Fara í efni

ÞAÐ Á AÐ KJÓSA UM GRUNDVALLARATRIÐI

VINSTRI HREYFINGIN GRÆNT FRAMBOÐ
VINSTRI HREYFINGIN GRÆNT FRAMBOÐ

Fékk fallega hringingu frá góðum vini í gærkvöldi þegar ég var í þann veginn að festa svefn austur í Chisinau, höfuðborg Moldóvu - þremur klukkutímum á undan okkur í tímanum - en þar er ég að sinna kosningaeftirliti í forsetakosningum sem fram fara á sunnudag. Með öðrum orðum, ég er nánast eins fjarri íslenskri kosningabaráttu og verða má, landfræðilega séð.

Vinur minn sagðist hafa þetta að segja: „Gangi ykkur vel Vinstri grænum í kosningunum á morgun. Ég ætla að kjósa ykkur."

Nú vill svo til að ég veit að það er ekki sterk pólitísk sannfæring sem knýr þennan góða vin minn til þessarar afstöðu. En hún er vel metin og það sem meira er, fyrir henni eru málefnaleg rök. Síðan eru þau sem ég einnig hef heyrt til sem segjast vilja geta treyst því að þegar til kastanna kemur séum við að kjósa um grundvallaratriði - að það verði á borði en ekki bara í orði.   

Hvers vegna ættum við að vilja  stuðla að stjórnarskiptum? Hér þarf að spyrja grundvallarspurninga. Vinur minn sem hringdi var farinn úr símanum - af tillitssemi við hálfsofandi mann -  áður en ég gat sett fram spurningar sem ég tel skipta máli í kosningum á Íslandi hvernig svarað er.

1) Viljum við vernda landið eða virkja í þágu stóriðju?
2) Viljum við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu eða öðrum innviðum?
3) Viljum við áframhaldandi aðild að hernaðarbandalaginu NATÓ?
4) Viljum við halda áfram aðild að fjölþjóðlegum markaðsvæðigarsamningum á borð við TISA?
5) Viljum við nýtt farsaferli um aðild að ESB?
6) Viljum við skattkerfi í þágu hinna efnaðri eða hinna efnaminni?
7) Viljum við forgangsraða í þágu öryrkja og lágkjara-aldraðra?
8) Viljum við draga verulega og með afdráttarlausum hætti úr kjaramun á launamarkaði, óháð kyni?
9) Viljum við útrýma með öllu óútskýrðum launamun kynjanna?
10) Viljum við aukið lýðræði og gagnsæi við alla ákvarðanatöku hjá hinu opinbera?
11) Viljum við standa vörð um íslenskan landbúnað og samvinnuformið sem fært hefur þjóðinni miklar kjarabætur?
12) Viljum við setja í stjórnarskrá þá kröfu að allar auðlindir skili hámarksarði - og stjórnarskrárbinda þannig hvata til markaðsvæðingar og rányrkju?
13) Viljum við tryggja hagsmuni samfélagsins með eignarhaldi á vatnsauðlindinni og orkuveitum eða með arðtöku?
14) Viljum við kjósa flokka sem eru líklegir til að stökkva upp í eina sæng með pólitískum andstæðingum sínum?
Við vitum á hvern veg Sjálfstæðisflokkurinn myndi svara þessum spurningum, nema þá hugsanlega fimmtu spurningu. Svörin við þeim gerðu það hins vegar að verkum á sínum tíma að ég var einn af þeim sem stóð að stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.