LEIÐTOGAR GEGN LÝÐRÆÐI?

Ef fólk er ósátt  við ríkisstjórnir gagnrýnir það þær. Að jafnaði beinist gagnrýnin ekki að fólkinu sem kaus þær. Þetta gerum við ekki vegna þess að við séum alltaf elsku sátt við kjósendur. Við gerum þetta af virðingu fyrir lýðræðinu. Eins hefði mátt halda að ríkisstjórnir og svokallaðir leiðtogar, sem komist hafa til áhrifa í samfélaginu, sýndu þeim sem þeir eiga völd sín að þakka - kjósendum - samsvarandi virðingu. Viðbrögð ýmissa forystumanna innan Evrópusambandsins við niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi og Hollandi um nýjan Stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins, hljóta að vekja okkur til umhugsunar. Bæði Jacques Chirac, Frakklandsforseti, og Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, brugðust ókvæða við niðurstöðum kosninganna. Látum það vera. Það sem verra var, á þeim var að skilja að rétt væri að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist!

Hugað skuli að vanda þeirra sem eiga í erfiðleikum með fólkið!

Aðrar þjóðir  skyldu, samkvæmt harðlínumönnum,  greiða atkvæði um hinn nýja stjórnarskrársáttmála, því ekki mætti láta tvær þjóðir, Frakka og Hollendinga, eyðileggja samrunaferlið. Til þess að stjórnarskrársáttmálinn verði að veruleika þurfa hins vegar öll aðildarríki Evrópusambandsins að samþykkja hann. Þeir félagar, Chirac og Schröder, og samherjar þeirra innan Evrópusambandsins, réttlæta afstöðu sína hins vegar (að því marki sem þeir yfirleitt telja sig þurfa að réttlæta afstöðu sína) á þeirri ákvörðun sem leiðtogafundur Evrópusambandsins tók ekki alls fyrir löngu, þess efnis að hafi 80% aðildarríkjanna samþykkt sáttmálann innan tveggja ára frá undirritun hans, skyldi hann skoðast samþykktur en jafnframt skyldi þá hugað að þeim "vanda" sem þau ríki ættu við að stríða sem ekki hefðu komist að niðurstöðu. Þessa ákvörðun hafa menn túlkað með mjög mismunandi hætti. Flestir litu svo á að þetta ætti við um það ástand sem hugsanlega kæmi upp ef einhverjar af 25 aðildarþjóðum Evrópusambandsins létu undir höfuð leggjast að komast að niðurstöðu innan þessara tímamarka. Fæstir bjuggust við því að þessi ákvöðrun yrði notuð gegn fjölmennum þjóðum sem komist hafa að afgerandi niðurstöðu, allra síst af hálfu ráðamanna í viðkomandi ríkjum, sbr. í tilfelli Jacques Chiracs forseta Frakklands.

Valdboði hafnað

Allur gangur er á því hvernig einstök ríki komast að niðurstöðu um Stjórnarskrársáttmálann. Í Þýsklandi var það þingið. Í Frakklandi þjóðin. Þegar ljóst var hvert stefndi í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Frakklandi ræddu ráðamenn það opinskátt hvort ekki væri ráð að láta afgreiða málið í þinginu og komast þannig framhjá þjóðarviljanum!
Hvert eru þeir menn komnir, sem tala svona og hugsa svona? Gæti verið að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Frakklandi og Hollandi séu einmitt mótmæli gegn ólýðræðislegri hugsun af þessu tagi; að fólk vilji ekki byggja stórríki á grundvelli valdboðs að ofan?

Samtök launafólks almennt fylgjandi Stjórnarskrársáttmálanum

Þetta breytir því ekki að erfitt er að alhæfa um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Mér þótti merkilegt að í óformlegum samræðum sem ég átti í vikunni við bæði fylgismenn og gagnrýnendur Evrópusamrunans á fundi stjórnar EPSU, Samtaka launafólks í almannaþjónustu innan hins Evrópska efnahagssvæðis, kom fram að þeir höfðu allir greitt stjórnarskrársáttmálanum atkvæði sitt. Afstaða fylgismanna samrunans er skiljanleg. Afstaða hinna mótaðist af því að þeir töldu að ef hin pólitíska umgjörð Evrópusambandsins yrði ekki styrkt væri hætt við því að túlkunarvald um þau álitamál sem upp kæmu, færðist í auknum mæli frá pólitísku valdi og yfir til dómstólanna. Þessarar tilhneigingar gæti þegar og það hafi sýnt sig að dómstólarnir túlki yfirleitt í þágu markaðsaflanna. Þetta sé vægast sagt óæsklirg þróun og gangi þvert á allar lýðræðishugsjónir.

Óverðskulduð áhrif Blairs

Annað atriði sem snertir túlkun kosninganna og einkum hins lýðræðislega þáttar: Til eru þeir - ekki aðeins í hópi þerra sem fylla valdakjarnann í Evrópusambandinu - sem segja að þrátt fyrir að tvö fjölmenn ríki hafi hafnað Stjórnarskrársamþykktinni og þess vegna sýnt að hún verði ekki að veruleika, hljóti krafan eftir sem áður að vera sú að öðrum þjóðum beri engu að síður að leita álits þegnanna. Það eigi t.d. við um Breta, en sem kunnugt er, þá er breska ríkisstjórnin búin að lýsa því yfir að hún ætli, í það minnsta, að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvers vegna, spyrja þessir aðilar, ekki leyfa Bretum að segja sitt álit? Gæti skýringin verið sú að skoðanakönnunum ber öllum saman um að Bretar myndu fella Stjórnarskrársáttmálann með yfirgnæfandi meirihluta? Í skjóli þagnarinnar geti breska þjóðin hins vegar haldið áfram baráttu sinni fyrir hinni umdeildu þjónustutilskipun, sem stjórn Verkamannaflokksins undir foystu Tonys Blairs berst fyrir af alefli! Með hliðsjón af þessu hefur því verið haldið fram að Tony Blair hafi, með því að komast hjá því að bíða niðurlag í kosningum um Stjórnarskrársáttmálann, öðlast óverðskuldað (ólýðræðislegt) vald til að fara sínu fram innan Evrópusambandsins.

Stofnanaveldið tapar

Það er í rauninni mjög merkilegt að meirihluti þjóðanna skuli komast að þeirri niðurstöðu sem raun ber vitni þrátt fyrir að nánast allt stofnanaveldi þjóðanna hafi sameinast í áróðri fyrir gagnstæðri niðurstöðu. Því miður virðist stofnanaveldið ekkert hafa lært eins og yfirlýsingar undanfarna daga bera með sér. Hrokafullar yfirlýsingar um að fólkið hafi ekki skilið málið, það hafi ekki verið nægilega útskýrt og svo framvegis, koma ekki á óvart. Það sem kemur á óvart er hve langt menn ganga gagnvart lýðræðislegri niðurstöðu. Það vekur undrun og hlýtur að valda lýðræðissinnum áhyggjum. Hvað segja menn til dæmis um þessa yfirlýsingu frá Wolfgang Munchau í vel auglýstri grein í Financial Times, mánudaginn 6. júní. Um andstæðinga Stjórnarskrársáttmálans segir hann: " They do not desreve to be heard or pandered to. They deserve to be defeated." ( Þeir eiga það ekki skilið að menn leiði hugann að málflutningi þeirra. Þeir eiga það eitt skilið að verða bornir ofurliði.) En hvernig á að sigra þá? Á ekki að gera það með röksemdum, og ef svo er, þarf þá ekki að gefa orðum þeirra gaum?

Er lýðræði orðið tómt?

Ætla menn kannski að vinna sigur á andstæðingum sínum með valdboði? En er það ekki einmit valdboðsstjórn sem þjóðirnar eru að hafna? Getur verið að valdahafar og stofnanaveldið í Evrópu sé að hafna lýðræðinu? Ef svo er tel ég tíma til kominn að lýðræðissinnar í öllum löndum bretti upp ermarnar. Leiðtogar ríku iðnríkjanna nota hugtakið lýðræði gjarnan til að réttlæta hagsmuna-slagsmál í ríkjum sem búa yfir ríkulegum auðlindum, svo sem í Írak. Heima fyrir sýna þeir hins vegar að allt eru þetta orðin tóm. Gæti verið að lýðræði sé ofnotað hugtak í stjórnsetrum heimsins?   

Fréttabréf