GUÐFRÍÐUR LILJA, ENGISPRETTAN, ASÍA OG VIÐ

Auðvitað eiga Íslendingar að taka þátt í uppbyggingarstarfi víðs vegar um heim og þá ekki síst í verkefnum sem við erum sérfróð um, svo sem á sviði jarðvarmavirkjana. Slíkt gagnast þurfandi samfélögum og Íslendingar hagnast því vísindamenn okkar fá verkefni, hvatningu og fjármagn og orkuveitur okkar styrkjast  að sama skapi. Við yrkjum þannig akurinn á þann hátt að allir uppskera.

Á uppskeruakri heimsins eigum við að vera hin hjálpandi hönd en ekki vágesturinn sem fer ránshendi um allt, engisprettan sem Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skírskotaði til í frábærum Morgunblaðspistli sínum um helgina. Guðfríður Lilja tók sæti á Alþingi í gær í fjarveru minni. En hér er umræddur pistill hennar sem birtist í Morgunblaðinu sl. laugardag, 3. nóvember:

Lain ladang, lain belalang

Þegar Indónesía frelsaðist á sínum tíma settust tveir fallega klæddir herir niður við stórt fallegt borð í stóru fallegu herbergi í Genf.

Annar herinn var frá glænýjum og ferskum stjórnvöldum Indónesíu kenndum við Suharto. Sá her hét "efnahagsráðgjafar". Hinn herinn var frá flottustu alþjóðafyrirtækjum heims. Sá her hét "fjárfestar". Þriðji herinn í fallegu fötunum við fallega borðið í fallega herberginu var Hjálparherinn. Í Hjálparhernum sátu Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri alþjóðlegar frelsishetjur. Þeir voru komnir til þess eins að hjálpa, létta undir með lítilmagnanum Indónesíu.

Árangurinn lét ekki á sér standa. Suharto var jú búinn að pynta og myrða svo marga að nægur pólitískur stöðugleiki gat kallað fram svokallaðar umbætur. Þá var hægt að halda fund þar sem sáttin réð ríkjum. Fundurinn hét: "To Aid in the Rebuilding of a Nation". Fínt nafn.

Fjárfestaherinn í fallegum fötunum sagði efnahagsráðgjöfunum í fallegu fötunum nákvæmlega hvernig lög, reglur og samfélag þeir þyrftu að fá til að allt gengi upp fyrir alla. Hjálpararnir í fallegu fötunum tóku undir einum rómi enda hafa þeir alltaf kunnað sitt fag.
Fundurinn gekk hratt og vel.

Alcoa fékk til dæmis stærsta hlutann af báxítnámum Indónesíu. Báxítnámur. Það er áhugavert að lesa um þær og hlusta á fólk segja frá þeim. Hvað þær skilja eftir, hverjir vinna þar og á hvaða töxtum, hver áhrifin eru á umhverfið.

Hópur amerískra, japanskra og franskra stórfyrirtækja fékk skóga Súmötru, Papúa og Kalimantan. Amerísk og evrópsk fyrirtæki fengu nikkelauðlindina, the Freeport Company fékk koparfjöll - og áfram má telja. Vinir Suharto fengu svo auðvitað sitt. Ekki að furða að fundurinn hafi gengið glimrandi. Hljómar kunnuglega?

Frelsið. Arðránið. Alltumlykjandi og áreiðanlegt. Klikkar ekki, þótt nafnið breytist og yfirbragðið í takt við tískuna og tímann.

En þetta er náttúrlega bara einföld skáldsaga út í loftið. Óábyrg skrif á léttum sunnudegi eins og gengur og gerist, fleipur. Hvað sem öðru líður er víst óskaplega fallegt í Indónesíu, magnþrungin fjölbreytni í mannlífi, dýra- og plönturíki, og vandfundið land annað sem er jafn óheyrilega auðugt af náttúruauðlindum. Enda allir að flykkjast þangað í leit að skjótum gróða.

Ég er annars að slá um mig með titli þessara hugleiðinga. Þetta er víst indónesískt orðatiltæki. "Annar akur, önnur engispretta". Eitthvað svoleiðis, held ég, kannski. Hverjir ætli græði mest á nýja íslenska verkefninu í Indónesíu? Heimamenn? Umhverfið? Sameignir Indónesa - ef einhverjar eru eftir?

Kannski skiptir það ekkert okkar máli af því við Íslendingar erum víst í óða önn að sigra heiminn. Gerir það ekki bara einhver annar ef við erum ekki fyrri til? Við erum öll í útrás og bráðum koma jól, það þýðir ekkert að vera að velta sér upp úr smáa letrinu, ekki nú frekar en fyrri daginn. Okkur liggur á.

Allt breytist eða hvað? Nýtískunýlenduherrar ríða um héruð sem fyrr, bara á enn stærri leikvelli með enn meiri hraða og enn dýpri klókindum, með risavaxinn gróða sem fer beinustu leið úr landi og heitir eitthvað annað, kallast vistvænn og frjáls og öllum í hag.

Annað land, önnur útrás, önnur viðmið, aðrar forsendur, annað stríð, annað frelsi, önnur kjör, annar akur, önnur engispretta.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir

Fréttabréf