KVEIKT Á KERTI FYRIR TÍBET

Nú lýkur senn Olympíuleikunum að þessu sinni. Baráttufólk fyrir mannréttindum hefur ötulega unnið að því að vekja athygli á mannréttindabrotum sem framin eru innan landamæra Kína og hefur sjónum ekki síst verið beint að Tíbet. Í fréttatilkynningu frá Vinum Tíbets er vakin athygli á því að annað kvöld, laugardagskvöldið 23. ágúst klukkan 21:00 verður efnt til aðgerða víðs vegar um heiminn "til að sýna fram á að heimsbyggðin hefur ekki gleymt Tíbet, þó kínversk yfirvöld hafi gert sitt besta til að hindra aðgang að upplýsingum um ástand mála þar. Kveikt verður á kertum fyrir utan kínversk sendiráð um allan heim, en 215 staðir hafa verið staðfestir samkomustaðir. Vinir Tíbets ætla að tendra kerti til að minnast þeirra sem þjást í Tíbet en samkvæmt fréttum hefur landinu verið haldið í herkví á meðan á Ólympíuleikunum stendur og eru stór svæði Tíbets eins og fangelsi. Milljónir manna um heim allan tendra kerti á sama tíma, hvort heldur er heima hjá sér, meðal vina eða fyrir utan sendiráð. Hvetjum alla sem láta mannréttindi sig varða að mæta og taka þátt í kertastundinni með okkur.
Nánari upplýsingar og skráning á
candle4tibet.org"

Fréttabréf