HVAÐ HEFUR BREYST?


Öðru hvoru heyrist um það kvakað að Íslendingar þurfi að aðstoða við uppbyggingu í Írak. Auðvitað ber okkur að aðstoða þurfandi fólk. Spurningin er hins vegar hvar og hvernig.

Hernámsþjóðirnar í Írak, Bandaríkjamenn og Bretar ásamt bandalagsþjóðum sínum, innan sem utan NATÓ, klifa á því sýknt og heilagt að unnið sé mikið hjálpar- og uppbyggingarstarf í Írak á þeirra vegum. Þetta kom upp í hugann við að fylgjast með fréttum í Bandaríkjunum (þar sem ég er nú staddur í nokkra daga) um vandræðagang í sambandi við vopnasölu til Íraka. Þannig er að fyrir ári borguðu Írakar tvo milljarða Bandaríkjadala fyrir vopn sem ekki hafa enn öll verið afhent. Það þykir bandarískum fjölmiðlum ekki góðir viðskiptahættir. Þetta er aðeins einn vopnasölusamningur af mörgum og mikilvægt að kúnninn fái það sem hann borgar fyrir.

Þjóðirnar sem murkuðu lífið úr milljónum Íraka á tíunda áratug síðustu aldar og fyrstu árum þessarar með grimmilegu viðskiptabanni - áður en gengið var hreint til verks og innrás gerð í land þeirra, láta þessa sömu þjóð nú kaupa af sér vopn fyrir gríðarlegar fjárhæðir.

Upp í hugann kemur einnig innganga Póllands í NATÓ fyrir nokkrum árum. Pólverjum var sagt að til að geta risið undir skyldum sínum innan NATÓ yrðu þeir að hafa tæki og tól við hæfi. Einnig þeir voru látnir kaupa af bandarískum vopnasölum fyrir ógrynni fjár.

En út á hvað gekk viðskiptabannið gegn Írak? Því var logið upp á Íraka að þeir væru búnir eða við það að koma sér upp gereyðingarvopnum; í landinu ríkti harðstjóri sem yrði að koma frá völdum með góðu eða illu enda notaði hann peninga til að kaupa vopn í stað lyfja.
Hvað hefur breyst?

Fréttabréf