Fyrirspurn til Félagsins Ísland – Palestína
Hryllilegar fréttir berast nú dag hvern
frá Palestínu. Ofbeldisárásir ísraelska hersins á fólk og mannvirki
vekja óhug um allan heim. Á fréttamyndum sjáum við fullorðið fólk
hlaupa með særð eða látin börn, sem dauðasveitir Ísraela hafa myrt
með köldu blóði. Yfir þessum voðaverkum heldur öflugasta herveldi
heimsins, Bandaríkin, verndarhendi. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins
var haft eftir Colin Powel, utanríkisráðherra Bandaríkjanna að
"aðgerðir Ísraela sköpuðu vandamál"!!
Ríkisstjórnir víða um heim mótmæla en oftar en ekki á svo lágum
nótum að nær væri að tala um að þær maldi í móinn. Félagið Ísland
Palestína hefur staðið vaktina í mannréttindabaráttu Palestínumanna
um langt árabil. Það hefur félagið gert af yfirvegun og viti. Fyrir
vikið bera allir virðingu fyrir félaginu. Nú beini ég spurningu til
félagsins og þætti vænt um að fá svar. Hvað er nú til ráða
annað en mótmæla hástöfum? Hvað geta Íslendingar gert? Sjálfur er
ég farinn að hallast að því að rétt sé að slíta stjórnmálasambandi
við Ísrael. Ekki finnst mér þetta þó liggja í augum uppi. Á meðal
gyðinga í Ísrael eru fjölmennir baráttuhópar fyrir mannréttindum.
Hvernig kæmi slík aðgerð þeim fyrir sjónir? Myndi þetta styrkja þá
eða veikja? Hvert er mat þeirra sem til þekkja?
Viðmiðunarreglan hefur jafnan verið sú að spyrja hvað andófsöflin í ofbeldisríkjum vilji að umheimurinn geri. Þegar svart fólk háði frelsisbaráttu sína í Suður-Afríku, hvatti frelsisherinn, ANC, til þess að slitið yrði stjórnmálasambandi við Suður-Afríku og viðskiptabann sett á. Annars staðar hafa önnur sjónarmið stundum verið uppi, jafnvel að heppilegast sé að efla samskiptin við viðkomandi ríki og beita áhrifum í gegnum náin samskipti. Hvað vilja Palestínumenn - eða er yfir höfuð hægt að alhæfa um afstöðu þeirra í þessi efni? Ræðum málið. Svör óskast.