Utanríkisráðuneyti í plús en Upplýsinganefnd í mínus
Birtist í Fréttablaðinu 20. desember 2002
Það er mikið um að vera á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar
þessa dagana. En það fer ekki mjög hátt. Alþjóðaviðskiptastofnunin
var sett á laggirnar árið 1994 á grunni GATT-samningaferilsins um
afnám tolla á heimsvísu. Nú er þjónustustarfsemin undir GATS
(General Agreement on Trade in Services). Tekist er á um það
hvernig skilgreina skuli þjónustustarfsemi og hvaða hlutar hennar
skuli ofurseldir markaðslögmálunum. Samtök launafólks - með samtök
innan almannaþjónustunnar í broddi fylkingar - hafa barist fyrir
því að þessar viðræður skuli fara fram fyrir opnum tjöldum en ekki
luktum. Við erum nú stödd þar í þessu ferli að einstök ríki leggja
fram kröfur á hendur öðrum ríkjum um hvaða þjónustugeirar verði
opnaðir fyrir erlendri samkeppni og settir á markað. Hugmyndin er
sú að þau reyni að ná samkomulagi sín í milli og síðan haldi allir
áfram í sameiningu að útvíkka grunninn.