U-BEYGJA UM UTANRÍKISMÁL

Málgagn Ungra Vinstri Grænna U-Beygjan sýnir mér þann heiður að taka við mig viðtal um utanríkismál þar sem sérstaklega er fjallað um Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrssjóðinn. Viðtalið ber yfirskriftina, Þjóðnýting komin úr tísku og birtist það hér að neðan. U-Beygjan býður upp á fjölbreytt efni að venju endurspeglar blaðið kraftinn sem er að finna í starfi unga fólksins í Vinstrihreyfingunni grænu framboði. 

Þjóðnýting komin úr tísku
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hefur sérstaklega beitt sér fyrir málefnum sem varða alþjóðaskuldbindingar Íslands. Hann vill breyta þeirri þróun að ákveðnar alþjóðastofnanir geti ráðskast með innanríkismál fátækra ríkja. Ögmundur leggur áherslu á að sum þjónusta sé betur sett í eigu hins opinbera, eins og heilsugæsla og félagsþjónusta, en að ekkert sé algilt í þessum efnum. Besta leiðin sé einfaldlega að skoða hvert mál fyrir sig, horfa til reynslunnar og láta skynsemina ráða ferðinni.

Alþjóðaviðskipti eru ekki hluti af daglegum umhugsunarefnum flestra, en skipta feikilega miklu máli í sambandi við efnahag og félagsþjónustu allra ríkja. Fyrirkomulagið í kringum þessi viðskipti mótast af þeim gríðarlegu hagsmunum sem stórfyrirtæki um allan heim hafa að gæta á þessu sviði. Stofnanirnar sem eiga að tryggja réttlátar reglur og eðlilega, skynsamlega framvindu mála eru  fleiri en ein og flestir hafa einhvern tímann heyrt talað um Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðaviðskiptastofnunina. Færri vita kannski hvað GATT- og GATS-saminingar eru og hvaða afleiðingar þeir hafa fyrir daglegt líf okkar. Við báðum Ögmund um að segja okkur aðeins frá þessum fyrirbærum og áhrifum þeirra.

Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum beitt í pólitískum tilgangi

"Alþjóðabankinn ( IBRD) og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) voru settir á laggirnar á grundvelli samkomulags í Bretton Woods í New Hampshire í Bandaríkjunum og eru oft kenndir við þann stað. Þessar stofnanir áttu að hafa það hlutverk að færa út kvíar kapítalismans með því að stuðla að markaðsvæðingu, alþjóðaviðskiptum og langtímafjárfestingum. Þær veittu í senn lán og fylgdust með því að samkomulagið frá Bretton Woods um markaðsvæðingu væri virt. Á þessum tíma lutu mörg fátæk ríki enn nýlendustjórn og komu lítið að stefnumótun þessara stofnana og enn er það svo að snauðar þjóðir hafa þar lítil áhrif. Innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ræður umfang efnhagsstarfsemi aðildarríkjanna atkvæðamagni þeirra. Bandaríkin hafa svo dæmi sé tekið 18 prósent atkvæðavægi en Mósambik 0,06 prósent.  Lengi vel voru þessar stofnanir varfærnar þótt markmiðin um markaðsvæðingu væru aldrei dulin. Framan af var höfuðáherslan á gengismál en þau ríki sem áttu aðild að Bretton Woods-stofnununum höfðu fallist á að binda gjaldeyri sinn Bandaríkjadollar sem síðan var tengdur gullfæti.

Á þessu verður breyting í byrjun áttunda áratugarins. Frá þeim tíma tóku gjaldmiðlar að fljóta sem kallað er og var samþykktum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins breytt árið 1976 til samræmis við þessa þróun. Á næstu árum fór Thatcherismi og Reaganismi - harðlínukapitalismi - að ryðja sér til rúms vestan hafs og austan og var þess skammt að bíða að áhrifanna færi að gæta innan Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það var þó ekki fyrr en leið á níunda áratuginn, og þó sérstaklega hinn tíunda, að menn tóku almennt að gera sér grein fyrir því hve markvisst þessum stofnunum var beitt sem pólitískum tækjum í þágu alþjóðaauðmagnsins. Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vinna eftir ákveðinni formúlu. Hún er þannig að þegar hin fátæku ríki leita til alþjóðastofnana um aðstoð og lánveitingu, þá setja þessar stofnanir skilyrði, sem eru þau að ríkin markaðsvæði alla efnahagsstarfsemi sína, þar með talið opinbera þjónustu, eins og rafmagns- og vatnsveitur, heilsugæslu og þess háttar. Þegar allar fjárhirslur eru orðnar tómar og gott betur, allt lánsfjármagnið uppurið, er ekki annarra kosta völ en selja þessar eignir. Þær eru eftirsóknarverðar enda líklegar til að skapa eigendum sínum arð um ókominn tíma, því alltaf og alls staðar þarf fólk vatn að drekka, rafmagn og heilbrigðisþjónustu. Ástæðan fyrir markaðsvæðingunni er fyrst og síðast að setja þessa samfélagsþjónustu í söluumbúðir.  Þegar fátæku ríkin hafa síðan selt grunnþjónustuna eru þau ofurseld fyrrum lánveitendum sínum sem nú eru komnir í aðstöðu til að græða á þeim; græða á sömu löndum og þeir voru að lána til. Þannig bera menn sig að við að koma heilum þjóðfélögum undir hælinn á auðvaldinu."

Blaðamaður U-beygjunnar á í erfiðleikum með að forðast þá hugsun að hagsmunir fátækra ríkja séu e.t.v. ekki efst á forgangslistanum hjá þessum tveimur stofnunum. Svo virðist sem þær þjóni mestmegnis hagsmunum stórfyrirtækja og ríkustu landa heims með því að koma lífsnauðsynlegri opinberri þjónustu í hendur þeirra.

Hvað er Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO)?

"Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) var sett á fót í byrjun árs 1995 og hefur opinskárri og enn beinskeyttari stefnu en Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvað varðar markaðsvæðingu. GATS er skammstöfun fyrir heiti samninganna á ensku: General Agreement on Trade in Services, sem á íslensku myndi útleggjast: Almennt samkomulag um verslun með þjónustu. Stofnunin sem heldur utan um þessa samninga, Ajþjóðaviðskiptastofnunin, World Trade Organization (WTO) var sett á laggirnar að loknu svokölluðu Urugay-samningsferli sem staðið hafði frá 1986 til 1994 um tolla, undir vinnuheitinu General Agreement on Trade and Tariffs, skammstafað GATT.

Aðild að þessari stofnun eiga 148 ríki. Samningsferlið gengur þannig fyrir sig að á grundvelli eins konar stofnsamnings, er kveðið á um samningsferlið - hvernig það skuli ganga fyrir sig, hvernig leyst skuli úr ágreiningsmálum og síðast en ekki síst hver séu meginmarkmið samninganna. Þau eru bæði skýr og afdráttarlaus: Að greiða fyrir viðskiptum með markaðsvæðingu og afnámi hvers kyns viðskiptahindrana.

Aðildarríki samningsins eru sjálfráð um hvaða þætti þau vilja setja inn á markaðstorgið en þegar skuldbinding hefur á annað borð verið gefin um að tiltekið þjónustusvið skuli markaðsvætt á grundvelli GATS þá þýðir það að viðkomandi ríkisstjórn má ekki mismuna á grundvelli þjóðernis eða á nokkurn annan hátt, fyrirtækjum sem sinna því þjónustusviði. Ef Íslendingar, svo dæmi sé tekið, tækju ákvörðun um að markaðsvæða heilbrigðisþjónustuna og settu hana undir GATS-samninginn þá væri íslenskum stjórnvöldum óheimilt að styðja íslensk sjúkrahús umfram erlend sem kynnu að verða sett á laggirnar hér á landi. Niðurgreiðsla til eins aðila yrði að ganga til allra á "samkeppnismarkaði".  Sama myndi gilda um alla þá þjónustu sem við kynnum að bjóða GATS upp í dans með. Slík skuldbinding myndi gilda gagnvart fyrirtækjum í öllum 148 aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Eftir að Alþjóðaviðskiptastofnunin var sett á fót um miðjan tíunda áratug síðustu aldar til að knýja á um einkavæðingu og markaðsvæðingu, jafnt í þriðja heiminum sem í þróuðum iðnríkjum, rann það upp fyrir öllum hugsandi mönnum að til harðvítugra átaka hlyti að koma um hlutverk þessara stofnana. Þau átök hafa ekki látið á sér standa. Um það bera vitni fjöldamótmæli í Seattle, Washington, Prag og víðar. Harðvítug og tilfinningaþrungin mótmæli í þessum borgum á undanförnum árum hafa öll verið tengd fundum þessara stofnana. Þegar mótmælin risu hvað hæst þingaði Alþjóðaviðskiptastofnunin á eyðimörk Arabíuskagans, í Doha í Quatar. Ekki er nóg með að þangað sé erfitt að komast heldur var verkalýðssamtökum og öðrum fjöldasamtökum sem láta sig alþjóðavæðinguna varða beinlínis meinað að senda fleiri en einn fulltrúa á fund stofnunarinnar. Þetta átti einnig við um samtök sem hafa tugi milljóna félagsmanna innan sinna vébanda. Sá fundur þótti forsvarsmönnum Alþjóðaviðskiptastonunarinnar einstaklega notalegur og vel heppnaður.

Munurinn á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum annars vegar og Alþjóðaviðskiptastofnunni hins vegar er sá að fyrrnefndu stofnanirnar tvær hafa ekki eins skýr markmið í stofnskrám sínum um að einkavæða grunnstoðir samfélagsins, þótt þau setji það sem skilyrði fyrir lántöku og vinni vissulega með þetta meginmarkmið í huga. Bretton Woods-stofnarnirnar hafa þannig tekið breytingum í tímans rás. Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur hins vegar það skýra markmið múrað inn í allar sínar samþykktir að einkavæða allt sem mögulegt er, og með GATS-samingunum á að ná fram þessu markmiði. Með GATS-saminingunum eru ríki að skuldbinda sig til að fylgja ákveðinni stefnu, nefnilega að greiða götu markaðsviðskipta, þar með opna fyrir markaðsvæðingu opinberrar þjónustu. Það sem alvarlegast er að ekki er hægt að snúa þróuninni við ef hún reynist ekki vera þjóðinni í hag, því þá myndu viðkomandi ríki eiga yfir höfði sér málsókn frá stofnuninni.

Síðan er hitt mjög ámælisvert hversu leynt þessir samningar fara. Íslenska ríkisstjórnin pukrast með þessa samninga eins og aðrar ríkisstjórnir þótt ekki gangi hún eins langt og Evrópusambandið. Innan sambandsins er ríkjunum gert að afsala sér samningsumboði til stjórnarnefndar ESB. Af almennri umræðu á opinberum vettvangi hefur ekki orðið nema upplýsingar hafi lekið í fjölmiðla. Ætli sé nú mjög eftirsóknarvert að komast í þennan klúbb til að hafa áhrif á gang mála eins og það heitir? Ætli sé ekki nær að reyna að hafa áhrif beint og milliliðalaust á eigin forsendum og ákveða sjálf hvað það er sem við viljum skuldbinda okkur til að undirgangast í þjóðlegum samningum?"

Fyrirmyndarnemendur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar falla á prófinu

"Argentína var mynsturnemandi stofnananna þriggja og einkavæddi allt frá rafmagni til vatnsins í krönunum. En ekkert ríki hefur fallið jafn hrikalega á prófinu og einmitt Argentína. Efnahagslíf landsins hreinlega hrundi - frjálshyggjumódelið gekk bara ekki upp. Til eru fjölmörg önnur dæmi, meðal annars í Suður-Ameríku. En þar hafa þjóðir snúið þróuninni við. Þar hafði vatnið verið einkavætt en var leyst aftur til hins opinbera. Á Long Island í Bandaríkjunum var rafmagnið tekið aftur í almannaeign ekki bara að kröfu almennings, heldur líka að kröfu fyrirtækjanna á svæðinu sem töldu sig fá slaka þjónustu á uppsprengdu verði. Mörg fleiri dæmi mætti nefna um einkavæðingu sem haft hefur svo hrikalegar afleiðingar að ekki þótti annarra kosta völ en snúa til baka. Vandinn er sá að slíkt getur verið miklum erfiðleikum háð því það getur kostað málferli og skaðabótakröfur. Þjóðnýting að gömlum sið er komin úr tísku!"

Gölluð hugmyndafræði

"Það er alveg sama hvernig sýnt er fram á það með rökum eða með tilvísun í reynslu að þessi hugmynd um að einkavæða grunnstoðir samfélagsins er samfélaginu ekki til hagsbóta. Þeir halda einfaldlega áfram að lemja höfðinu við steininn. Reynslan af kerfisbreytingum er blásin út af borðinu og einfaldlega sagt að það sé eitthvað að raunveruleikanum fyrst teorían gengur ekki upp. Þetta væri allt í lagi á málfundaæfingu í skóla. En þegar þessi mannskapur er kominn með stjórnartauma í heilu samfélagi í hendur þá er málið orðið öllu alvarlegra. Að sjálfsögðu eigum við að leita fyrirmynda hjá þeim sem gera vel, ekki hinum sem sérhæfa sig í mistökum. Þegar rafmagnið fór af í stórum hluta Bandaríkjanna ekki alls fyrir löngu þannig að borgir og byggðarlög myrkvuðust, kom á daginn að það var samkeppnismarkaðurinn sem brást, ekki almannaveiturnar. Og hvernig skyldi standa á því að Los Angeles slapp við Enron-skandalinn í Kaliforníu fyrir fáeinum misserum? Það var vegna þess að rafmagnveiturnar þar eru í eigu borgarinnar. Og nú spyr ég, eigum við að gera þá að okkar fyrirmynd sem halda ljósunum logandi eða hina sem slökkva á okkur og eru auk þess á kafi í spillingu?

Ég er mjög bjartsýnn á að málstaður vinstrimanna sé í sókn enda bæði byggt á traustum málefnalegum grunni og reynslan okkur í hag. Við eigum ekki að sleppa hægri mönnum við að skoða sín eigin spor, afleiðingar gerða sinna. Franska, reyndar fjölþjóðlega, vatnsfyrirtækið Vivendi Universal var um skeið í uppáhaldi á hlutabréfamarkaðnum. Síðan hrundu bréfin eftir að fyrirtækið hafði ætlað jafnhliða vatnsbúskapnum að gerast risi í fjölmiðlum. Það ævintýri gekk ekki upp. Hluthafarnir flúðu, bréfin féllu í verði. Grípa þurfti í taumana af opinberum aðilum. Svipað gerðist hjá British Energy sem er með fjórðunginn af breska raforkumarkaðnum. Breskir skattborgarar eru búnir að pumpa milljörðum í það fyrirtæki. Staðreyndin er sú að að hlutafélagsformið hentar ekki í rekstri almannaþjónustu, þjónustu sem alltaf þarf að vera til staðar. Hluthafarnir flýja einfaldlega þegar illa gengur eða þegar meiri gróða er að fá í öðrum fyrirtækjum. Ákveðnar stofnanir, svo sem sjúkrahús og menntastofnanir, geta ekki búið við slíkt fjárhagslegt óöryggi. Þær verða að geta reitt sig á eitthvað annað en eintóm gróðasjónarmið eigenda. Margar þjóðir eru farnar að átta sig á þessu. Til dæmi festu Hollendingar inn í grundvallarlöggjöf ákvæði nú nýlega að ekki mætti einkavæða drykkjarvatnið. Vegna GATS-samninganna gætu þjóðir sem einkavæddu slíka þjónustu ekki snúið til baka án þess að eiga yfir höfði sér málsókn frá Alþjóðaviðskiptastofnuninni."

Erum mjög alþjóðlega þenkjandi

"Við í VG eru þó mjög alþjóðlega þenkjandi. Það er dálítið spaugilegt þegar þeir sem vilja inngöngu í Evrópusambandið líta á sig sem mikla alþjóðasinna, en eru í reynd að leggja til að við einangrum okkur innan múra ESB. Við viljum á hinn bóginn hafa allan heiminn undir. Enda leysum við ekki þau vandamál sem helst brenna á mannkyninu nema með alþjóðlegu átaki, mengun, loftslagsbreytingar, misskiptinguna, nýtingu sameiginlegra auðæfa o.s.frv. Og ofbeldi og mannréttindabrotum útrýmum við ekki nema með sameiginlegu átaki mannkyns.

Við viljum styrkja alþjóðlegar stofnanir og leysa þær úr viðjum fortíðarinnar. Sameinuðu þjóðirnar hefðu til dæmis aldrei staðið fyrir viðskiptabanni á Írak, hvað þá innrás í landið, ef farið hefði verið eftir höfðatölureglu við atkvæðagreiðsluna, eða einfaldlega á grundvelli aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Ef okkur tækist að gera heiminn réttlátari og lýðræðilegri þá yrði hann einnig friðvænlegri en hann er núna."

Engar alhæfingar

Að lokum veltu blaðamenn U-beygjunnar því fyrir sér hversu víðtækur rekstur hins opinbera ætti að vera almennt. Hversu mikið er æskilegt að sé í eigu ríkisins og sveitarfélaga?

"Ég er ekki tilbúinn að alhæfa neitt um það. Sá maður væri álitinn galinn nú á dögum sem vildi þjóðnýta matvöruverslanir og ekki myndi ég mæla með því. En við tilteknar sögulegar aðstæður, þá var samvinnuverslun lausnin og samvinnuhugsjónin skapaði góðan grunn til að byggja framfarir á. Bæjarútgerðir gáfu líka góða raun hér fyrr á tíð. Síðan breyttust aðstæður og einkaframtakið fékk að reyna sig. Í sjávarplássum þar sem kvótinn hefur verið seldur burt og enga atvinnu að hafa, gera menn ekki gys að hugmyndum um bæjarútgerð. Bankarnir voru einkavæddir, nú er talað um að þörf sé á milljarði í Byggðastofnun því bankarnir séu hættir að lána til atvinnuuppbyggingar á svæðum þar sem veð eru ekki trygg. Og eftir að strandsiglingar voru lagðar af við Íslandsstrendur í haust er farið að spyrja hvort ekki væri ráð að við skipulegðum strandsiglingar í sameiningu. Þess vegna segi ég: Gefum okkur ekkert fyrirfram. Metum aðstæður og gerum það sem skynsemin býður. Burt með kredduhugsun. Þegar einkaframtakið bregst þá leysum við málin á okkar hátt - með samtakamættinum."

 

Fréttabréf