Forsætisráðherra vill heimshreinsun
Mánudaginn 21. maí skrifar Geir R. Andersen, gamalgróinn
fjölmiðlamaður á DV, brýningargrein í blað sitt um Íraksstríðið. Nú
sé hætta á því að Evrópa "kikni í hnjáliðunum" gagnvart
gagnrýnendum þeirra Bush og Blairs. "Sagan er að taka nýjan kúrs,
hún hefði ekki fyrirgefið þeim að taka ranga ákvörðun", segir Geir.
Að hans mati hefðu þeir félagar, Bush og Blair, brugðist ef þeir
hefðu ekki látið til skarar skríða gegn Írak. Ekki þurfti Geir R.
Andersen að bíða lengi eftir að skoðanabróðir og liðsmaður sama
málstaðar léti til sín heyra. Sá maður heitir Davíð Oddson og
er forsætisráðherra Íslands. Honum var mikið niðri fyrir í
stórviðtali við DV um síðustu helgi, enda dugðu honum ekki minna en
tvær opnur til að tjá viðhorf sín.
Nánast í hverri málsgrein voru útúrsnúningar og rangfærslur. Sem
betur fer rennur blóðið ennþá í gömlum símamönnum og var ekki
liðinn langur tími frá því viðtalið birtist þar til fyrrverandi
forstöðumaður þjónustudeildar Landssímans hafði svarað fyrir sig og
sína menn. Hann vildi einfaldlega hrekja þá fullyrðingu
forsætisráðherra Íslands að starfsmenn Landssímans hefðu ( þ.e. á
meðan síminn var ríkisstofnun) sagt við alla viðskiptamenn sem
sneru sér til þeirra: "Étiði skít". Með þessari grein Þorsteins
J.Óskarssonar, fylgdu mjög athyglisverðar samanburðartölur frá
OECD, sem sýndu að fyrir hlutafélagavæðingu var íslenski síminn með
hagstæðustu verð á innanlalndssímtölum af öllum þeim ríkjum sem
samanburðurinn tók til. En nóg um það - í bili.
Vill að þingmenn skammist sín
Í viðhafnarviðtalinu við forsætisráðherra lét hann svo lítið að
víkja nokkrum orðum að okkur þingmönnum sem beittum okkur gegn
viðskiptabanninu á Írak. Áður hafði hann tekið af öll tvímæli um
það að sagan ætti ekki eftir að fella áfellisdóm yfir þeim félögum
Bush og Blair fyrir að hafa beitt blekkingum til að réttlæta
einhliða ákvörðun sína að ráðast á Írak án samþykkis Sameinuðu
þjóðanna. Þetta var auðafgreitt mál af hálfu ráðherrans: "Ég tel
ekki að það þurfi neina fyrirgefningu á því að koma einum versta
harðstjóra sögunnar, blóðhundi, í burtu." - Geir R.Andersen
mun án efa varpa öndinni léttar.
Varðandi staðhæfingar um að mörg hundruð þúsund manns hafi látið
lífið af völdum áralangs viðskiptabanns á Írak stendur ekki heldur
á skýringum hjá forsætisráðherra: " "...meira að segja þingmenn
hér, sem ættu nú að skammast sín, fullyrtu þetta, að börn væru að
deyja hundruðum þúsunda saman af því að Vesturlönd væru með
innflutningsbann á Írak."
Nú hefur það ekki verið umdeilt að dauða hundruða þúsunda manna
megi rekja til viðskiptabannsins á Írak. Einkum er þetta rakið til
næringarsjúkdóma vegna skorts á matvælum eða vatnsmengunar því
vatnsból voru eyðilögð í stríðnu 1991 og sömuleiðis skólplagnir
víða um Írak. Írakar gátu ekki keypt tæki og tól til viðgerða. Sama
máli gegndi um sjúkragögn og margt annað sem nauðsynlegt er til
lífsviðurværis. Um þetta hefur mikið verið fjallað í stofnunum
Sameinuðu þjóðanna, svo sem í skýrslum
Alþjóðaheilbrigðistofnunarinnar (WHO) og Barnahjálpar Sameinuðu
þjóðanna (UNICEF).
Afleiðingar viðskiptabannsins ekki umdeildar
Í gögnum rannsóknarnefnda á vegum Sameinuðu þjóðanna kemur
fram að í raun sé ekki deilt um afleiðingar viðskiptabannsins. Það
sem deilt er um, er hverjum viðskiptabannið sé að kenna,
Öryggisráði SÞ eða Íraksstjórn. Framan af virtust talsmenn
Bandaríkjastjórnar ekki einu sinni hafa áhyggjur af vofeiflegum
afleiðingum bannsins svo vissir voru þeir í sinni sök. Frægt af
endemum var viðtal við Madeleine Albright, um skeið sendiherra
Bandaríkjastjórnar hjá Sameinuðu þjóðunum, síðar utanríkisráðherra
lands síns, í bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS. Hún var spurð
hvernig hún réttlætti aðgerðir sem leitt hefðu til dauða hálfrar
milljónar barna. Hún sagði að svar sitt kynni að hljóma harkalegt,
en framhjá því yrði ekki horft að Bandaríkjamönnum bæri
skylda til að gæta hagsmuna sinna á þessum slóðum. Þessi kona sótti
Ísland síðast heim í október árið 2000. Utanríkisráðherra Íslands
hafði þá þau orð um hana að hún væri "hlý kona og dugleg".
Eftir því sem á leið breyttist þessi tónn enda voru æðstu
trúnaðarmenn Sameinuðu þjóðanna í forsvari fyrir mannúðarhjálp
farnir að segja af sér hver á fætur öðrum í mótmælaskyni við
"þjóðarmorð" sem þeir kváðu SÞ bera ábyrgð á. Sjálf
mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna (United Nations Commission on
Human Rigths) lét vinna skýrslu þar sem fram kom mjög harkaleg
gagnrýni og sérfræðingar í alþjóðarétti fullyrtu að viðskiptabannið
stæðist ekki alþjóðlega sáttmála. Þessir aðilar vísuðu m.a. í
mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, barnasáttmálann,
Genfarsáttmálann frá 1949 og þá einkum viðauka við hann frá árinu
1977. Þetta varð þess valdandi að ákvörðun var tekin um að
slaka á viðskiptabanninu er leið á tíunda áratuginn. Eftir sem áður
komu fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur aðstandendum
viðskiptabannsins og má þar t.d. vísa í nýlegar skýrslur
Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Málflutningurinn breytist með vindinum
Ekkert af þessu kemur forsætisráðherra Íslands við. Honum nægir að fullyrða að það hafi verið hin "mesta heimshreinsun að koma þessu hyski burtu frá Írak." Það er ágætt að menn séu vissir í sinni sök en þá þurfa menn líka að byggja á þekkingu og yfirvegun. Það er ekki sæmandi fyrir Íslendinga að þeir menn sem eru í forsvari fyrir þjóðina, forsætis- og utanríkisráðherra geri sér að góðu að endurvarpa síðustu frösunum frá Washington og London. Í kjölfar þess að lífið hefur verið murkað úr mörg hundruð þúsund manns og rökstuddar fullyrðingar settar fram um að við berum þar sök vegna stuðnings okkar við viðskiptabannið, þá geta menn ekki leyft sér að yppta öxlum. Menn geta ekki heldur leyft sér að haga seglum eftir vindi til að réttlæta málstað sinn eins og þeir gera Bush, Blair og hinir "staðföstu" stuðningsmenn þeirra. Einn daginn á að ráðast á Írak vegna þess að stjórnendur landsins hafi ekki virt kröfur Öryggisráðs SÞ um að eyða gereyðingarvopnum. Þegar sú ástæða er ekki lengur brúkleg, þá er ný ástæða tínd til, verið var að frelsa þjóðina undan harðstjórn.
Hvar á að hreinsa til?
Að lokum um meintar "heimshreinsanir". Ég er vissulega á því að
Sameinuðu þjóðirnar eigi að geta beitt sér í þágu mannréttinda,
m.a. til að losa þjóðir undan kúgurum. Það verður hins vegar ekki
gert þegar verkstjórinn er stærsta hernaðarveldi heimsins sem fyrst
og síðast lætur stjórnast af eigin hagsmunum. Um þessar mundir er
Líbería mjög í umræðunni vegna þeirrar ógnaraldar sem þar geisar.
Líbería var um langt skeið allvel statt ríki miðað við það sem
gerist í vesturhluta Afríku. Árið 1980 verða hins vegar þáttaskil.
Þá braust undirforingi í lífvarðarsveit forsetans, Samuel K.
Doe, til valda. Hann myrti forsetann og alla ríkisstjórnina.
Síðan réðst hann til atlögu gegn þjóð sinni með manndrápum og
ofbeldi. Hann hafði hins vegar vit á þvi að gerast handgenginn þá
nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, Ronald nokkrum Reagan. Von bráðar
hafði Líbería fengið mestu hernaðaraðstoð sem Bandaríkjamenn veittu
þá í Afríku, 500 milljónir dollara. Stjórnendur í Líberíu hafa
síðan vitað hvað til sín friðar heyrði enda hafa þeir jafnan reynst
Bandaríkjamönnum staðfastir stuðningsmenn. Öðru hvoru urðu
mannaskipti í Líberíu, t.d þegar strokufanginn, Charles Taylor
hrifsaði völdin 1989, en að nafninu til hefur hann haft
valdataumana í sínum höndum. Það er fyrst eftir að hann hætti að
ráða við ástandið innanlands að Bandaríkjamenn neyðast til að beina
sjónum sínum til þessa lands. En aldrei minnist ég þess að hafa
heyrt Davíð Oddsson tala um þörf á heimshreinsun í Líberíu.
Sennilega á slík hreinsun aðeins rétt á sér á völdum svæðum.