Fara í efni

ÞAÐ ER SVO MARGT Í MÖRGU

Aparnir þrír
Aparnir þrír

Ísland sogaðist inn í öfgafullan kapítalisma á fyrsta áratug þessarar aldar með öllum verstu einkennum sem þeirri skepnu fylgja. Gott ef þau átu ekki gull í einhverjum partíunum og  svo hlustuðu þau náttúrlega á innfluttan Elton John á afmælinu sínu. „Ég á þetta, ég má þetta," var viðkvæðið.

Og ráðherrarnir sögðust „eiga sér draum" að gera Ísland að miðlægri fjárfestingarmiðstöð  fyrir heiminn allan. Burt með allt regluverk, einfaldara Ísland, var hrópað á torgum. Viðskiptaráð fékk 55 milljón króna styrk til að aðstoða Viðskitparáðuneytið  að undirbúa skattaparadís í Keflavík.  Frá september 2003 til 2008 jukust lánveitingar íslensku bankanna úr 800 milljörðum í 4800 milljarða! Það er von að refsa þyrfti Íbúðalánasjóði!

Ég man eftir því frá þessum tíma að heimsækja bankastjórn til þess að fræðast um hvað væri að gerast; hvort ekki væri hægt að lækka vexti. Óstöðvandi hlátur setti að samkvæminu. Vextir skipta okkur engu máli, það eru kaup og sala á hlutabréfum sem máli skipta og svo náttúrlega yfirtaka, var okkur sagt.

Það var á þessum tíma sem lagt var fram frumvarp um aðskilnað  viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða og aftur var hlegið. Næst kom tillaga frá ríkisstjórninni um að vogunarsjóðir fengju greiðari aðgang að lífeyrissjóðunum. Það var fjármálaráðherrann sem var fyrsti flutningsmaður en í frumvarpinu  var mælt með svokallaðri skortsölu, að lífeyrissjóðirnir færu niður í versta svaðið. Svona var talað í nafni ríkisstjórnar, og undir lokin var svona talað í nafni  Íhalds og Samfylkingar.  En áður í langan tíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Eruð þið nokkuð búin að gleyma?

Hvers vegna að rifja þetta upp nú? Jú, vegna þess að nú eru hrunverjar sestir aftur að í Stjórnarráðinu og tala fyrir einfaldara Íslandi. Og sjálfstæðismennirnir, gömlu þátttakendurnir í ruglinu eru farnir að endurskrifa söguna. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur bakföll yfir þeirri skelfilegu endurminnigu að VG hafi árið 2007 viljað eyða afgangi af fjárlögum í uppbyggingu velferðarþjónustu og til  almannatrygginga - fullkomlega óábyrgt! Glórulaus eyðsla! (sjá síðasta helgarpistil Þorsteins í Fréttablaðinu).

Inn í þessa söguskýringu er því sleppt að setja atburði og afstöðu manna inn í sögulegt samhengi, nema hvað þessi fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins má eiga það að viðurkenna að á þessum tíma var það tálsýn að gleðjast yfir tekjuafgangi á ríkissjóði á meðan þjóðarbúið var komið í mikla skuldsetningu. En gæti nú verið að á þetta hafi verið bent? Og gæti verið að einhver hafi orðað það að bankarnir væru orðnir of stórir fyrir íslenskt hagkerfi og væru þjóðinni  ekki eftirsóknarverðir bólfélagar?

Reykjavíkurbréf er skrifað af öðrum formanni Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddssyni. Þar er um síðustu helgi minnt á að bankakreppan hafi verið alþjóðlegur vandi en ekki séríslenskt fyrirbæri. Alls staðar hafi einkennin verið hin sömu. Undir það skal tekið að rétt er að skoða allt þetta samhengi og gera það á yfirvegaðan hátt. Það breytir því hins vegar ekki að í veruleikanum eru alltaf gerendur, ekki bara leiksoppar í sögulegri framvindu. Það á einnig við um hér á landi. Og þegar við sjáum sömu teikn á lofti og áður boðuðu válynd veður ber að hafa varann á. 

Sennilega er hann Hannes okkar Hólmsteinn  aðdáunarverðastur allra manna  í endurskrifun sögunnar. Staðfastur dregur hann áfram plóginn og reynir að brjóta að nýju land til pólitískrar ræktunar á hinum sviðnu ökrum. Og hann hlífir sér hvergi við að framleiða meintar flökkusögur úr hruninu. Verða þær án efa skrifaðar svo lengi sem höfundi endist aldur til. Þær fjalla að uppistöðu til um misskilning sem hafi komist á kreik um frjálshyggjuna.

Æ, það var svo margt misskilið í þessu hruni, við vorum bara hluti af mannkynsögunni, það var bara tíðarandinn að éta gull og skjóta undan nokkur þúsund milljónum inn í skattaskjólin. Menn vildu hafa „sín stærri mál í friði", sagði bankastjóri í viðhafnarviðtali á þessum tíma. Það skipti ekki öllu hver stal og hve miklu. Enda er svo margt í mörgu. Og svo er svo mikið um flökkusögu-rugl.