Eru allir jafn sekir?

Birtist í Morgunblaðinu 13.10.2003
Þegar við látum hugann reika aftur í tímann veltum við því held ég flest oft fyrir okkur hvers vegna ekki urðu fleiri til að rísa upp og andæfa mestu og alvarlegustu glæpaverkum mannkynsins. Þá verða efst í huga útrýmingarbúðir nasista þar sem murkað var lífið úr milljónum gyðinga af vísindalegri yfirvegun og nákvæmni. Illvirkinn var þýska ríkið og morðin voru viðbjóðslegri fyrir þá sök að þau voru unnin af verkfræðingum og vísindamönnum á hvítum sloppum; mönnum sem fóru heim tíl sín á kvöldin, kysstu börnin sín og hlustuðu á skemmtiþátt í útvarpinu. Þarna liggur munurinn á milli tilfinningaverunnar, sem hefur misst barnið sitt eða bróður í sprengjuárás, múruð inni í gettói og  leitar hefnda, jafnvel reiðubúin að láta nota sig til illvirkja eins og stúlkan sem tók líf sitt og annarra í sjáfsmorðsárásinni í Haifa fyrir fáeinum dögum; þarna liggur munurinn á milli manneskjunnar sem buguð af sorg og vitstola af örvæntingu sér aðeins svartnættið framundan og hins vegar ríkisins sem hefur verið fengið það hlutverk að veita tilfinningum okkar og bræði inn í yfirvegaðan farveg. Í mörg þúsund ár hefur mannkynið verið að basla við að hafa hemil á hefnigirninni með boðun trúar- og heimspekikenninga og á síðari öldum hefur okkur tekist að ná það langt að smíða réttarríki og hinar Sameinuðu þjóðir, sem eiga að halda uppi merki réttarríkisins á heimsvísu.
 

Hvorki gyðingar né Palestínumenn heldur manneskjur  

Vitur maður sagði í mín eyru fyrir fáeinum dögum, að þegar allt kæmi til alls hefðu nasistar ekki verið að ofsækja gyðinga. Þeir hefðu verið að ofsækja manneskjur og því mættum við aldrei missa sjónar á. Nú, þegar það hefur orðið hlutskipti gyðinga að vera í hlutverki þess sem ofsækir og beitir valdi á miskunnarlausan hátt, þá megum við ekki missa sjónar á því að nú sem fyrr eru það manneskjur sem eru að ofsækja manneskjur. Hörðustu gagnrýnendur ofsókna Ísraela á hendur Palestínumönnum eru einmitt gyðingar, afburðamenn í andanum, sem neita að sjá trúflokka og kynþætti heldur aðeins manneskjur. Hið sama gildir í hópi Palestínumanna. Þar er að finna menn sem tala fyrir vináttu og friði. Þetta er það fólk sem raunverulega heldur uppi merki vegvísisins til friðar.
Á vinnustað mínum við Austurvöllinn í Reykjavík heyrði ég til manns sem lagði að jöfnu gjörðir stúlkunnar sem áður er vitnað til og svipti sig lífi og tók líf annarra í Haifa - hann lagði hennar gjörðir að jöfnu við árásir ísraelska hersins, íraelska ríkisins á búðir flóttamanna í Sýrlandi. Þetta var ekki bara einhver maður. Þetta var utanríkisráðherra Íslands. Halldór Ásgrímsson sagði að stúlkan hefði ekki verið ein á báti heldur á bandi hryðjuverkamanna og með nokkrum þjósti spurði hann undirritaðan hvort verið gæti að ég væri að réttlæta þetta hryðjuverk  Í reynd var ráðherrann með málflutningi sínum að taka undir með þeim Sharon og Bush: Enginn friður getur orðið fyrr en stjórn Palestínumanna hefur haft hemil á öllum hópum sem berjast gegn hernámi Ísraelsmanna.
Nú er það svo að Ísraelsríki hefur þverbrotið ályktanir Sameinuðu þjóðanna, alþjóðalög og mannréttindasáttmála í málefnum Palestínumanna, ekki síst flóttamanna í meira en hálfa öld.  Hernámið stríðir gegn samþykktum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hefur gert 36 ár. Þessi brot virðast skipta þessa aðila minna máli en brot Saddams Husseins gegn samþykktum sama ráðs. Sharon, forsætisráðherra Ísraels og Bush Bandaríkjaforseti segja að öryggissveitir Arafats verði að ráða niðurlögum Hamas-samtakanna og annarra andspyrnuhreyfinga gegn hernáminu. Undir þetta tekur talsmaður ríkisstjórnar Íslands í utanríkismálum.
En trúa þessir menn því að réttkjörin stjórnvöld Palestínu hafi burði til þess arna? Ísraelsmenn og vitorðsmenn þeirra vita sem er að samstundis myndi blossa upp borgarastyrjöld þar sem þau fengju ekkert við ráðið. Hafa menn skoðað myndir af nánast hverri einustu lögreglustöð öryggissveita heimastjórnarinnar á Vesturbakkanum? Þær eru allar sundurskotnar, rústir einar. Hafa menn skoðað nýbyggð íbúðahverfi Palestínumanna á hernumdu svæðunum sem byggð hafa verið fyrir gjafafé frá Vesturlöndum? Ágætar myndir er að finna á vefsíðu Félagsins Ísland Palestína: www.palestina.is. Þar má sjá að öll nýju íbúðarhverfin eru meira og minna sundurskotin eftir árásir ísraelska hersins.

 

Múrinn

Og hafa menn skoðað myndir af Aðskilnaðar-múrnum, dæmigerðan fyrir apartheid-stefnu Ísraela? Berlínarmúrinn bliknar. Múr Sharons er tvöfalt hærri eða allt að átta metra hár. Á stöðum sem taldir eru  "viðkvæmir" er múrinn sérstaklega styrktur. Sitt hvoru megin eru fimm metra djúpir skurðir og síðan gaddavír. Í gaddavírinn er leitt rafmagn. Rafeindanjósnabúnaður er á múrnum á þessum stöðum og örfínt sandlag til hliðar svo nema megi fótspor.
Ekki er múrinn alls staðar styrktur á þennan hátt en nánast alls staðar skerðir hann land Palestínumanna. Hann sníður af gróðursælustu lönd þeirra  og bestu vatnsbólin. Þeir sem eru innan múrs eru fangar - í eigin heimkynnum. Og þó, því ekki fá þeir notið eigin heimkynna . Viðar Þorsteinsson var með áhrifaríka lýsingu   í morgunútvarpi RÚV fyrir fáeinum dögum. Hann var við hlið á múrnum. Hann var þar ásamt öðrum Íslendingi, Sigrid Valtingojer, í hópi sjálfboðaliða sem komnir voru til að veita bændum vernd með nærveru sinni og aðstoða við ólífutínsluna. Bændurnir höfðu brotið upp hliðið til að komast inn á landið sitt, þar sem ólífutrén og aldingarðar þeirra eru, lífsbjörgin. Ísraelsmenn segja að þetta sé ekki þeirra land. Og ef dæma skal af málflutningi ríkisstjórnar Íslands virðast áhöld um að þetta sé þeirra land. Alla vega er enginn merkjanlegur áhugi að ræða málið af alvöru fyrr en Palestínumenn taki "betur á öryggismálum heima fyrir og taki betur á öfgamönnum" í eigin röðum. Vissulega fylgir það líka með í málflutningi utanríkisráðherrans, Halldórs Ásgrímssonar, að nauðsyn beri til að Ísraelsmenn "vinni betur í samræmi við þær áætlanir sem hafa verið gerðar." Á þessum forsendum er málið rætt í Stjórnarráði Íslands.
Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin endurskoði afstöðu sína og áherslur í þessu máli, skoði það í sögulegu samhengi og freisti þess að vera ögn betur sjálfri sér samkvæm þegar samþykktir Sameinuðu þjóðanna eru annars vegar?

Fréttabréf