Fara í efni

SAMVINNUÞRÁÐURINN

Framsóknar - prjón - III
Framsóknar - prjón - III


„Framsókn vill leitast við að styðja lítilmagnann, rétta hlut þeirra, sem ofurliði eru bornir, hvetja hina óframfærnu til einurðar, ryðja braut kúguðum, frjálsbornum anda fram til starfs og menningar. Aðaltilgangur Framsóknar er sá, að hlynna að menntun og sjálfstæði íslenskra kvenna og að undirbúa þær til að girnast og nota þau réttindi, er aldirnar kunna þeim að geyma."

Þetta þykir mér vera falleg hugsun og vel orðuð, „...hvetja hina óframfærnu til einurðar, ryðja braut kúguðum, frjálsbornum anda fram til starfs og menningar ...". Þetta eru ávarpsorð fyrsta tölublaðs kvennaritsins Framsóknar, sem hóf göngu sína á Seyðisfirði árið 1895 löngu fyrir daga Framsóknarflokksins.

Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi alþingiskona og ráðherra, rifjar þessi orð upp í stórgóðri og fróðlegri grein, sem hún ritaði í tímaritið Andvara á síðasta ári þar sem hún fjallar um Rannveigu Þorsteinsdóttur (1904-1987) verkalýðsforkólf og alþingiskonu Framsóknarflokksins frá miðri öldinni sem leið.

Lesandi Sigrúnar fær skilið að tilvitnunin hafi á margan hátt verið lýsandi fyrir hugsjónir Rannveigar og þá væntanlega einnig flokkssystkina af hennar kynslóð.

Þetta rengi ég ekki að sé rétt hjá Sigrúnu Magnúsdóttur og skýrir hvers vegna ég hef alla tíð verið því fylgjandi að horfa til Framsóknarflokksins við myndun vinstri stjórna. Þennan þráð hef ég nefnilega alltaf talið mig greina.

Framsóknarflokkurinn hefur samkvæmt mínum skilningi löngum verið tveir flokkar, annars vegar sá sem starfað hefur í anda hægri sérhyggju og hins vegar ábyrgur og félagslega sinnaður flokkur, þjóðlegur og  landsbyggðar/landbúnaðar-vinsamlegur.

Það undarlega er að stundum þykir mér að báðir flokkarnir geti rúmast í sama manninum. Það er sennilega það sem framsóknarmenn meina þegar þeir segjast vera miðjumenn.

Sá vængur flokksins hefur alltaf styrkst sem skyldur er samstarfsflokki Framsóknar hverju sinni. Í slagtogi með Sjálfstæðisflokknum er Framsókn hægri sinnuð en starfi Framsókn með félagslega þenkjandi stjónmálaflokkum, kemur gamli (góði) græni samvinnuþráðurinn í ljós.

Reynslan sýnir að úr honum má vefa ágætar voðir.