Einar Karl og William Blum
Birtist í Fréttablaðinu 15.07. 2003
Einar Karl Haraldsson varaþingmaður Samfylkingarinnar hefur látið
nokkuð að sér kveða að undanförnu í umræðunni um "varnarmálin".
Mörgum brá í brún þegar hann viðraði hugmyndir um að Íslendingar
kæmu á fót eigin her. Fram til þessa hefur Björn Bjarnason verið
nánast einn íslenskra stjórnmálamanna um að ala með sér slíka
drauma.
Hleypidómalausa umræðu
Einar Karl biður okkur að ræða þessi mál hleypidómalaust og spyrja hvort við í reynd séum sú vopnlausa og friðsama þjóð sem við viljum vera láta. Í Fréttablaðinu 10. júlí segir hann að við séum föst í gamalli "orðræðu sjálfstæðisstjórnmálanna" sem innistæða sé ekki lengur fyrir. Hann tekur sem dæmi að við höfum afhent þætti í ríkis-, löggjafar- og dómsvaldi til alþjóðastjórnmála án þess að vilja horfast í augu við þá staðreynd. "Við horfum líka framhjá vélbyssum íslenskra lögreglumanna...." Landhelgisgæslan er vopnuð og víkingasveitin er alvopnuð. Einar Karl segist ekki vita betur en "þessi vopnun átt sér stað án þess að til hafi komið löggjöf eða þingræðislegt eftirlit, fyrir utan almenna umræðu um að nauðsynlegt sé að vera á varðbergi gegn "nýjum ógnum"". Ég tek undir það með Einari Karli Haraldssyni að nauðsynlegt er að ræða þessi mál hleypidómalaust og einnig er rétt hjá honum að um vígvæðinguna hér innan lands þarf að fara fram umræða og þingræðislegt aðhald þarf að vera til staðar. Þessi mál á að þróa af yfirvegun og með hlutdeild löggjafarvaldsins. Hitt er ekki rétt hjá honum að annað hafi ekki verið reynt. Það er heldur ekki rétt að við "horfum.. framhjá vélbyssum íslenskra lögreglumanna..." Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafa margoft tekið þessi mál upp á Alþingi og fjallað um þau á prenti. En látum það liggja á milli hluta. Það sem ég vildi vekja athygli á í þessum fáu línum er tvennt, annars vegar peningahliðin og hins vegar hin kjarnlæga spurning um hvernig vörnum verði best við komið.
Vígvæðing eða velferð
Einar Karl benti á það í Morgunblaðsgrein 16. júní að
grannþjóðir okkar verðu 2-3% þjóðarframleiðslu sinnar til hermála.
Það samsvaraði 16-25 milljörðum króna hjá okkur eða 6-9% af
fjárlögum ríkisins. Það þykir Einari Karli mikið en segir þó að
reikna megi með auknum skattatekjum " þegar hinu mikla
framkvæmdatímabili vegna álvers og virkjunar fyrir austan lýkur." Í
framhaldinu segir hann: "Við höfum því efni á að taka meiri þátt í
vörnum landsins, en auðvitað myndi ákvörðun um slíkt þrengja að
öðrum kostum og verkefnum."
Í framhaldi af þessu langar mig til að snúa yfir á íslensku nokkrum
línum úr nýútgefinni bók eftir William Blum sem ber heitið "Rogue
State" eða "Fanta-Ríkið" (og er þar ekki átt við Írak heldur
Bandaríkin). : "Væri ég forseti myndi mér takast á fáeinum dögum að
stöðva allar hryðjuverkaárásir og það í eitt skipti fyrir
öll. Ég myndi fyrst biðjast afsökunar. Ég myndi beina
afsökunarbeiðni minni til ekkna, munaðarleysingja, allra þeirra sem
rúnir hafa verið eigum sínum eða orðið fórnarlömb bandarískrar
heimsvaldastefnu. Síðan myndi ég í fullri einlægni lýsa því yfir -
og láta orð mín berast til allra heimshorna - að íhlutun
Bandaríkjanna á heimsvísu væri lokið. ... Síðan myndi ég draga úr
hernaðarútgjöldum um 90% og nota það fé sem þannig sparaðist til að
greiða fórnarlömbum skaðabætur. Það fé myndi duga vel. Eins árs
hernaðarútgjöld sem nema 330 milljörðum dollara samsvara 18 þúsund
dollurum á hverja einustu klukkustund sem liðin er allar götur frá
dögum Jesú Krists ... Þessar ákvarðanir myndi ég taka fyrstu þrjá
daga mína sem forseti. Fjórða daginn yrði ég ráðinn af
dögum."
Ekki efa ég að einhverjir vildu ráða slíkan forseta Bandaríkjanna
af dögum en hitt er víst að næði sú stefnubreyting sem þarna er
boðuð fram að ganga yrði heimurinn friðvænlegri. Ekki segi ég þetta
í neinum hálfkæringi eða til að snúa út úr fyrir Einari Karli
Haraldssyni heldur vil ég einfaldlega leggja áherslu á að ef farið
er að ausa fjármunum í vígvæðingu þá kæmi það annars staðar fram
eða eins og Einar Karl orðar það sjálfur, það myndi "þrengja að
öðrum kostum og verkefnum."
Öryggið og samviskan
Hvað varnarmálum viðvíkur þá eiga Íslendingar að byrja á því að spyrja grundvallarspurningar: Af hverju og hverjum stafar okkur ógn? Hvaða ríki eru líkleg til að ráðast á okkur? Eru einhver ríki í okkar heimshluta líkleg til þess? Og hvað með hryðjuverkahópa? Einar Karl Haraldsson segir í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein að því megi halda fram "að nærvera hermanna frá voldugasta hernaðarveldi heims hér á landi sé helsta tryggingin fyrir öryggi." Þetta held ég að sé alrangt. Af fylgispekt okkar við heimsveldi sem traðkar á fátækum ríkjum heimsins stafar okkur einmitt mest hætta. Öryggi okkar verður best tryggt með því að fylkja okkur um sanngjarnan og réttlátan málstað á heimsvísu. Það er ekki nóg með að það tryggi best öryggi okkar. Það hreinsar einnig samviskuna.