Fara í efni

AÐ VITA HVAÐ KANSLARINN HUGSAR

DV
DV

Birtist í DV 11.11.2013
Yfirmaður Öryggisstofnunar Bandaríkjanna, NSA, sat fyrir svörum hjá bandarískri þingnefnd um hleranir á síma Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Hann var spurður hvort hann gæti réttlætt þær og þá hvernig. Hann svaraði að bragði á þá leið að gott væri að vita hvað kanslarinn væri  að hugsa!
Veruleikinn er um sumt að taka á sig myndir sem við hefðum ekki látið okkur dreyma um fyrir nokkrum áratugum. Við fengum að vísu varnaðarorð í skáldsögum á borð við 1984 eftir George Orwell en veruleiki eftirlitsþjóðfélagsins eins og það er að birtast okkur núna er miklu ýktari en ímyndunarafl hugmyndaríkustu rithöfunda fyrri tíðar leyfði, hvað þá okkar ímyndunarafl, hins almenna manns. Þó voru ýmsar vísbendingar um það hverju mætti búast við ef við héldum ekki vöku okkar.

Daufgerður heimurYfirlýsingin um að gott væri að vita hvað kanslari Þýskalands sé að hugsa, vakti að sönnu gagnrýnin viðbrögð. En samt furðu lítil miðað við tilefnið og ætti það í sjálfu sér að verða okkur til umhugsunar, hve daufgerður heimurinn er þegar mannréttindi eru annars vegar.
Annað dæmi þar um eru upplýsingar um pyntingar í Írak sem tengjast hernaðarbandalaginu „okkar" - NATÓ. Ég hef oft hugsað til þess hve vesöl viðbrögð heimsbyggðarinnar hafa verið við pyntingarbúðum Bandaríkjamanna í Guantanamó og síðan einnig í Írak. Vissulega voru réttarhöld yfir einstaklingum sem myndir voru til af við dýrslegar aðfarir í Abu Ghraib fangelsinu í Bagdad. Viðbrögð umheimsins voru þó furðu daufleg  þegar höfð er hliðsjón af tilefninu.

Á okkar ábyrgð!

Og nú fáum við óvéfengjanlegar fréttir af tengslum NATÓ við pyntingar í Írak. Ég hef ekki orðið var við önnur  gagnrýnin fréttaskrif um þær en hér í DV í prýðilegri samantekt nýlega. Vel má vera að umfjöllun annarra miðla hafi farið framhjá mér.
Upplýst er að bandarískir heilbrigðisstarfsmenn hafi tekið það sem hluta af starfsskyldum sínum í Írak að hjálpa til við pyntingar! Hve margir skyldu vita þetta?
Öll höfum við þó aðgang að þessum upplýsingum. Það er að sönnu meira en gerist í einræðisríkjum á bak við luktar dyr.

Uppljóstrurum að þakka

En gleymum því þó ekki að við fáum þessar upplýsingar aðeins fyrir tilstilli uppljóstrara á borð við Snowden,  Manning og Wikileaks sem komið hefur upplýsingum uppljóstraranna á framfæri við heimsbyggðina. Ekkert af þessu vissum við, ef ekki væri fyrir starf þessara aðila.  Og þeir eru hundeltir. Julian Assange situr í senidiráði Ekvador í London og veit hvað bíður hans ef hann gengur þaðan út. Sömuleiðis er Snowden fastur í Moskvu og á yfir höfði sér stranga fangelsisdóma í heimalandi sínu, Bandaríkjunum, ef hann heldur þangað á ný. Manning hefur hlotið dóm. Opið lýðræðisþjóðfélag er ekki opnara eða lýðræðislegra en þetta!
Og allt þetta lætur hinn daufgerði heimur bjóða sér. Fólkið sem hefur upplýst okkur um að við séum hleruð dag og nótt - ég og þú, Angela Merkel og öll hin - er umsvifalaust stefnt fyrir dóm þegar yfirvöldin hafa fest hendur í hári þeirra!

Vöknum

Við stöndum að mörgu leyti á tímamótum. Við verðum að vakna til vitundar um þær hættur sem opið lýðræðissamfélag stendur frammi fyrir. Að mínum dómi er mesta hættan fólgin í andvaraleysinu; að verða aðgerðarlaus áhorfandi án þess að axla ábyrgð.
Í vikunni sem leið hóf Stjórnskipunar- og eftirlitsefnd Alþingis rannsókn á ýmsu sem snertir hleranir og eftirlit og samstarf við erlendar leyniþjónustur. Enginn er að gera því skóna að um slíkt samstarf hafi verið að ræða við Þjóðaröryggistofnun Bandaríkjanna, NSA. Engu að síður er rannsókn hafin. Við viljum sýna árvekni en með því móti búum við okkur best undir framtíðina; með því að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann.