Stefnan í mannréttindamálum
Fyrir alþingiskosningar beina aðskiljanleg samtök spurningum til
stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og óska eftir afstöðu þeirra
til málefna sem tengjast viðkomandi samtökum. Á meðal fyrirspurna
sem bárust inn á mitt borð voru neðangreindar spurningar frá
mannréttindasamtökunum Amnesty International. Jóhanna K.
Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty
International skrifaði stjórnmálfokkunum umhugsunarvert bréf þar
sem hún kvaðst sakna umræðu um mannréttindamál í
kosningabaráttunni. Í bréfi hennar segir m.a. eftirfarandi: " Eins
og flestir landsmenn hef ég fylgst með baráttu flokkanna og reynt
að átta mig að stefnu þeirra. Í kosningabaráttunni hef ég saknað
umræðu um mannréttindamál og þátttöku Íslands í alþjóðastarfi. Utan
ólíkrar afstöðu flokkanna til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að
styðja innrás Bandaríkjamanna og Breta inn í Írak hefur lítið farið
fyrir umræðu um alþjóðamál. Ísland er þátttakandi í margvíslegu
alþjóðlegu starfi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og
fjölda annarra alþjóðlegra stofnanna og tel ég víst að flokkarnir
hafi mótað einhverja afstöðu til ólíkra málaflokka sem Ísland þarf
að taka afstöðu til á alþjóðlegum vettvangi, hver sú afstaða er
hefur aftur á móti ekki komið fram í yfirstandandi
kosningabaráttu.
Íslandsdeild Amnesty International hefur á undanförnum árum lagt að
íslenskum yfirvöldum að rödd Íslands á alþjóðavettvangi sé ætíð
sterk sjálfstæð rödd í þágu mannréttinda. Íslandsdeild Amnesty
International kallar eftir stefnu flokkanna og spyr hvort þeir ætli
að setja mannréttindi á oddinn í utanríkismálum. Nokkur málefni eru
Amnesty International hugleikin í þessu samhengi og teljum við
mikilvægt að flokkarnir skýri aftöðu sína til þeirra."
Eftrifarandi eru spurningar Íslandsdeildar Amnesty International og
svör VG við þeim.
"1) Samningar við Bandaríkin vegna Alþjóðlega
sakamáladómstólsins
Til að tryggja undanþágu bandarískra þegna frá lögsögu Alþjóðlega
sakamáladómstólsins stendur nú yfir alþjóðlegt átak
Bandaríkjastjórnar. Ríkisstjórnir um allan heim hafa fengið beiðnir
um að ganga til samninga við Bandaríkin, þ.á.m. íslensk yfirvöld.
Slíkir samningar fela í sér tryggingu fyrir refsileysi bandarískra
þegna sem gerast sekir um þá glæpi sem Alþjóðlegi
sakamáladómstóllinn fjallar um. Farið er fram á að ríkisstjórnir
muni ekki framselja bandaríska þegna til dómstólsins, né rétta yfir
þeim í eigin landi. Hver er stefna flokkanna um slíka samninga
vegna Alþjóðlega sakamáladómstólsins?
Svar: Stefna VG er afdráttarlaus í þessu efni. Íslendingar
eiga ekki á nokkurn hátt að veita Bandaríkjastjórn stuðning til að
undanskilja sína þegna lögsögu Alþjóðlega sakmáladómstólsins.
Beiðni Bandaríkjastjórnar þar að lútandi ber í senn vitni mikilli
siðblindu og hroka heimsveldis. Þetta er reyndar í fullu samræmi
við framgöngu Bandaríkjastjórnar nú um stundir. Hún beitir
hernaðarofbeldi málstað sínum til framdráttar en ætlast síðan til
að standa ofar lögum og mannrréttindasáttmálum. Að sjálfsöðgu eiga
Íslendingar ekki að leggja blessun sína yfir slíkan tvískinnung og
siðleysi. Þvert á móti eigum við að andmæla
kröftuglega.
2) Málefni flóttafólks
Íslensk yfirvöld hafa hingað til túlkað alþjóðasamning um réttindi
flóttafólks mjög þröngt og í nýjum lögum sem tóku gildi í byrjun
þessa árs nær skilgreining á hugtakinu flóttamaður einungis til
fólks sem ofsótt er af hálfu ríkisvaldsins en ekki til einstaklinga
sem sæta brotum af hálfu aðila óháðum ríkisvaldinu. Hver er stefna
flokkanna í málefnum flóttamanna?
Svar: Alþjóðasamningur um réttindi flóttafólks hefur ekki
verið tekinn til sérstakrar umræðu í flokknum en almennt er það
stefna VG að túlka beri samninga og skuldbindingar sem varða
mannréttindi jafnan í hag þeirra sem sæta ofbeldi og
ofsóknum.
3) Alþjóðasamningar
Ísland hefur gerst aðili að fjölmörgum alþjóðlegum
mannréttindasamningum og viðbótarákvæðum við þá. Sumir hafa verið
staðfestir af Alþingi en aðrir einungis undirritaðir og hafa ekki
komið til staðfestingar enn. Viðbótarákvæði 12 (bann við mismunun)
og 13 (bann við dauðarefsingum) við Mannréttindasáttmála Evrópu eru
einungis tvö dæmi þar sem ,,trassað" hefur verið að láta Alþingi
staðfesta. Hver er stefna flokkanna þegar kemur að alþjóðasamningum
og tryggingu þess að íslensk lög séu í samræmi við þá? Munu
væntanlegir þingmenn leitast við að tryggja að ný lög séu í samræmi
við alþjóðlegar mannréttindareglur?
Svar: Alþjóðasamninga sem Íslendingar gerast aðilar að á að
virða og að sjálfsögðu ber að staðfesta þá á viðeigandi hátt, í
lögum ef svo ber undir, en einnig þarf að framfylgja þeim.
Sérstaklega er knýjandi að Íslendingar láti beinlínis að sér kveða
varðandi framkvæmd mannréttindasamninga. Það má gera með ýmsum
hætti, m.a. með því að taka jafnan afstöðu í anda þeirra þegar færi
gefst og hafa uppi kröftug mótmæli þegar þeir eru virtir að
vettugi.
4) Mannréttindadómstólar
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg þarf nauðsynlega aukið
fjármagn til að geta uppfyllt verkefnasvið sitt. Komið hafa fram
tillögur um hvernig hægt er að bregðast við auknu álagi á
dómstólinn. Ein þeirra felur í sér skerðingu á
möguleikum einstaklinga til að áfrýja til dómstólsins. Hver er
afstaða flokkanna til þeirrar tillögu?
Sameinuðu þjóðirnar hafa sett á laggirnar sér dómstóla til að rétta
yfir sakborningum vegna mannréttindabrota í fyrrum Júgóslavíu,
Rúanda og Sierre Leone. Á Alþingi hafa verið samþykkt lög um
samvinnu við Júgóslavíudóm-stóllinn en ekki sambærileg lög um
samvinnu við dómstólanna í Rúanda og Sierre Leone. Hver er afstaða
flokkanna til fjárhagslegs og annars stuðnings Íslands við slíka
dómstóla?
Svar: Að sjálfsögðu á eitt yfir alla að ganga og eigum við
að samþykkja lög um samvinnu við alla þá mannréttindadómstóla sem
settir eru á laggirnar af hálfu SÞ. Á þeim vettvangi eigum við
einnig að tala fyrir þeim málstað að ekki sé einvörðungu réttað í
meintum mannréttindabrotum hins sigraða heldur einnig
sigurvegarans.
3) Mál einstaklinga
Stjórnmálamenn þekkjast oft boð um að heimsækja lönd þar
sem mannréttindabrot eru almenn. Í slíkum heimsóknum eiga ráðherrar
og aðrir stjórnmálamenn oftar en ekki samtöl við ráðamenn í
viðkomandi landi. Hver er stefna flokkanna þegar kemur að málum
einstaklinga sem sæta mannréttindabrotum í þeim löndum sem þeir
heimsækja. Munu mál einstaklinga verða tekin upp í slíkum
heimsóknum og /eða einstakir málaflokkar svo sem dauðarefsingar og
pyndingar.
Skýr stefna stjórnmálaflokka í mannréttindamálum getur
stuðlað að aukinni vernd og virðingu fyrir mannréttindum um heim
allan.
Svar: Af hálfu fulltrúa Íslands, hvort sem er ríkisstjórnar
eða stjórnmálaflokka, á það að vera sjálfsögð regla að taka upp
viðræður um mannréttindabrot ef vitneskja er um að mannréttindi séu
ekki virt í viðkomandi ríki. Í sumum tilvikum kann að vera rétt að
afþakka heimboð með mótmælum, í öðrum tilvikum kann að vera rétt að
hafa fyrri háttinn á. Þetta hlýtur jafnan að vera matsatriði. Hitt
er afdráttarlaust að þessi mál þurfa jafnan að vera ofarlega í
sinni í samskiptum við fulltrúa annarra þjóða."
Ég læt hér til upplýsingar fylgja heimilisfang og netslóðir
Amnesty International bæði á heimsvísu og
Íslandsdeildarinnar.
Íslandsdeild Amnesty International
P.O.Box 618
121 Reykjavík
Iceland
Tel: + (354) 551 6940
Fax: + (354) 561 6940
http://www.amnesty.is
http://www.amnesty.org/actnow