BÖRN ERU EKKI DEILUAÐILAR
Birtist í DV 06.08.14.
Allur almenningur
í heiminum stendur agndofa frammi fyrir ofbeldinu sem Ísraelar
beita Palestínumenn, nú síðast á Gaza. Og forsvarsmönnum margra
ríkja heims er órótt. Þegar ráðist er á flóttamannabúðir á vegum
Sameinuðu þjóðanna, talar framkvæmdastjóri SÞ um stríðsglæpi.
Frakklandsstjórn segir nú í byrjun vikunnar að Evrópusambandið
verði að beita sér af meira krafti til í að stöðva blóðbaðið.
Bandaríkjastjórn tekur undir. Líka íslensk stjórnvöld. Það er gott.
En svo kemur hún, setningin sem gerir gagnrýnina nánst að
engu: "Ísrael hefur rétt til að verja sig!"
Leynilykillinn
Þetta er siðlausasta setningin af þeim öllum. Vegna þess samhengis
sem hún er í. Þegar ríkisstjórn lýsir yfir fordæmingu, þá leggja
Ísraelar, Bandaríkjamenn og aðrir stuðningsmenn ofbeldisins við
hlustir. Vantar nokkuð þessa litlu setningu? Leynillykilinn sem
gerir alla fordæmingu að engu, setur alla vega lítið vinablikk í
augað: " Þetta er vissulega hrikalegt af hálfu Ísraelsríkis, og
framferði þess ber að fordæma, en það hefur jú rétt á að verja
sig!" Og þetta er sagt þegar allur heimurinn sér að ráðist er gegn
saklausu fólki, börn myrt, skólar eyðilagðir, sjúkrahús og
sjúkrabílar, rafveitur, vatnsveitur, allt er eyðilagt sem gerir það
mögulegt að lifa af á Gaza, þessu stærsta fangelsi heimsins,
umsetið og afgirt. Og nú undir sprengjuregni. Þetta eru ekki varnir
heldur grimmilegt árásarstríð.
Ógnaröldin úthugsuð!
Mynstrið er orðið gamalkunnugt: Með reglulegu millibili gerir
Ísraelsher árás á Gaza. Árásirnar eru hugsaðar sem ofbeldisárásir
svo hrikalegar að þær hafi lamandi áhrif. Þær eru líka hugsaðar og
taldar nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að Palestínumenn geti
komið sér upp varnar- og árásarviðbúnaði sem kynni að reynast
Ísraelum raunverulega hættulegur. "Við erum langt komin með að
eyðileggja jarðgöngin sem liggja út af Gaza", tilkynnti Ísraelsher
á mánudag. Og að sjálfsögðu er herinn líka búinn að eyðileggja þann
búnað sem til var á Gaza til að skjóta eldflaugum á Ísrael. Látum
það vera ef þar hefði verið staðar numið því. En það var ekki gert
enda hafa Palestínumenn ekki rétt til að verja sig!
Stefið kyrjað án afláts
En hvað Ísrael áhrærir þá glymur stefið, sem vinaríkin kyrja við
mótmæli sín gegn banramorðunum: "Ísrael hefur rétt til að verja
sig". En er virkilega sama hvernig það er gert? Verður ekki
rétturinn að engu þegar vörnin er fólgin í árásarstríði og
stríðsglæpum?
Ísraelar tala sjaldnast um palestínsk börn eða starfsfólk skóla og
sjúkrahúsa. Öllu fólki er dengt undir eina regnhlíf, eitt samheiti:
Hamas. Og það er gegn Hamas sem Ísrael segist vera að verja
sig.
Deilt og drottnað
Ekki er ég aðdáandi Hamas. En Hamas sigraði í kosningum árið
2006, fékk meirihluta á þingi, 74 þingsæti af 132. Það er staðreynd
og það er líka staðreynd að þá sameinaðist allur hinn
vestræni heimur í því að fordæma Hamas, sniðganga lýðræðislega
niðurstöðu palestínsku þjóðarinnar. Ýmis ríki sem stutt höfðu
uppbyggingu í Palestínu, þar á meðal Evrópusamandið, lokuðu fyrir
fjárstuðning. Sá ljóti leikur byrjaði fljótlega að ganga upp,
spilið sem heitir að deila og drottna. Og síðan þegar það
gerist núna nýlega að hreyfingar skipulagðra stjórnmálaarma
Palestínumanna, Hamas og Fatah, virtust vera að ná saman, þá þurfti
aftur að hella olíu á hatursbál þeirra í milli, allt til að geta
deilt og drottnað.
Þá drepum við öll börn!
Og þess vegna er nú sprengt og myrt og eyðilagt sem aldrei
fyrr. Nú þarf nefnilega að gera andstæðingum Hamas það ljóst að
hvers kyns samastarf við þau samtök þýðir að börn allra annarra
verða í hættu, og rafmagnið tekið af þeim líka og vatnið - ef menn
voga sér samstarf við Hamas.
Og ríki hins vestræna heims syngja viðlagið, Ísrael hefur rétt til
að verja sig.
Virðingarvert framtak
Ég tek ofan fyrir þeim rúmlega sjö þúsund Íslendingum sem hafa
skrifað undir áskorðun um að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.
Ég geri það vegna þess að þetta fólk sýnir í verki að það vill
leita leiða til að stöðva ofbeldið og sýna á áþreifanlegan hátt
andstyggð sína á því.
Lífæðin til Palestínu
Það er með nokkrum trega að ég er ekki með nafn mitt þarna á
blaði. Ég vil nefnilega ekki slíta stjórnmálsambandi vegna
þess að eftir það myndu Ísraelar sjá til þess að enginn Íslendingur
færi inn í Palestínu og þar með hefðum við því klippt á þá lífæð
sem hugsjónafólkið sem heimsótt hefur Palestínu á undanförnum árum,
dvalist þar og starfað, hefur haldið opinni og fyrir vikið höfum
við verið upplýst um gang mála og jafnframt stuðlað að uppbyggjandi
og styrkjandi samskiptum við Palestínumenn - og friðarsinna í
Ísrael - gleymum ekki því hugrakka fólki!.
Þarf að gefa í!
Hitt þykist ég vita að áhrifaríkast væri að slíta
stjórnmálasambandi við Bandaríkin. Það kæmi við okkur sjálf sem
sýndi aftur hver alvara byggi að baki. Hins vegar er ég ekki
talsmaður stjórnmálslita almennt. Ég vil halda leiðum opnum og gera
nákvæmlega það sem síðasta ríkisstjórn gerði, viðurkenna Palestínu,
tala máli hennar eins og fyrrverandi utanríkisráðherra gerði
hjá Sameinuðu þjóðunum, koma skilaboðum á framfæri við ísraelsk
stjórnvöld, sniðganga vörur frá Ísrael, og mæta til mótmæla við
sendiráð Bandaríkjanna. Á öllum þessu sviðum þurfum við að gefa
í.
Kúgarar og kúgaðir
Og alltaf þegar við heyrum stefið gamalkunna um réttinn til að verja sig og nauðsyn þess að deiluaðilar nái saman, þá þurfum við að minna á það að börnin og allur almenningur í Palestínu er enginn deiluaðili fremur en svart fólk í Suður-Afríku fyrir ekki svo ýkja löngu. Þar voru hins vegar kúgarar og kúgaðir.