MISLUKKUÐ SAMFYLKING

Birtist í Morgunblaðinu 01.09.07.
Ég er að verða meyr með aldrinum. Svo er komið að ég farinn að kenna í brjósti um Samfylkinguna. Henni virðist ekki ætla að lukkast að lenda neinu máli áfallalaust. Síðast var það Árni Páll Árnason Samfylkingarþingmaður sem kallaði fram þessa tilfinningu. Það gerðist við lestur greinar hans í Morgunblaðinu 23. ágúst sl. Þar er vísað til þess að hann sé varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis eins og til að árétta þann skilning að greinin fjalli um utanríkismál. Á þessu var ekki vanþörf því viðfangsefnið var fyrst og fremst Vinstrihreyfingin grænt framboð undir fyrirsögninni: "Að styðja Hamas en fordæma Norðmenn."

Árni Páll gerir því skóna að fulltrúar VG séu harla mótsagnakenndir í afstöðu sinni. Annars vegar mótmæli þeir heræfingum vegna þess að þeir séu andvígir ofbeldi en hampi á sama tíma ofbeldisseggjum og hafi haft uppi "stór orð" í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, fyrir að neita að eiga viðræður við fulltrúa Hamas í ferð hennar til Ísraels og Palestínu í sumar. Hamas-samtökin hefðu nýlega tekið völdin í sínar hendur á Gazasvæðinu með ofbeldi "og fundur utanríkisráðherra með fulltrúum þeirra á þessum tímapunkti hefði falið í sér óbeina viðurkenningu Íslands á beitingu ofbeldis af þeirra hálfu."

Þessi málatilbúnaður er kostulegur. Ísraelsríki hefur með skefjalausu hernaðarofbeldi og kúgunarvaldi hins sterka sölsað undir sig land Palestínumanna þvert á ályktanir Sameinuðu þjóðanna og nýlega hlotið fordæmingu Alþjóðadómstólsins fyrir að reisa kynþáttamúr í Palestínu. Þrátt fyrir þetta gagnrýndi VG utanríkisráðherrann ekki fyrir að hitta ísraelsk stjórnvöld að máli heldur fyrir hitt að sniðganga lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Palestínu. Gagnrýni okkar var á þá lund að aðkoma ráðherrans væri ekki á lýðræðislegum forsendum en hin meintu "stóru orð" hafa væntanlega verið þau að undirritaður leyfði sér að segja á prenti að utanríkisráðherrann sýndi að hans mati ekki raunsæi.

Hvað snertir heræfingar Norðmanna og Dana og annarra ríkja undir NATÓ fánum er það að segja að við teljum aðild að NATÓ ekki þjóna hagsmunum Íslands og tíma til kominn að ráðamenn reyni að losa sig úr viðjum gamallar heimsmyndar. Árni Páll segir að markmið heræfinganna hafi verið "að æfa viðbrögð við hættuástandi. Í þetta sinn voru æfð viðbrögð við hryðjuverkum en áður hafa m.a. verið æfð viðbrögð við stórfelldum náttúruhamförum."

Í Vinstrihreyfingunni grænu framboði hefur ekki komið fram andstaða gegn því að efla löggæsluna á Íslandi og þess vegna stofna til samstarfs með grannþjóðum um löggæslu, hvað þá að við séum því andvíg að efla hvers kyns almannavarnir og björgunarstarf. Við höfum hins vegar sagt að þetta eigi ekki að vera á snærum hernaðarbandalags. Það er fráleitt bruðl á almannafé að borga 45 milljónir kr. af skattfé almennings til þess að herflugvélar komi hingað til lands ársfjórðungslega og að hér fari fram hernaðarleikir. Í ofanálag er um það rætt að kosta milljarði til þess að halda tengingu við hernaðarkerfi NATÓ.

Við teljum að þeim fjármunum sem varið er til hernaðarathafna væri betur varið til að styrkja lögreglu og landhelgisgæslu, svo og hvers kyns almannavarnaviðbúnað. Þá er mikilvægt að efla samstarf við grannþjóðir okkar á Norðurslóðum og fyrir því höfum við talað.

Gagnrýni okkar á stjórnvöld varðandi málaflokkana tvo sem Árni Páll Árnason vísar til hefur verið sett fram af okkar hálfu á rökstuddan hátt. Við hefðum talið eðlilegt að ræða við alla málsaðila að átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs sem fengið hafa lýðræðislegt umboð frá almenningi. Ef það ekki var gerlegt af einhverjum ástæðum hefði að mínu mati átt að fresta för ráðherra eftir að sýnt var að þjóðstjórnin í Palestínu spryngi. Þeir sem fylgjast með málum þar vita að það var að undirlagi ísraelska hernámsliðsins.

Varðandi aðildina að NATÓ höfum við gert grein fyrir því á hvern hátt við teljum að breytt heimsmynd og breyttar áherslur innan NATÓ á síðari hluta tíunda áratug liðinnar aldar og fyrstu árum þessarar, kalli á endurmat á bandalaginu. Þá höfum við gagnrýnt að ráðist skuli í verulegar fjárskuldbindingar án lagaheimilda og án umræðu á Alþingi. Þetta er gert þrátt fyrir ítrekaða beiðni okkar og í ljósi heitstrenginga forsvarsmanna Samfylkingarinnar að um þessi mál skuli fara fram víðtækar umræður áður en ákvarðanir verði teknar.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd þingsins afgreiðir okkur hins vegar með þessum hætti: "Núna gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í stefnumótun um öryggis- og varnarmál. Það er áhyggjuefni ef forysta VG ætlar að dæma sig úr leik í þeirri umræðu og halda sig á gamalkunnum slóðum í heimi mótmælaslagsmála og innantómra orðaleppa. Flokkur sem vill láta taka sig alvarlega verður að vera til viðræðu um öryggis- og varnarmál á vitrænum forsendum." Nú er það lesenda og þeirra sem fylgjast með fréttum að svara því hverjir séu fastir í fortíð og hverjir það eru sem kalla eftir málefnalegri umræðu í ljósi breyttra aðstæðna í heiminum.

Fréttabréf