Mannréttindum má aldrei fórna

Íslensk stjórnvöld óska eftir því við forráðamenn Flugleiða og Atlanta að flugfélögin gangist undir þá kvöð að ráðstafa farþegaflugvélum til flutninga á herliði á vegum NATÓ komi til átaka sem hernaðarbandalagið á hlutdeild í. Þetta lýsir ótrúlegu dómgreindarleysi. Jafnan hefur verið reynt að aðgreina rækilega á milli hernaðarstarfsemi annars vegar og almennrar samfélagslegrar starfsemi hins vegar. Samningur ríkisstjórnarinnar við flugfélögin markar fráhvarf frá þessari stefnu. Flugfélögunum er heitið greiðslu fyrir þessa aðstoð, komi til þess að farið verði fram á hana, að hámarki 300 milljónir króna.

Þessi ákvörðun sætir strax og um hana fréttist mikilli gagnrýni í þjóðfélaginu, sérstaklega úr röðum friðarsinna og andstæðinga hernaðarhyggju. Einstaklingar taka að bræða með sér að koma á framfæri mótmælum við flugfélögin. Einn þeirra sendir drög að hugsanlegu mótmælabréfi. Þar er bent á að þeir sem taki þátt í stríði, þ.m.t. flutningum í þágu hernaðar, eigi það á hættu að verða skotmörk árása. Þetta myndi eiga við um flugvélar umræddra flugfélaga.

Samkvæmt fréttum útvarps kveðst Ástþór Magnússon hafa byggt á þessum óformlegu drögum þegar hann sendir út yfirlýsingu þess efnis að hann hafi rökstuddan grun um að flugvélar á vegum Flugleiða og Atlanta kunni að verða fyrir árás og varar menn við að ferðast með þeim. Þetta er ekki aðeins bráðræði af hálfu Ástþórs heldur vítavert dómgreindarleysi. Eðlilegt er að yfirvöld krefji hann skýringa á svo alvarlegum yfirlýsingum.

Það hefur vissulega verið gert, en hvernig? Maðurinn er tekinn höndum og krafist tíu daga gæsluvarðhalds. Húsakynni hans eru rannsökuð. Samkvæmt fréttum í dag vísar ríkislögreglustjóri í breytingar sem gerðar voru síðastliðið vor á hegningarlögum þar sem sérstaklega er tekið á hryðjuverkum. Í lagaákvæðunum er m.a. vísað í verknað "í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta." Ég ítreka að eðlilegt er að Ástþór gefi skýringar á yfirlýsingum sínum. En jafnframt leyfi ég mér að spyrja hvort ekki væri nær að taka á þessum málum af meiri varfærni og með hliðsjón af aðstæðum og þá einng með tilliti til forsögunnar. Ástþór Magnússon hefur stundum gengið fram af miklu kappi en ekki alltaf sýnt forsjá að sama skapi. Stundum hefur hann sýnt lofsvert framtak, t.d. með því að vekja athygli á hlutskipti írösku þjóðarinnar og hef ég getað tekið undir með honum í því efni - í ýmsum öðrum tilvikum hef ég verið honum ósammála. Yfirlýsingar hans nú eru alvarlegar og auðvitað þarf hann eins og aðrir að standa skil orða sinna og gerða. En við skulum jafnframt gæta að því að hann sem aðrir fái notið málfrelsis og lýðréttinda. Hann sem aðrir eiga að hafa rétt á því að gagnrýna stjórnvöld. Við skulum heldur ekki horfa fram hjá því að ríkisstjórnin hefur nú haldið inn á mjög vafasamar brautir í samningum við NATÓ. Í einræðisríkjum hefur alltaf tíðkast að fangelsa þá sem lengst ganga í andófi gegn valdabrölti ráðamanna. Þeir eru skilgreindir sem "óvinir ríkisins" og settir á bak við lás og slá. Þetta þekkjum við úr sögu allra alda en látum slík vinnubrögð aldrei henda okkur. Göngum aldrei lengra í að hefta frelsi manna vegna skrifa þeirra eða ummæla en ýtrasta nauðsyn krefur.

Hér að framan var vitnað í drög að mótmælabréfi sem stungið var upp á að yrði sent Flugleiðum og Atlanta. Ég var einn þeirra sem fékk þetta bréf í hendur. Í niðurlagsorðum segir eftirfarandi: "Erindi okkar er ekki skrifað í hótunarskyni, enda teljum við okkur friðarsinna og andstæðinga ofbeldis. Erindi þetta er skrifað vegna ótta okkar um að íslensk fyrirtæki setji öryggi starfsmanna sinna og annarra Íslendinga í óþarfa hættu með því að gerast aðilar að stríðsaðgerðum stórþjóða."

Undir þennan texta vil ég taka. Jafnframt ítreka ég að samningur ríkisstjórnarinnar við íslensk flugfélög um að taka þátt í hernaðarstarfsemi á vegum NATÓ byggir ekki á góðri dómgreind. Hún er ennfremur til þess fallin að vekja óöryggi ef út í þá sálma er farið. 

Þegar spurt er hver veki ótta og með hverjum eða hver sýni litla dómgreind þá skulum við ekki gleyma því að beina sjónum okkar að ríkisstjórn Íslands og ótrúlegri fylgispekt hennar við hernaðarhyggju og vígbúnaðarbrölt stórveldanna.

Fréttabréf