Hvað viljum við í Öryggisráð SÞ?
Birtist í Fréttablaðinu 06.08.2003
Á sínum tíma tókum við ákvarðanir um stækkun fiskveiðilögsögunnar
þvert á ríkjandi skoðun í heiminum og höfðum þann árangur að
gerbreyta viðhorfum manna til nýtingarréttar og
fiskveiðistjórnunar. Þetta sýndi að með samtakamætti og trú á
málstað getur lítil þjóð fengið ýmsu áorkað. Í kjölfar
Þorskastríðanna var stundum haft á orði, að svo harðdrægir hefðu
Íslendingar reynst, að forsjóninni væri fyrir að þakka að þeir væru
ekki fjölmennari en raun ber vitni. Þá fyrst yrðu þeir varasamir
þegar þeir kæmust í tölu milljónaþjóða. En dugnaður og eftirfylgni
er síður en svo slæm, allt er undir því komið hver málstaðurinn er,
sem barist er fyrir.
Ég er nokkuð viss um að innst inni þykir flestum hlutskipti okkar á
alþjóðavettvangi vera vesælt nú um stundir. Núverandi ríkisstjórn
hefur unnið sér það helst til afreka að reisa rándýr sendiráð, lofa
hundruðum milljóna inn í hermálahít Nató og ganga lengra en flestar
aðrar þjóðir heimsins í gagnrýnislausum stuðningi við
hernaðarstefnu Bandaríkjastjórnar. Alltaf eru þeir mættir, Davíð og
Halldór, þegar kallað er frá Washington. Þeir þurfa ekki annað en
klapp á kollinn, eða eitt símtal frá einhverjum háttsettum, til að
verða sælir með sitt. Átakanlegust var barnsleg gleði
ríkisstjórnarinnar þegar henni var hrósað fyrir að halda hér á
landi áfallalausan fund æðstu manna Nató.
Bætt samningsstaða á kostnað mannorðsins?
Og nú vilja þeir fá að komast í Öryggisráðið. Það ætti að vera
Íslendingum mikið kappsmál, segja þeir Davíð og Halldór, og kveðast
hafa áform um að setja bæði mikinn mannafla og fjármuni til að
tryggja okkur setu í ráðinu. En hvaða stefnu á að framfylgja þar? Í
þágu hvaða málstaðar ætlum við að beita okkur? Erum við að sækjast
eftir aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að fylgja þeirri
stefnu sem við höfum fylgt á undanförnum árum? Eða eru uppi aðrar
hugmyndir?
Tökum dæmi um hitamál sem upp hafa komið á vettvangi SÞ. Hver hefði
afstaða Íslendinga verið árið 1990 þegar ákvörðun var tekin um að
ráðast á Írak og í kjölfarið setja mjög umdeilt viðskiptabann á
þjóðina? Þá voru uppi miklar deilur sem enduðu með þvingunum og
stórfelldum mútugreiðslum af hálfu Bandaríkjastjórnar. Ríkisstjórn
Íslands hefði án efa stutt sína menn í Washington. Spurningin er
hvort hún hefði notað tækifærið til að eiga orðastað um framtíð
Keflavíkurflugvallar. Ef marka má yfirlýsingar framsóknarþingmanna
nú í sumar styrkti afstaða okkar í Íraksmálinu stöðu okkar gagnvart
Bandaríkjastjórn! Ekki lofar góðu hve lítils mannorðið er metið á
þeim bænum.
Hvað með Írak og Palestínu?
Hvað hefðu Íslendingar gert þegar Bandaríkjamenn og Bretar
kröfðust stuðnings Öryggisráðs SÞ til árásar á Írak, en fengu ekki,
fyrr á þessu ári? Við þekkjum svarið. Íslenska ríkisstjórnin studdi
ákvörðun um árás án samþykkis Öryggisráðsins og voru Íslendingar
þess vegna skilgreindir í Washington sem "staðfastir
stuðningsmenn".
Hvernig hefðum við síðan greitt atkvæði 22. maí þegar hernámið var
staðfest af Öryggisráðinu? Án efa hefðum við verið fylgjandi.
Sérfræðingar í alþjóðastjórnmálum hafa velt því fyrir sér hvers
vegna samþykki hafi fengist fyrir þessari tillögu eftir allt sem á
undan var gengið. Ekki síst í ljósi þess að Bandaríkjamenn fóru
jafnframt fram á að liðsmenn þeirra í Írak yrðu undanþegnir hvers
kyns kvöðum og málsókn af hálfu Alþjóðaglæpadómstólsins í Haag
(International Crime Court). Fréttaskýrendur hafa haldið því fram,
að Frakkar og Rússar hafi samþykkt tillöguna eftir að þeir fengu
vilyrði fyrir því að tryggt yrði að ný ríkisstjórn Íraks yrði gerð
ábyrg fyrir útistandandi skuldum við Frakkland og Rússland. Það
þarf greinilega sterk bein til að láta eigin hagsmuni ekki stýra
gjörðum sínum! Fyrir atkvæðagreiðsluna fóru bandarískir erindrekar
hefðbundnar sendiferðir til fátæku ríkjanna í Öryggisráðinu til að
sjá til þess að allt yrði með felldu. Hefði þurft að líta við í
Reykjavík eða hefðu menn getað gefið sér að hér væru staðfastir
stuðningsmenn?
Er ríkisstjórnin líkleg til að hugsa stórt?
En eru þetta ekki nokkuð grófar ásakanir sem hér eru settar
fram? Vissulega, en þannig er veruleikinn og Bandaríkjamenn gera
ekkert til að fela hann. Dæmi um þetta er þegar Samtök ríkja utan
hernaðarbandalaga ákváðu að flytja tillögu 25. mars sl. um að komið
yrði á friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna í Palestínu. Það varð
hlutskipti Kólumbíu að flytja tillöguna í Öryggisráðinu.
Bandaríkjastjórn beitti neitunarvaldi. Opinberlega var því lýst
yfir að Kólumbía myndi hljóta verra af. Hvernig hefðu Íslendingar
greitt atkvæði?
Því miður er fulltrúum núverandi ríkisstjórnar ekki treystandi til
að standa í fæturna. Ef við hins vegar værum reiðubúin að gerbreyta
stefnu okkar í utanríkismálum, sýna frumkvæði og hugsa stórt í þágu
réttláts málstaðar þá efast ég ekki um að við gætum látið mikið
gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi. En með þessa menn við
stýrið hef ég efasemdir um að kröftum okkar og fjármunum sé vel
varið.