskipaflutninga á Norðuhöfum að ráða uppbyggingu á norð- austurlandi? Ef við tökum ákvörðun um stórskipahöfn þar, þá á það að vera yfirveguð lýðræðisleg ákvörðun en ekki háð duttlungum handhafa fjármagnisins.
Og nákvæmlega sömu lögmál munu gilda í höfnunum og á vegunum eða annars staðar þar sem þessi makalausa ríkisstjórn kemur kreddum sínum í framkvæmd.
Þetta má ekki gerast. Við erum ekki bara að tala um ákvarðanir sem taka til næstu fjögurra ára.
Þetta snýr að framtíðinni sem ríkisstjórnin vill að verði í höndum fjárfestanna í London og víðar, sem nú er boðinn aðgangur að pyngjum Íslendinga á ókominni tíð.
Ögmundur Jónasson, alþingismaður