ÚKRAÍNA: OF FLÓKIN TIL AÐ SKILJA?

Nýnasistar 1

Athygli vekur röksemdafærslan sem John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, notaði á fundi með fréttamönnum þegar hann fordæmdi íhlutun Rússa á Krímskaga: "Það er ekki við hæfi að ráðast inn í land og þröngva þar fram vilja sínum að baki byssuhlaupi. Þetta er ekki 21. öldin, eða háttalag G-8 stórvelda" ("It is not appropriate to invade a country and at the end of a barrel of gun dictate what you are trying to achieve. That is not Twenty-first Century, G-8, major-nation behaviour."). Þetta sagði utanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir fáeinum dögum.

Forseti Rússlands svaraði á eftirfarandi hátt á fréttamannafundi:  " Það er nauðsynlegt að minnast aðgerða Bandaríkjanna í Afganistan, Írak og í Líbíu, þar sem þau létu til skarar skríða án heimildar frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eða með því að afbaka ákvarðanir þess eins og í Líbíu. Þar hafði einvörðungu verið heimilað að framfylgja flugbanni en niðurstaðan varð hins vegar loftárasir og árásir sérsveita." (Þetta er þýðing á útskrift á ensku: "It's necessary to recall the actions of the United States in Afghanistan, in Iraq, in Libya, where they acted either without any sanction from the U.N. Security Council or distorted the content of these resolutions, as it happened in Libya. There, as you know, only the right to create a no-fly zone for government aircraft was authorized, and it all ended in the bombing and participation of special forces in group operations.")

Pútín hefði getað gengið lengra í sögulegri upprifjun. Hann hefði getað minnst Víetnam stríðsins, Hann hefði getað minnst þess þegar Bandaríkjamenn gerðu innrás í Karíbahafsríkið, Grenada, árið 1983 til að setja af vinstri sinnaða ríkisstjórn, hann hefði getað minnst hins sama á Haití í tvígang, innrásarinnar í Panama 1989, íhlutunar við Persaflóa 1990-91 þar sem Bandaríkjaher drap hundruð íraskra hermanna eftir að Írakar féllust á,  að fumkvæði Gorbatsjovs, að hörfa frá Kuwait. En þetta var náttúrlega 20. öldin.
En jafnvel á hinni 21. öld, sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna er hugleikin, eru dæmin  mörg. Pútín nefndi Írak, Afganistan og Líbíu.

Og síðan eru það nýlegar hótanir í garð Sýrlendinga um árásir úr háloftum með ómönnuðum drápsvélum, svipuðum þeim og Bandaríkjaher hefur notað í morðárásum í Yemen, Sómalíu og Pakistan! Skyldi einhver halda að Bandríkjamenn komi hvergi nærri tilraunum nú til að setja af stjórnina í Venezuela? Dæmin af innanríkisafskiptum Bandaríkjamanna í rómönsku Ameríku eru nánast óþrjótandi.

Það er hreint ótrúlegt að talsmenn Bandaríkjastjórnar skuli vera eins ómeðvitaðir um eigin sögu og eigin gjörðir og ummæli utanríkisráðherrans bera vott. Eða er þetta yfirveguð ósvífni? Svipuð hafa verið ummæli Obamas forseta og Hillary Clintons, fyrrum utanríkisráðherra. Þó er þetta fólk sagt vera hrein hátíð miðað við erki-hægri menn sem sé að finna í bandaríska stjórnkerfinu. Bæði Obama og Clinton hafa sagt að "allt komi til greina" gagnvart Íran og man ég ekki betur en Hillary Clinton hafi nefnt kjarnorkuvopn í því sambandi. Beiting þeirra væri ekki útilokuð.  

Obama Bandaríkjaforseti segir nú fáheyrt að ætlast til þess að vilji íbúa á Krím-skaga eigi að ráða því innan hvaða ríkis þeir búi. Hvers vegna skyldi það vera svona fráleit hugmynd? Auðvitað þyrfti þá að tryggja heiðarlega kosningu og skal ég játa að ég get hugsað mér áreiðanlegri umsjónarmenn slíkra kosninga en útsendara Pútins - en prinsippið getur varla verið út í hött. 

Og er það ekkert undarlegt að helstu "lýðræðisríki" heims í Evrópu og Bandaríkjunum skuli leggjast á sveif með fasískum og ný-nasískum öflum sem sannanlega voru í farabroddi við að setja Yanukovych forseta frá völdum í Úkraínu. Hann var þó lýðræðislega kjörinn!
"Já, en hann var spilltur", segja menn. Svo kann að vera og jafnframt virðist það nær samdóma álit að gráðugir fésýslumenn hafi nýtt sér spillta stjórnmálamenn í Úkraínu til hins ítrasta til að sanka að sér auði á kostnað almennings sem sé orðinn langþreyttur og því ginkeyptari en ella fyrir gylliboðum öfgamanna. Auðvitað var lýðræðissinnað fólk einnig á götum úti, fólk sem hræðist yfirgang Moskvuvaldsins - þekkir það af biturri reynslu -  og berst fyrir úrbótum á stjórnarfarinu í landi sínu. Framhjá því verður hins vegar ekki horft að fasísk öfl voru í fararbroddi þegar ofbeldi var beitt án sýnilegra mótmæla. Við hljótum þó að taka undir með öllum sem mótmæla spillingu.
En hún á víða heima, spillingin. Svo eru það öll hin sem voru ekki bara spillt heldur sek um hræðilega glæpi. George W. Bush fyrrum Bandaríkjaforseti má þakka fyrir að þurfa ekki að koma fyrir stríðsglæpadómstól! Þetta kemur upp í hugann af tilefni atburða síðustu daga og yfirlýsinga helsta herveldis heimsins í tengslum við þá.  

Hinn 21. febrúar sl. var gert samkomulag í Kænugarði að því er okkur var birt í fjölmiðlum. Að kröfu Evrópuríkja lét Yanukovych forseti völd sín af hendi að verulegu leyti, lögreglan dró sig tilbaka, kosningum var flýtt. Samkomulagið stóð í tvær klukkustundir. Þá héldu vopnaðar sveitir fasista áfram að taka yfir stjórnarbyggingar. Og í vestrænum fjölmiðlum var almennt glaðst!

Sjálfur hef ég aldrei komið til Úkraínu og þekki sögu þess lands og aðstæður þar nú, mjög takmarkað. En ég er þó búinn að lesa mér til og talsvert nú síðustu dagana greinargerðir færustu rannsóknarblaðamanna. Sem betur fer virðast þeir vera að hrista af sér slyðruorðið vestanhafs eftir rothöggið sem þeim var veitt við árásirnar á tvíburaturnana í september árið 2001. Þá urðu þeir fyrir mjög sýnilegri þöggun sem Bush forseti og félagar unnu ötulluega að. Sá sem andmælti fasískum vinnubrögðum þessara ráðamanna var hrópaður niður sem föðurlandsóvinur og þaðan af verra.
Þetta virðist vera að breytast. Það má sjá í gagnrýnum skrifum vestanhafs um tvískinnunginn sem fram kemur hjá talsmönnum  Bandaríkjanna, öflugasta heimsveldis jarðarinnar, um framferði annars stórveldis.

Pútín Rússlandsforseti er ekki barnanna bestur. Og er ömurlegt að fylgjast með því hvernig hann traðkar á mannréttindum í sínu heimalandi.  

En skyldi fólk almennt vita að kröfur þeirra sem hafa rænt völdum í Úkraínu ganga í sömu réttindaskerðingar áttina: Til dæmis réttindaskerðingu gyðinga og réttindaskerðingu rússneskumælandi manna sem hafa haft þá vörn í lögum að tunga þeirra skuli virt?

Sjálfur hef ég ekki séð þessar kröfur orðréttar á blaði eða lagasetningu þessa efnis. En þetta fullyrða vandaðir rannsóknarfréttamenn sem fylgjast nú grannt með atburðarásinni.

Kannski hef ég misst af einhverjum íslenskum fréttaskýringarþáttum þar sem upplýsingar af þessu tagi koma fram en ég sakna þess að fá ekki nánari skýringar á viðbrögðum Rússa í íslenskum fjölmiðlum. Fréttaskýrendur mættu líka segja okkur frá vangaveltum um að það hafi verið leyniskyttur úr röðum nasista sem drápu áttatíu manns í Kænugarði rétt áður en forsetanum var steypt af stóli  - fólk úr báðum fylkingum, margir lögreglumenn voru skotnir á færi auk mótmælenda. Var þetta gert til að skapa rinulreið og glundroða?

Við skulum heldur ekki gleyma hinni sögulegu vídd. Rússar hrintu af sér árásum nasista fyrir ekki svo ýkja mörgum áratugum og vita hvað það þýðir að hafa þá í dyragættinni. Og þegar rússneskir ráðmenn segjast nú sjá það fyrir sér að næst verði ákveðin í Washington  "stjórnarbreyting" ("regime change") í Rússalndi, þá er það ekki alveg út í hött. Vitað er að slík áform voru ofarlega á blaði hjá Dick Cheney, fyrrum varnarmálaráðherra og varaforseta Bandaríkjanna , og fleiri haukum í ríkisstjórn George W Bush.

Menn hamast við að segja að staðan í Úkraínu sé flókin. Og vissulega eru þar mörg þjóðabrot og án efa takast mismunandi hagsmunir á og sagan samofin úr ólíkum þráðum. Í þeim skilningi er staðan flókin. En er það sem nú á sér stað ef til vill fremur einfalt?

Er þetta ef til vill mynstur sem við þekkjum orðið nokkuð vel frá hendi bandaríska heimsveldisins og hjálparkokka þess í Evrópusambandinu og NATÓ; gerendanna í Írak, Afganistan og Líbíu ... og nú í Úkraínu? Ef þessir aðilar eru ekki gerendur þar, þá altént meðvirkir hjálparkokkar. Með áherslu á síðari hluta orðsins, virkir!
Nýnasistar fánar
Bláir fánar nýnasista með áletrunum yfirgnæfa önnur tákn í göngunni. 
 nýnasisti
Nýnasistar IV
Nýnasistafáninn I
Kveðjuna ættu allir að þekkja.
Nýnasistar - fundur fáni
Fáni nýnasista í forgrunni.
Nýnasistar með hakakrosa
 

Fréttabréf